Það á að vera gott að eldast í borginni

Það fer ekki fram hjá neinum að höfuðborg okkar Íslendinga hefur tekið miklum breytingum undanfarna áratugi. Borgin er gróðursælli en áður, hjóla- og göngustígar eru mjög víða og uppbygging mikil, ekki síst í úthverfum borgarinnar sem minna á gömlu góðu hverfin með kaupmanninn á horninu, veitingastöðum og þjónustukjörnum. Þetta eru þættir sem eru okkur sýnilegir en Dagur B. Eggertsson, fv. borgarstjóri og læknir, hefur horft á borgina með heilsugleraugum og öll uppbygging hefur sömuleiðis miðast við að heilsa borgarbúa sé í fyrirrúmi.

Heilsugleraugu í allri nálgun í borgarskipulagsmálum

Dagur gaf út bókina Nýja Reykjavík – umbreytingar í nýrri borg, fyrir nokkrum árum en þar vísar hann til þess að borgin hafi verið í miklum breytingafasa eins og samfélagið. Dagur hefur sagt að mjög margar jákvæðar breytingar hafi orðið, borgin sé blómlegri og skemmtilegri en að samfélagið sé að eldast. Heilsuborgarsýn hafi veiti honum innblástur sem hann hafi haft að leiðarljósi í störfum sínum.

„Borgir hafa áhrif á það hvort við erum líkleg til að fara út að ganga, hlaupa, hjóla og njóta lífsins utandyra. Þetta er heilsuborgarsýn sem mér finnst mjög mikilvæg. Þarna skipta grænu svæðin máli, leiksvæðin og skólalóðir barnanna.“

Helstu fyrirmyndir Dags í læknisfræði og borgarmálum voru læknar sem beittu sér fyrir betri borg fyrir um 100 árum, brýnum aðgerðum eins og bættum húsakosti og hreinu vatni, að skólpið væri ekki fyrir fótum fólks heldur færi í gegnum fráveitu. „Þessir slagir voru oft harðir. Guðmundur Björnsson, síðar landlæknir, sat í borgarstjórn í upphafi síðustu aldar og náði í gegn vatnsveitu eftir mikið ströggl, en var ráðlagt að hætta eftir að henni var komið á því það þurfti að leggja á vatnsgjald sem var gríðarlega óvinsælt jafnvel þó að mengun í brunnum hafi valdið dauða í Reykjavík í fjölmörgum tilfellum.“ Dagur hefur sagt að hann hugsi oft til hans og Guðmundar Hannessonar sem var læknir, þingmaður og brautryðjandi varðandi skipulagsmál, húsakost og betri híbýli.

Hörðu slagirnir í dag snúast helst um atriði tengd hreyfingu að sögn Dags. „Þetta eru atriði eins og að bæta almenningssamgöngur og ferðavenjur, hvort við setjum mikla fjármuni í stígagerð fyrir gangandi og hjólandi, hvort það séu bekkir fyrir fótafúna, græn svæði nálægt sem flestum heimilum og að þau séu notaleg með gróðri og svolítið falleg. Þessi lykilmál eru stundum kölluð gæluverkefni. En fleiri þættir skipta máli t.d. öryggi og á það sérstaklega við um konur en rannsóknir sýna að það hefur mikið að segja hvort það sé góð lýsing og annað fólk á ferli fyrir tilfinningu okkar um öryggi. Þetta tengist þéttleika byggðarinnar, að það búi margt fólk í nágrenni við þig og svo er það líka að hafa ekki of langt milli heimilis og vinnu því þá ver fólk of löngum tíma í bílnum, hreyfir sig minna og notar síður það sem er kallað virkir ferðamátar; að ganga, hjóla og almenningssamgöngur. Nýja hugsunin í samgöngumálum er nátengd  heilsuhugsuninni að hafa almenningssamgöngur það góðar að þær verði aðlaðandi kostur.

