Fólk ræddi starfslokin einungis við maka og yfirmenn

Inga Sif Ingimundardóttir

„Fólk virðist ekki hugsa mikið út í eftirlaunaaldurinn. Flestir skipuleggja líf sitt fram í tímann eins og hvað eigi að gera í fríum, en fólk skipuleggur ekki þennan hluta ævinnar, þrátt fyrir að hann spanni 20 til 30 ár af æviskeiðinu.  Ég held að það sé vegna þess að fólk kvíðir því að fjárhagurinn versni. Það verður svo mikil tekjuskerðing þegar fólk hættir að vinna,“ segir Inga Sif Ingimundardóttir nemi í náms og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Mastersritgerð Ingu Sifjar ber titilinn „Fyrst eftir að ég hætti að vinna, mér fannst það vera tilgangsleysi“ -Starfslok – félagslegur veruleiki og aðlögunarhæfni.

Í ritgerðinni ræddi hún við fjóra einstaklinga sem voru komnir á eftirlaun og höfðu verið á eftirlaunum í minnst tvö ár. Þá ræddi hún við jafnmarga sem voru að nálgast eftirlaunaaldurinn. Starfsferill menntun og fjölskylduhagir viðmælendanna var mjög fjölbreyttur. „Mig langaði að öðlast innsýn í félagslegan veruleika fólks við starfslok og kynnast aðlögunarhæfni þess við breyttar aðstæður, ásamt því að varpa ljósi á undirbúninginn fyrir þessi tímamót,“ segir Inga Sif.

„Meginniðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að undirbúningur viðmælenda fyrir starfslokin hafi verið takmarkaður og einskorðast við fjármál. Þátttakendur ræddu starfslokin við maka sinn og yfirmenn en leituðu sér engrar ráðgjafar eða annarra upplýsinga. Þeir þátttakendur sem komnir voru á eftirlaun höfðu aðlagast breyttum veruleika nokkuð vel, að eigin sögn. Þrír af fjórum þátttakendum sem enn voru á vinnumarkaði hugsuðu til eftirlaunaáranna með tilhlökkun og töldu sig eiga eftir að aðlagast daglegu lífi á eftirlaunum,“ segir hún og bætir við að niðurstöðurnar hafi ekki komið henni mjög á óvart heldur hafi þær staðfest það sem hún hafði áður talið.

Það vekur nokkra undrun að ung kona innan við þrítugt skuli fara að rannsaka eftirlaunaaldurinn. „Flestir samnemenda minna ætluðu að skrifa um eitthvað sem væri nær þeim í aldri. Mig langaði hins vegar að rannsaka eitthvað sem væri ekki mikið rannsakað. Á þeim tíma sem ég var að velja mér efni til að skrifa um var mikil umræða um eldra fólk og þá sem voru að fara á eftirlaun. Mér fannst þetta því alveg kjörið verkefni,“ segir hún.

Inga Sif segir í ritgerðinni að það sé erfitt fyrir fólk að verða sér úti um fræðslu hvað varðar félagslega þáttinn þegar fólk fer á eftirlaun. „Það er lítið  um heildræna stefnu varðandi ráðgjöf sem tengist starfslokafræðslu. Þó er eitthvað um að stéttarfélög og fyrirtæki skipuleggi námskeið í aðdraganda starfsloka og við starfslok, til að mynda standa  Efling og Mímir-símenntun að starfslokafræðslu . Sú fræðsla sem stendur fólki til boða einblínir einna helst á fjármál, lífeyrismál og tryggingar.“

Inga Sif er nú starfsþjálfun hjá Námsráðgjöf Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún segir að draumurinn sé að gera eitthvað meira með þetta efni. „Mig langar að fara út í ráðgjöf um eftirlaunaldurinn og hjálpa fólki að finna sér eitthvað að gera. Ráðgjöfin fyrir þennan aldurshóp þyrfti að vera markvissari en nú er og á sama tíma fjölbreytt. Ráðgjöfin ætti að snúa til dæmis að lífeyristöku, tryggingum og heilsu en þyrfti að hafa daglegt líf á eftirlaunum að leiðarljósi. Þegar daglegt líf á eftirlaunum er orðinn raunveruleiki fólks geta andlegir kvillar látið á sér kræla. Hægt væri að sporna gegn vanlíðan með endurbættri og markvissari starfslokafræðslu og ráðgjöf og byrja hana fyrr en nú er gert.“

Ritstjórn mars 3, 2017 11:32