Fáránleg staða í húsnæðismálum

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Um daginn héldu félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður opinn fund um húsaleigumál. Félagsmálaráðherra sagði að fundurinn hefði verið liður í því að kalla eftir hvaða sjónarmið menn hefðu í þessum efnum, og með hvaða hætti væri hægt að bæta stöðu leigjenda. Þetta er auðvitað hið besta mál. Og það er jákvætt að stjórnvöld hlusti á hugmyndir annarra en þeirra sjálfra. Hins vegar er nánast fáránlegt að þessi mikilvægi málaflokkur skuli í alvörunni vera í þeirri stöðu að enn sé leitað að því hvernig hægt sé að styðja við bakið á leigjendum. Það er reyndar táknrænt fyrir það hvernig komið er fram við þá sem minnst hafa og minnst eiga í þessu landi.

Eftir allar nefndirnar og starfshópana og allar blaðsíðurnar og skýrslurnar sem skrifaðar hafa verið á umliðnum árum og áratugum þá er vægast sagt súrealískt að stjórnvöld þurfi nú, á árinu 2019, að kalla eftir hugmyndum um hvernig hægt gæti verið að bæta stöðu leigjenda. Af hverju liggur þetta ekki fyrir? Getur verið að hugmyndirnar séu í alvörunni ekki einhvers staðar í skúffum ráðuneyta eða stofnana? Hvað hefur fólkið eiginlega verið að gera? Þarf sífellt að byrja á byrjuninni, líka núna, hundrað árum, heilli öld, eftir að fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík beitti sér fyrst fyrir stofnun samvinnufélags um byggingu leiguíbúða, en það var einmitt á árinu 1919. Áratug síðar tóku svo lög um Byggingarsjóð verkamanna gildi. Og við erum ekki komin lengra í þessum málum á öllum þessum tíma en svo, að þeir sem halda utan um húsnæðismál landsmanna í stjórnsýslunni þurfa að kalla eftir hugmyndum almennings.

Auðvitað snýst þetta ekkert um skort á hugmyndum. Það er fyrirsláttur. Útilokað er að í öllu skýrslufargani undanfarinna ári leynist ekki lausnir sem hægt væri að notast við ef vilji væri fyrir hendi. Það er hins vegar auðveldara að skipa fleiri nefndir eða starfshópa, ræða málin frekar, fresta þeim og fá nýjar skýrslur heldur en að lesa yfir það sem kannski er til. Því þá þyrftu stjórnvöld að fara að taka einhverjar ákvarðanir.

Staðan í húsnæðismálunum er skelfileg, ekki bara á leigumarkaði. Húsnæðismarkaðurinn í heild hefur fengið að þróast óáreittur undanfarin ár án þess að stjórnvöld hafi nokkuð reynt að grípa þar inn í. Það eru auðvitað ekki allir í erfiðleikum, enda eru fjölmargir sem hafa það nokkuð gott. Það á hins vegar ekki við um þá lægst launuðu, um ungt fólk sem er að byrja búskap og þann hluta lífeyrisþega og öryrkja sem skildir hafa verið eftir að undanförnu. Um þetta þarf ekkert að ræða, eða hvað? Það hefði mátt halda að flestir gerðu sér grein fyrir stöðunni og þá sérstaklega hvað hún er ömurleg hjá hinum ýmsu hópum fólks. Svo virðist þó ekki vera hvað suma varðar, að minnsta kosti. Það er til að mynda grátlegt að hlusta á ráðherra og aðra stjórnmálamenn, sem lofa öllu fögru þegar þeir þurfa á að halda, en berja hausnum við steininn og fullyrða að aldrei, nánast aldrei í allri veraldarsögunni, hafi verið gert eins mikið fyrir þá lægstlaunuðu, lífeyrisþega og öryrkjar og gert hafi verið að undanförnu. Það er sorgleg staðreynd að sumir skuli vera svona veruleikafirrtir.

Algengasta skýringin og sú vinsælasta, sem gripið er til þegar ástæður þess ófremdarástands sem verið hefur á húsnæðismarkaði eru útskýrðar, er að skella skuldinni á skort á hagkvæmum íbúðum. Þetta er mikil einföldun á ástandinu. Fleira kemur til, sem lítið er talað um. Stjórnvöld geta nefnilega með beinum og skjótvirkum hætti auðveldað íbúðarkaup, og jafnframt gert leigjendum kleyft að eiga betri möguleika á að standa undir síhækkandi húsaleigu. Þetta heitir húsnæðisstuðningur hins opinbera og er í formi vaxta- og húsaleigubóta. Og þar til hliðar eru einnig barnabætur. Þessi bótakerfi eru til staðar og ef stjórnvöld hefðu haft einhvern raunverulegan áhuga á því að auðvelda íbúðarkaup og að liðka til fyrir leigjendum, þá hefðu verið hæg heimatökin að auka framlögin í gegnum þessi kerfi í staða þess að skera þar niður, eins og gert hefur verið, til þess að lækka álögur á þeim best settu í þjóðfélaginu. Og enginn segir neitt í alvöru. Launþegahreyfingin hefur gjörsamlega sofið á verðinum hvað þetta varðar. Að beina sjónum eingöngu að skorti á hagkvæmum íbúðum er því mikil einföldun á stöðu mála, og til þess fallin að draga athyglina frá því sem miklu máli hefur skipt.

Stjórnvöld undanfarinna ára hafa sýnt það með aðgerðarleysi að þau hafa ekki haft áhuga á því að stuðla að öryggi á húsnæðismarkaði. Þess ber þó að geta að stjórnvöld lofuðu ýmsu í tengslum við nýgerða kjarasamninga launþega á hinum almenna vinnumarkaði og atvinnurekenda. Ekki er rétt að útiloka að eitthvað gott muni koma út úr því. Sporin hræða hins vegar, því það sem auðvelt að lofa inn í framtíðina. En svo er það opni fundurinn um húsaleigumálin um daginn. Hver veit hvaða nýju og fersku tillögur hann mun gefa af sér. Það verður gaman að sjá þá skýrslu sem gefin verður út.

Grétar Júníus Guðmundsson júní 3, 2019 07:56