Í borgum þar sem þessir þættir eru vel heppnaðir eru minni vandamál sem tengjast ofþyngd, hreyfingarleysi o.s.frv.“

Ótímabær andlát sem rekja má til svifryks

Nátengt þessu eru heilsufarþættir sem tengjast umferð, hljóðvist og loftmengun. Dagur telur að allt að 40-80 andlát megi rekja til svifryks á Íslandi á ári hverju. Evrópskar rannsóknir sýni það og að flest bendi til að yfirfæra megi þær á aðstæður hér. Kostirnir séu því ótvíræðir að búa til heilsusamlega borg en það er ekki þar með sagt að það sé óumdeilt sem til þarf. „Það sem er augljóst eru neikvæð áhrif á þá sem eru með astma og aðra öndunarfærasjúkdóma en það sem kemur á óvart, bæði í íslenskum rannsóknum og erlendum, er fylgni milli magns svifryks í lofti og hjarta- og heilaáfalla, þannig að það virðist vera eitthvað sem gerir það að verkum að á vondum dögum geta svona agnir orsakað slík áföll sem við venjulega rekjum til segamyndunar í blóðrás.“ Þarna hefur verið að sögn Dags að skapast mjög mikil þekking. Við séum þó heppin, Reykjavík sé hrein borg og loftið gott samanborið við margar aðrar.

Borgarskipulag hefur áhrif á tengingu fólks

Góðar borgir eru líflegar og skemmtilegar en þar á líka að vera gott að eldast. Eitt af leiðarljósum Dags í starfi var að skapa borg þar sem er gott væri að eldast, vera virkur og hluti af samfélaginu. Göngu- og hjólastígum hefur fjölgað gífurlega um borgina og í covid-faraldrinum nýtti fólk göngustígana til að halda betur í andlega heilsu. „Þegar líkamsræktarstöðvarnar lokuðu fór fólk út á stígana og hvað er mikilvægara en heilsan og þá mikilvægara í borgum en heilsutengdir innviðir?

Og Dagur hefur lagt áherslu á að hafa sundlaug í öllum hverfum ásamt þjónustukjarna þar sem finna má m.a. veitingastað o.fl. Nú er fyrirhugað að byggja sundlaug í Fossvogsdal, samstarfsverkefni Reykjavíkur og Kópavogs, sem verður tengd útivist þar. „Ég hef stundum sagt um þessa framtíðarsýn að það eru ekki svo mörg ár síðan átti að þröngva fjögurra akreina hraðbraut þarna í gegnum Fossvogsdalinn, þá var við lýði þessi sýn að leysa öll okkar umferðarvandamál með hraðbrautum. En nú eigum við þennan dal með reyndar mikil umferð en hún er hjólandi og gangandi. Að gera græn svæði er mjög mikilvægt í mínum huga og það að hafa sundlaug í auðveldu göngu- eða hjólafæri í öllum hverfum er nátengt hugsuninni um heilsufar borgarbúa. Þess vegna brenn ég fyrir að fjölga sundlaugum þar sem þarf. Síðasta sundlaugin sem var tekin í notkun var í Úlfarsárdal. Nýtt skipulag fyrir nýjan Ártúnshöfða og stækkun Bryggjuhverfisins en þar sjáum við fyrir okkur laug í Elliðaárvoginum, niðri við sjávarmálið.“ En Dagur vill sundlaug í öll hverfi og ekki að ástæðulausu því hann hefur sagt að ekki megi gleyma því að borgarskipulag geti einnig haft áhrif á hversu vel við tengjumst öðru fólki og þættir eins og sundlaug í göngufæri geti ýtt undir að fólk, og sérstaklega eldra fólk,  eigi í meiri tengslum við aðra, einangrist síður og líði betur. Hann telur að það megi horfa á ótalmargt í borgarmálum með þessum heilsugleraugum, líðanina og sálina, að finnast maður sé hluti af samfélagi.

Sálræn áhrif grænna svæða talin jákvæð

Borg þarf að hafa ákveðna þætti til að teljast hafa góð áhrif á lýðheilsu og á fólkið sem býr þar en heilsueflandi innviðir og aðstaða, græn svæði og fallegt og aðlaðandi umhverfi með góðum torgum og almenningsgörðum eru dæmi um slíkt. Sálræn áhrif grænna svæða eru talin jákvæð ein og sér en þau stuðla líka að hreyfingu fólks.

„Aðrir þættir sem stuðla að góðri heilsu eru þeir sem hvetja til eða tryggja þátttöku og alls konar lærdóm. Þetta má kalla jafnaðartæki, eins og almenningsbókasöfn þar sem fólk þarf ekki endilega alltaf að borga. Borgir eru fólkið sem býr þar, ekki húsin, borgarmál snúast að miklu leyti um þjónustu við fólk,“  hefur Dagur sagt.

