Fjörutíu nefndir og ekkert gerist

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Fyrir um þremur áratugum síðan héldu ýmsir að fundist hefði framtíðarlausn í húsnæðismálum. Einnig voru vonir bundnar við að komið væri gott innlegg í þann húsnæðisvanda sem margir voru þá að kljást við, og stjórnvöld áttu reyndar mikinn þátt í að búa til. Ríkisvaldið, lífeyrissjóðirnir og hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins höfðu fundið lausnina í nýju húsnæðislánakerfi sem átti að boða nýja tíma fyrir heimilin í landinu. Kerfinu sem var oftast kallað 86-kerfið, var hrint í framkvæmd á árinu 1986. Það átti því að vera bjart framundan fyrir heimilin í landinu. Fljótt kom hins vegar í ljós að hið nýja húsnæðislánakerfi var byggt á sandi. Menn höfðu ekki séð fyrir, að það var innbyggt í kerfið að það mynduðust biðraðir eftir húsnæðislánum, enda var verið að bjóða takmörkuð gæði sem nánast öllum stóðu til boða, sem fólust í lægri vöxtum á langtímalánum en almennt voru þá í boði á hinum almenna lánamarkaði. Biðtíminn eftir lánum mældist í árum þegar ákveðið var að leggja kerfið niður einungis um þremur árum eftir að því hafði verið komið á fót.

Á árinu 1989 tók við nýtt opinbert húsnæðislánakerfi, húsbréfakerfið svokallaða, sem lifði nokkuð lengur en 86-kerfið, eða í um áratug. Þá var því breytt. Það lánakerfi sem leysti húsbréfakerfið af hólmi svipaði mjög til þess, en því er enn haldið úti, reyndar í nokkuð breyttri mynd. Þrátt fyrir þessar tilfæringar virðist lítið hafa áunnist. Íbúðalánasjóður er í raun á hausnum og hefur þurft mikið fjármagn úr ríkissjóði, sem ekki sér enn fyrir endann á, en það var sko ekki ætlunin að svo færi þegar sjóðurinn var settur á fót í lok tíunda áratugar síðustu aldar.

Vandinn í húsnæðismálunum er enn til staðar. Það má jafnvel halda því fram að vandinn sé að ýmsu leyti meiri nú en oftast áður, einnig áður en 86-kerfið kom til sögunnar. Annað verður að minnsta kosti ekki lesið úr nýjustu spám um þróun á fasteignamarkaði, þar sem gert er ráð fyrir að fasteignaverð og leiguverð muni hækka á næstunni töluvert umfram líklegar væntingar um þróun kaupmáttar. Ekki auðveldar það þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, né þeim sem hugsanlega þurfa að stækka við sig, svo ekki sé minnst á þá sem hefur nánast gjörsamlega verið haldið til hliðar í öllum málum, það er að segja leigjendur. Næsta víst er að þar spila inn í þau gríðarlegu mistök sem gerð voru þegar félagslega húnæðislánakerfið í landinu var nánast lagt niður á einu bretti í byrjun þessarar aldar.

Hvernig ætli standi á þessu? Hvers vegna er ekki hægt að finna lausn í þeim mikilvæga málaflokki sem húsnæðismálin eru? Nú er ekki svo að það hafi ekki verið reynt. Frá því var greint nýlega, að stjórnvöld hefðu skipað um 40 nefndir til að finna lausnir á hinum ýmsu sviðum húsnæðismála frá því um síðustu aldamót. 40 stykki, það er ekki lítið. Hugsa sér allan þann fjölda fólks sem þar hlýtur að hafa komið að málum. Það getur því ekki verið að það vanti hugmyndir eða skýrslur. Er það kannski þarna sem vandinn liggur? Nefndir séu skipaðar til að fara yfir það sem fyrri nefndir hafi gert, ef til vill vegna þess að þeir sem eiga að taka ákvarðanirnar hafi ekki það sem til þarf til að gera slíkt. Það virðist allavegana nógu mikið vera talað. Og sífellt er verið að lofa því að frumvörp séu alveg við það að koma fram. Það nýjasta í þeim efnum er að það sé von á nokkrum frumvörpum um húsnæðismálin alveg á næsta leyti. Þetta á víst að vera að skella á, segja þeir, sem er reyndar farið að hljóma ansi falskt.

Það versta í þessu öllu er, að næg þekking er til staðar. Hún virðist bara ekki vera nýtt. Það er eins og það sé alltaf verið að kalla nýtt fólk til. Er við einhverju öðru að búast en að allt sé í klessu þegar hægt er að kasta þekkingu sem fyrir er til hliðar? Þó slíkt virðist ekkert vera bundið við húsnæðismálin, þá er næsta víst að þar hefði verið hægt að nýta þekkinguna betur en gert hefur verið, og læra af reynslunni. Staðan í húsnæðismálunum er í raun óskiljanleg því þetta er eitthvað svo mikill óþarfi.

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson febrúar 16, 2015 11:45