Þýðir ekkert að segja að það séu ekki til peningar

 

Hershöfðinginn hélt ræðu sem vakti mikla lukku.

Hershöfðinginn hélt ræðu sem vakti mikla lukku.

Grái herinn og  Félag eldri borgara héldu fjölmennan fund á Austurvelli á fimmtudag. Sveinn Guðjónsson blaðamaður á eftirlaunum talaði á fundinum og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB í Reykjavík flutti ávarp.  Það gerði einnig Helgi Pétursson hershöfðingi Gráa hersins og sagði þetta:

„Ég var spurður að því um daginn hvort Grái herinn, sem her, ætti sér einhverja óvini?  Satt að segja vafðist mér tunga um tönn – hafði ekki hugsað út í það, enda hélt ég að við værum í vinsamlegum samskiptum við umhverfið að krefjast sanngjarnra eftirlauna sem við værum hvort sem er búin að safna fyrir með greiðslu skatta til Tryggingastofnunar ríkisins og með því að safna lífeyri í lífeyrissjóði.

Gamalreyndur jaxl úr verkalýðsbaráttu benti mér hins vegar á óvinina:  Það eru andlitslausir embættismenn í öllum ráðuneytum!

Og við skulum ekkert fara í grafgötur með þetta. Hugum að viðhorfi til eldra fólks hér á landi:  Ég vil vitna í grein í Fréttablaðinu í morgun: Gamalreyndur bardagamaður Björgvin Guðmundsson spyr: Hví eru stjórnvöld hér neikvæð gagnvart öldruðum?  Hann segir:

„Það er verkefni sálfræðinga að rannsaka hvers vegna stjórnmálamenn og ráðamenn hér hafa neikvæða afstöðu til eldri borgara – til eldra fólks- „ . Það er verkefni sálfræðinga!

Og Harpa Njálsdóttir, –  einn helsti sérfræðingur okkar í velferðarrannsóknum ritar grein í Morgunblaðinu í morgun.  Þar skoðar hún hugmyndir um breytingar á lögum um kjör aldraðra sem liggja nú fyrir

Ásdís Skúladóttir var fundarstjóri og Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Félags eldri borgara hélt ávarp á fundinum.

Ásdís Skúladóttir var fundarstjóri og Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Félags eldri borgara ávarpaði fundinn.

Alþingi.

Harpa kemst að ótrúlegri niðurstöðu – að núverandi kerfi sem mótmælt hefur verið lengi og  þvælt um, sé skömminni skárra en þær breytingartillögur sem fyrir liggja!  Skorar á alla að stöðva fyrirhugaðar breytingar áður en skaðinn er skeður.

Gleymum því ekki að nýja frumvarpið er byggt á 11 ára vinnu í tveim fjölmennum nefndum. Ellefu ára vinnu!  Til hvers?  Maður hlýtur að spyrja sig, hvort ráðamönnum og stjórnmálamönnum sé það einfaldlega ofviða að sinna málefnum aldraðra og þeir hafi einfaldlega ekki áhuga á því!

Að undanförnu hef ég  hitt fjöldann allan af ráðamönnum og stjórnmálamönnum og heyrt dularfullan tón – viðhorf sem ég áttaði mig ekki alveg á…….Getur það verið að það viðhorf sé til meðal svokallaðra ráðamanna –  að ef við fáum 300 þús kr. lágmarkslaun og höldum okkar eigin lífeyrisgreiðslum óskertum – að við séum að fá of mikið!!!!

Ég hef heyrt setninguna : Eftirlaun almennings mega ekki keppa við atvinnulífið….þið eigið ekki að hafa það betra en þið höfðuð þegar þið voruð á vinnumarkaði……

Getur þetta verið – hvaða þrælahaldshugsun er þetta – Af hverju var ég að safna í lífeyrissjóð?

Málið er þvælt fram og til baka – sífellt talað um kjör aldraðra og öryrkja.  Hvaða samleið eiga þessir hópar?  Ég skal verja kjör öryrkja hvar og hvenær sem er, en það er umræða sem á enga samleið með baráttunni um eftirlaunin mín. Það er allt annar handleggur.

Fundarmenn létu smá rigningu ekki á sig fá.

Fundarmenn létu smá rigningu ekki á sig fá.

Með þessum málflutningi er hins vegar verið að reyna að láta okkur fá samviskubit –  það er, að ef við fáum eitthvað til viðbótar, verði það tekið af öryrkjum!

Hugum að umönnun okkar elstu bræðra og systra – um hjúkrunarheimili – það vantar 570 hjúkrunarrými fyrir eldra fólk og langflest hér á höfuðborgarsvæðinu –  hugsið ykkur ef það vantaði 570 hjúkrunarrými fyrir börn. Við myndum auðvitað slást með kjafti okg klóm – en af hverju ekki fyrir aldraða?

Hjúkrunarheimilakerfið er rekið fyrir 26 milljarða sem greiddir eru út án samninga!  Ríkið og rekstraraðilar hafa ekki komið sér saman um árum saman – hvað eigi að greiða fyrir umönnun gamla sjúka fólksins – Og munum að hjúkrunarheimilakerfið er ekki hluti af umræðu um eftirlaunakerfið. Þetta er hluti af handónýtu heilbrigðiskerfi!

Það er spurt: Hvaðan eiga peningarnir að koma?

Í fyrsta lagi erum við búin að borga þetta allt saman- með því að greiða skatta til Tryggingastofnunar og safna í lífeyrissjóði.

Það voru kröfuspjöld á lofti.

Það voru kröfuspjöld á lofti.

Og enn til dagsins í dag – í morgun ræddu tveir alþingismenn úr stjórn og stjórnarandstöðu í útvarpi um nýjar hugmyndir sérstakrar nefndar um breytingar á skattkerfinu og voru bara prýðilega sammála –

Þar er bent á margskonar breytingar á skattkerfinu, en þar er líka bent á fleiri tekjumöguleika þjóðarinnar:

Sérstaklega er bent á aukinn arð af auðlindum til þjóðarinnar –að  koma í veg fyrir bókhaldsfiff stóriðjufyrirtækja, leggja kolefnagjald á flugið og stórhækka gistináttagjald.

Þýðir ekkert að segja okkur að það séu ekki til peningar.

Við munum þegar ekki voru til peningar.  Við munum þegar útgerðin var á hausnum. Við munum þegar fólksflóttinn var sem mestur í kjölfar aflabrests. Við munun  þegar hingað kom ekki kjaftur. Og við erum búin að ganga í gegnum allt stafrófið af efnahagsstjórnunarmistökum allra ríkisstjórna og allra flokka hingað til.

Við höfum samanburðinn. Reynsluna.

Ágætu fundarmenn. Nú hefst tími kosningaloforðanna. Við höfum reynslu af þeim. Skjalfesta reynslu meira að segja. Við erum 50 þúsund atkvæði. Það er það eina sem þetta fólk skilur. Fólkið sem beinlínis sýnir okkur óvild. Fylgjumst vandlega með og beitum þessum atkvæðum okkur til hagsbóta.

Látum þessi 50 þúsund atkvæði ráða niðurstöðu komandi kosninga!“

Ritstjórn september 9, 2016 13:51