Úur og Kvennaskólafrumvarpið

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar:

Á vordögum árið 1969 ákvað stjórn Kvenréttindafélagsins að halda fund með konum í félaginu sem voru yngri en þrjátíu og fimm ára. Á þessum tíma bar ekki mikið á ungu konunum sem voru í Kvenréttindafélaginu og þær störfuðu lítið innan félagsins. Stjórn félagsins sá að við svo búið mátti ekki standa og að frumkvæði Önnu Sigurðardóttur var ákveðið að blása til umrædds fundar. Mikil gerjun var á þessum árum erlendis í málefnum kvenna og öðrum mannréttindamálum  og ferskur andi nýrra kvennahreyfinga var farin að berast hingað. Sífellt fleiri konur hér á landi öfluðu sér starfsmenntunar og  konur sóttu í auknum mæli út á vinnumarkaðinn sem kallaði á ný og breytt úrræði, til dæmis hvað varðar dagvistunarmál barna. Það var því ljóst að ýmis mál brunnu á ungum konum en spurning hvort til væri vettvangur þar sem þær gætu hist og rætt þau.

Í hópnum sem fenginn var til skrafs og ráðagerða voru nokkrar dætur kvenna í Kvenréttindafélaginu, til dæmis Ásdís dóttir Önnu, Guðrún systir mín og ég en móðir okkar, Sigurveig Guðmundsdóttir, starfaði lengi innan  Kvenréttindafélagsins og var um skeið formaður þess. Síðan bættust konur í hópinn sem ekki voru í Kvenréttindafélaginu. Þessi óformlegi hópur tók sér nafnið Úur, en hugmyndina að nafninu átti Steinunn Finnbogadóttir, og gekk hópurinn  undir Úu-nafninu meðan hann starfaði. Hópurinn starfaði sjáfstætt en í tengslum við Kvenréttindafélagið. Úur komu úr ýmsum áttum, höfðu ólíkar sjórnmálaskoðanir og sinntu mismunandi störfum. Allar höfðum við hins vegar áhuga á málefnum kvenna og fundum vel á eigin skinni hve víða var pottur brotinn hvað hvað þau mál varðaði í samfélaginu. Með tilkomu Úanna má segja að sá ferski andi sem var tekinn að blása í málefnum kvenna erlendis hafi fest rætur hér á landi.

 

Kvennaskólafrumvarpið

Fyrsta málið sem Úur höfðu opinberlega afskipti af var Kvennaskólafrumvarpið svonefnda. Fyrir Alþingi lá árið 1969 frumvarp til laga um að Kvennaskólinn í Reykjavík fengi að útskrifa stúdenta, skólinn yrði áfram eingöngu fyrir stúlkur og sérstök áhersla yrði lögð á það sem í frumvarpinu var kallað „kvennafög“. Úur voru ekki sáttar við frumvarpið eins og það var lagt fram. Þær voru sammála því að skólinn fengi að útskrifa stúdenta en ekki að hann yrði eingöngu ætlaður stúlkum. Ákveðið var því að gera athugasemdir við frumvarpið og senda alþingismönnum greinargerð um málið. Í greinargerðinni segir meðal annars:

„Farsælast er að piltar og stúlkur séu alin upp sem jafningjar og njóti raunverulegra jafnra réttinda og möguleika, séu samábyrg í lífi sínu og byggi lífsafkomu sína á eigin námi og starfi.

Íslenskum konum var með lögum árið 1911 veittur lagalegur réttur til að stunda nám í öllum menntastofnunum landsins. Hins vegar er piltum nú með frumvarpi þessu meinaður aðgangur að vissri menntastofnun. Samræmist þetta tæplega jafnréttis- og frelsishugsjónum nútímans.

Við teljum tilmæli Kvennaskólans í Reykjavík um réttindi  til að brautskrá stúdenta ekki spor í rétta átt, nema þá og því aðeins að ytri aðstaða skólans breytist og piltum verði veitt innganga í skólann.“

Í greinargerðinni sagði líka:

„Samkvæmt íslenskum fræðslulögum og reglugerð menntaskólanna eiga þeir að vera samskólar.“

Úur sendu alþingismönnum jafnframt bréf með greinargerðinni þar sem segir:

„Upphaf þessa máls er að nokkkrar ungar konur, sem oft hafa komið saman til þess að ræða þjóðfélags- og jafnréttismál, ákváðu að leita stuðnings ungra kvenna við áskorun til Alþingis um að samþykkja ekki Kvennaskólafrumvarpið. Ætlunin var að fá stuðning um 100 kvenna úr sem flestum stéttum en þegar undirskriftasöfnunin var hafin s.l. sunnudag, reyndist áhugi á málinu svo almennur, að ekki var unnt að halda söfnuninni innan áætlaðra takmarka. Félag stúdenta í Heimspekideild hafði tekið frumvarpið til umræðu í blaði sínu „Garmi“ og veitti málinu stuðning með söfnun undirskrifta. Í gær var söfnuninni hætt, þar sem undirbúningur leyfði ekki að hún yrði víðtækari en orðið var, þó að óskum linnti ekki um að fá að styðja áskorunina.“

Undirskriftirnar urðu að lokum um það bil 800 talsins og hefðu auðveldlega getað orðið mun fleiri. Í kjölfarið var haldinn mikill hitafundur um málið á Hótel Sögu. Meðal þeirra sem þar töluðu voru þingmennirnir Eysteinn Jónsson, Hannibal Valdimarsson, Magnús Kjartansson og Gils Guðmundsson en aðalræðumaður kvöldsins af hálfu Úanna var Katrín Fjeldsted læknir. Ýmsir fleiri  málsmetandi karlar og konur tóku til máls og var mönnum heitt í hamsi.

Úrslit málsins urðu þau að frumvarpið í þeirri mynd sem það var fyrst sett fram var fellt. Nokkru seinna var síðan samþykkt að Kvennskólinn fengi að útskrifa stúdenta en þá hafði skipulagi skólans verið breytt og piltar fengið þar inngöngu.

Segja má að þetta fyrsta mál sem Úur tóku að sér hafi fært þeim byr í seglin og verið hvatning til frekari átaka. Þó að Kvennaskólamálið væri ekki stórmál þá var það að mörgu leyti táknrænt fyrir þær miklu breytingar sem áttu sér stað í samfélaginu á þessum tíma. Ætlun Úanna var aldrei að klekkja á þeirri merku stofnun sem Kvennaskólinn í Reykjavík var heldur vekja athygli á því misrétti sem væri fólgið í því að með frumvarpinu væri piltum meinaður aðgangur að skólanum.

Sjá einnig Uppreisnin í Kvennaskólanum

Gullveig Sæmundsdóttir maí 13, 2019 07:43