Það sem aldrei má gleymast

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar  

Maður nokkur hóf störf hjá ríkisstofnun þegar hann lauk námi fyrir rúmum þrjátíu árum, eins og gengur og gerist. Hann var ánægður með hlutskipti sitt strax frá byrjun, enda að fást við það sem hann hafði áhuga á og kunni. Hann hélt tryggð við stofnunina og var kominn í stjórnunarstöðu eftir rúman ártug. En það er ekki á vísan að róa þegar pólitík er annars vegar, en ríkisstofnun hefur óhjákvæmilega í för með sér tengsl við þá tík. Og það átti svo sannarlega við um stofnunina þar sem okkar maður starfaði. Þegar hann hafði verið þar og sinnt sínu í tæpa tvo áratugi vildi ráðherrann, sem stofnunin heyrði undir, gera breytingar. Ýmsar skýringar voru gefnar en hin raunverulega ástæða var einföld: Ráðherrann vildi kom sínum mönnum að. Og einföld mál er auðvitað alltaf best að leysa með einföldum hætti. Það var gert í þessu tilviki, því stofnunin var einfaldlega lögð niður og ný sett á fót á grunni hinnar gömlu. Einfalt? Auðvitað, en rándýrt. Helstu stjórnendur misstu vinnuna og þar á meðal var maðurinn í þessari frásögn, sem reyndar er góður kunningi minn. Og það tókst sem að var stefnt, því vildarvinir ráðherrans tóku við stólunum í nýju stofnuninni.

Þetta var um síðustu aldamót. Þá var tiltölulega auðvelt fyrir flesta að fá vinnu. Kunningi minn haslaði sér völl á nýjum starfsvettvangi, þar sem hann undi hag sínum reyndar vel, og alls ekkert síður en á fyrri vinnustaðnum. En það gat ekki staðið lengi yfir því eftir tæpan áratug kom bankahrun, hvorki meira né minna. Fyrirtækið, sem hann hafði sýnt fulla tryggð frá því hann hóf störf hjá því, þrátt fyrir ýmis ágæt starfstilboð á starfstímanum, lenti í höndum nýrra eigenda. Þeir fengu fyrirtækið reyndar á spottprís, enda vildarvinir bankans sem hafði allt í höndum sér þá. Og nýju eigendurnir vildu breytingar. Þeir losuðu sig við stóran hluta af gamla liðinu sem fyrir var og réðu yngra fólk í staðinn, fólk með minni reynslu en kannski eigendunum meira að skapi. Nú var staðan breytt hjá kunningja mínum. Hann var kominn á miðjan aldur. Fyrir hann og fleiri í svipaðri stöðu hefur ekki verið um auðugan garð að gresja á vinnumarkaði frá bankahruni. Þrátt fyrir reynslu. Hann tekur þess vegna því sem býðst hverju sinni. Það er auðvitað til fullt af svona sögum. En við þá sögu sem hér er sögð er því við að bæta, að ríkisstofnunin sem ráðherrann fól vildarvinum sínum að stýra eftir að hafa lagt niður stofnunina sem kunningi minn starfaði hjá í tvo áratugi, varð tæknilega gjalþrota á innan við áratug. Af hverju tæknilega? Jú, ríkisstofnanir með ríkisábyrgð verða í raun ekki gjaldþrota öðruvísi. Menn spiluðu rassinn gjörsamlega úr buxunum enda misstu hinir nýju stjórnendur nýju stofnunarinnar, eins og ráðherrann einnig, sjónar á því sem mestu máli skiptir í þeirri starfsemi sem stofnunin fékkst við. Og einkafyrirtækið sem vinir bankans endurskipulögðu er í dag með um helmingi færri viðskiptavini en var þegar kunningi minn starfaði þar. Svona er þetta bara.

Sögur af þessu tagi eru ekkert rosalega spennandi. Það er hins vegar nauðsynlegt að halda þeim á lofti, sérstaklega nú þegar grímulaust átak er í gangi um að slá ryki í augu fólks. Átak þar sem áhersla er til að mynda á að sýna hina svokölluðu „human interest“ hlið á þeim sem dæmdir hafa verið fyrir þátt sinn í bankahruninu, á meðan ekki er svo mikið sem ýjað að því að þeir hafi hugsanlega eða kannski gert eitthvað rangt. Auk þess sem haldið er uppi linnulausum áróðri gegn réttarkerfinu og því haldið fram að það sé gjörsamlega glatað. Svo ekki sé nú verið að eyða orðum á þá sem tala alltaf um „hið svokallaða hrun“ eins og hér hafi ekkert hrun orðið. Hér varð auðvitað algjört hrun. Sumir báru meiri ábyrgð á því en aðrir. Og fjölmargir fóru illa út úr því. Það má ekki gleymast. Aldrei. En hver er svo mórall sögunnar? Að ekkert vit sé í því að vera tryggur sínum vinnustað? Að ekki sé hægt að treysta stjórnmálamönnum frekar en einkaaðilum? Nei, en auðvitað er til leið út úr þessu. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu sem kröfur hafa verið háværar á umliðnum árum um lýðræðisúrbætur. Og að sama skapi þarf engan að undra hverjir hafa staðið í vegi fyrir slíku.

 

Grétar Júníus Guðmundsson janúar 18, 2016 10:32