Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri skrifar
Fyrir mörgum árum eignaðist ég rafmagnsrúm sem er einhver besta fjárfesting sem við hjón höfum lagt í. Gott rúm kostar auðvitað sitt en er líka ómetanlegt þar sem við verjum um það bil þriðjungi ævinnar í rúminu. Dýnurnar í rúminu eru tvær sem ég held að sé reglan þegar um rafmagnsrúm er að ræða. Undir því er mótor og fjarstýringar sitt hvoru megin þannig að við getum hvort um sig stjórnað því hvernig við kjósum að hafa rúmið hverju sinni. Reyndar reynir aðeins á rafmagnið mín megin en þar nýtist það líka sannarlega vel. Undantekningalaust hef ég bók á náttborðinu og les aðeins fyrir svefninn og þá koma þægindin af rafmagninu til sögunnar. Ég hækka höfðalagið töluvert, líka aðeins til fóta og kem mér svo vel fyrir með einhverja góða bók. En um daginn kom babb í bátinn. Ég var að lesa aðeins eftir að minn heitt elskaði var sofnaður. Slökkti síðan ljósið og teygði mig í fjarstýringuna til þess að geta lækkað rúmið eins og ég hef gert árum saman. En viti menn. Ekkert samband! Ég læddist fram úr, tók tengilinn úr sambandi, sneri honum og sett aftur í samband. Sama hvað ég reyndi – rúmið var fast í lestrarstellingunni. Sem betur fer er rúm í gestaherberginu sem ég gat skriðið upp í. Um leið og ég vaknaði daginn eftir reyndi ég við fjarstýringuna en ekkert gekk. Rúmið haggaðist ekki. Ég ákvað því að skrifa skilaboð til verslunarinnar sem seldi okkur rúmið og spyrja hvað væri til ráða. Elskulegur maður svaraði og benti mér á að reyna enn einu sinni við fjarstýringuna. Ef það dygði ekki skyldi ég fara eftir því sem fram kæmi í Youtube-myndbandi sem hann sendi mér. Eftir að hafa enn einu sinni sannreynt að ekkert samband væri á rafmangsrúminu mín megin kveikti ég á myndbandinu. Þar kom fram að ég ætti að ná mér í vasaljós, skríða síðan undir rúmið. Undir því væri takki sem ljós logaði á. Ég ætti að þrýsta á takkann, halda honum niðri í þrjár sekúndur og þá ætti allt að vera komið í lag. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um að við hjón erum ekki mjög vel í stakk búin til að skríða undir hjónarúmið. Ég veit því ekki hvort ljósið sem mér var bent á logar enn. En ég á vasaljós! 😊 En sem betur fer gerðist nokkuð gleðilegt: Rafmagnið kom jafn skyndilega á aftur og það hafði horfið á sínum tíma – án þess að ég skriði undir rúmið með vasaljós og þrýsti á eitthvert torkennilegt ljós. Ég fer því bara varlega með fjarstýringuna og geymi Youtube-myndbandið til betri tíma.
Tæknin hefur því miður valdið mér vandræðum á ýmsum öðrum sviðum. Ég á til að mynda oft í mesta basli með tölvuna. Stundum þegar mér er mikið niðri fyrir og vélrita hratt detta allir íslensku stafirnir út og í stað þeirra koma tvípunktur, skástrik, samasemmerki eða eitthvað annað sem sannarlega á ekkert erindi í textann sem ég er að skrifa. Eina leiðin sem ég hef fundið er að slökkva á tölvunni og endurræsa hana. Sem betur birtast þá íslensku stafirnir aftur. Ef vandinn reynist flóknari en svo að ég nái að leysa hann koma barnabörnin til sögunnar.
Um daginn fór rafmagnið hér stutta stund að nóttu til. Það var komið á aftur þegar við fórum á fætur og allt virtist tengt og í góðu lagi. En þegar betur var að gáð reyndist svo ekki vera. Netið var dottið út og slíkt er stórmál í heimi fólks eins og okkar hjóna sem fylgjumst vel með fréttum og viljum hafa fingurinn á púlsi samfélagsins. Við byrjuðum á að taka sjónvarpið úr sambandi og stinga síðan aftur í samband og héldum að það myndi duga. Sú varð ekki raunin og enn einu sinni komu barnabörn til sögunnar. “Þið verðið að slökkva á rádernum,” voru fyrstu leiðbeiningarnar í gegnum síma. Við gerðum það og biðum svo um stund eins og okkur hafði verið ráðlagt. Ekkert gerðist þegar við kveiktum aftur á græjunni. Þegar viðgerðarkonan mætti kom í ljós að við höfðum slökkt á gömlum afruglara en ekki rádernum.
Sem betur fer er allt tengt og í góðu lagi þessi stundina. Ef eitthvað fer úrskeiðis á þeim vettvangi er gott að eiga unga fólkið að. Þau eru fædd inn í heim tölva og tækni og eiga ekki í neinum vandræðum með að aðstoða mig við ýmislegt sem mér er um megn að takast á við. En ég kann líka ýmislegt sem þau kunna ekki og hef til dæmis getað hjálpað þeim aðeins með setningafræði og hvernig skuli greina frumlag, andlag og einkunn sem í þeirra huga er jafn flókið og ýmis tæknimál eru í mínum huga.