Eitt af helstu leiðarljósunum Dags hefur verið að lýðheilsa og heilsuborgin séu ávallt höfð í huga við allar ákvarðanatökur og þróun borgarinnar. Þar sé mikilvægt að hugsa hvert og eitt hverfi sem sjálfbæra einingu, að fólk geti nálgast sem mest þjónustu í sínu hverfi. „Nærþjónusta er mikilvæg fyrir þá sem eru á vinnumarkaði en ekki síður fyrir t.d. elsta hópinn. Fólk vill geta sest niður eftir vinnudaginn og fengið sér kaffibolla með félögunum og farið í sund og því hefur mitt markmið verið að hafa sundlaug í hverju hverfi, kaupmann á horninu, kaffihús og bakarí. Ég er kannski gamaldags en mér finnst sjarmerandi að sá sem afgreiði þig þekki þig nánast með nafni, það býr til samfélag og eitt af því sem við höfum skoðað eru hverfakjarnarnir sem voru mikilvægir og eru sem betur fer að ganga í endurnýjun lífdaga. Það passar enginn upp á Reykjavík nema við sjálf. Við þurfum að hafa sjálfstraust til að fara okkar eigin leið. Það er mikilvægt að við berum virðingu fyrir sögunni og því sem gerir Reykjavík að borginni sem við þekkjum. Borgir sem mér finnst mest spennandi eru þær sem þróa sig í græna átt, takast á við loftslagsmálin, leggja áherslu á lífsgæði íbúa, þróun grænna svæða og gera skemmtilega hluti eins og að hafa eitthvað óvænt á næsta götuhorni.“

Samspil borgarskipulags og lýðheilsu mjög mikið

Samspil borgarskipulags og lýðheilsu er mjög mikið, að mati Dags, t.a.m. er sólarbirta og birta almennt mikilvæg. „Það var Guðmundur Hannesson, prófessor og læknir, sem gaf út rit árið 1916 um skipulag bæja, og lagði svolítið línurnar sem enn er fylgt. „Við reynum tryggja að fólk fái sólarljós, alla vega í görðum í næsta nágrenni og á leiksvæðum. Þetta þarf að passa þegar verið er bæði að þétta byggðina og byggja upp. Ég held mikið upp á sjóinn og það sem er svolítið einstakt við Reykjavík er þetta andrými. Ég vil leyfa mér að hugsa svæðið við Hörpu og út á Granda og meðfram Sæbrautinni þar sem útivistarsvæði sem við eigum að þróa eins og langan garð meðfram sjónum og smám saman bæta við listaverkum  eins og  Sólfarið og gera gönguleið frá Hörpu og út á Laugarnes sem samfellda upplifunarparadís. Þetta er okkar Sunset Boulvard.“

Í 92% tilvika hafa allir Reykvíkingar hafi aðgang að grænu svæði eða leikvelli í sínu nágrenni eða innan 300 metra. „Maður þarf að setja á sig lýðheilsugleraugun þegar maður horfir á borgina og hvernig hún þróast. Reykjavík er að mörgu leyti mjög mikil heilsuborg og við þurfum að muna það og auka það. Það eru sönn lífsgæði.“

Dagur segir að ein athyglisverðasta fréttin fyrir nokkrum árum sem fékk þó ekki stóru fyrirsagnirnar hafi verið sú að vindur í Reykjavík hafi minnkað um helming. „Þetta hefur gerst á síðustu áratugum og fólkið á heiðurinn af þessu, hér er jafnmikill vindur að meðaltali og í Kaupmannahöfn. Þetta er aðallega vegna gróðurs og í samspili við byggingar. Hér í eina tíð var mikið af ófrágengnum svæðum og alltaf vindur.“ Miðborgin hefur líka tekið stakkaskiptum til góðs á undanförnum árum. Degi finnst að fólk sem þekkir miðborgina, og jafnvel kaupmenn sem versla þar, megi draga oftar fram hvað hún er skemmtileg, fjölbreytt og aðgengileg. „En það viðmið að geta lagt bílnum beint fyrir framan búð og stokkið þar inn er óraunhæft og líklega nánast hvergi sem fólk geti gert þær kröfur í miðborgum.“ Hann hefur sagt að miðborgin sé hins vegar aðgengileg, hún hafi stækkað til allra átta og sé alltaf að verða meira aðlaðandi. „Þess vegna flykkist fólk í auknum mæli í miðborgina sem endurspegli að borgarbúar kunni vel að meta miðborgina sína.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn febrúar 29, 2024 07:00