Elliglöp ekki bundin við aldur

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur boðað víðtækar aðgerðir til að stöðva skattaundanskot og skattsvik vegna upplýsinga sem fram koma í Panamaskjölunum. Frá þessu var greint í fjölmiðlum fyrir skömmu. Það fylgdi frásögninni að sérfræðingar héldu því fram að tillögur forsetans séu með yfirgripsmestu viðbrögðum við þessum mesta upplýsingaleka sögunnar eins og Panamaskölin hafa verið kölluð. Með hinum fyrirhuguðu aðgerðum bandarískra stjórnvalda er ætlunin sögð vera að auka gegnsæi og freista þess jafnframt að stöðva svik og pretti auðmanna og annarra sem hafa nýtt skattaskjól til margvíslegra myrkraverka, allt frá því að komast hjá því að leggja sitt af mörkum til að standa undir velferð, eins og almennri skattheimtu er alla jafna ætlað að gera, og til fjármögnunar á hryðjuverkastarfsemi ýmiss konar.

Það fyrsta sem kom upp í hugann við að hlusta á þessar fréttir af fyrirætlunum Bandaríkjaforseta var hvort sérfræðingarnir sem voru að hæla Obama hefðu virkilega ekki heyrt af því að við Íslendingar værum nú þegar í fararbroddi þeirra sem þykjast vera að bregðast við upplýsingalekanum mikla. Það eru að minnsta kosti skilaboðin sem við höfum fengið frá ráðamönnum okkar. Við ætlum víst að vísa veginn í þessum efnum eins og við gerum svo gjarnan.

Á tímabili vorum við best í heimi í nánast öllu. Fyrrverandi forsætisráðherra þreyttist ekki á því að kalla hitt og þetta heimsmet. Það var nánast sama hvað um var að ræða. Fyrir hrun þvældust sumir íslenskir ráðamenn um heiminn og básúnuðu út að íslenska útrásarliðið væri svo miklu klárara en allir aðrir, að kennslubækur framtíðarinnar yrðu uppfullar af frásögnum af afrekum þeirra í viðskiptalífinu. Gagnrýnendur útrásarliðsins voru sagðir þurfa endurhæfingu. Og viti menn, við erum enn við sama heygarðshornið. Nokkrum dögum áður en sérfræðingar heimsins voru að hæla Obama í fjölmiðlum, þá sagði fjármála- og efnahagsráðherrann okkar á alþingi, þegar hann var spurður, að við Íslendingar værum nú þegar í fararbroddi þegar kemur að því að vinna í málefnum skattaskjóla. Hann talaði ekkert um heimsmet, en sagði engu að síður að við værum í fararbroddi. Og utanríkisráðherrann tók í svipaðan streng. Hafði þetta virkilega farið framhjá sérfræðingunum sem voru að hæla Obama? Vissu þeir ekki af þessu? Samt eru þeir kallaðir sérfræðingar? Ég bara trúði þessu ekki. En svo áttaði ég mig.

Er einhver ástæða til að taka mark á íslenskum ráðamönnum yfir höfuð? Þeir standa ekki við loforð. Það er margsannað. Svo virðast þeir ekki muna nokkurn skapaðan hlut. Þei muna ekki eftir bankareikningum sem þeir hafa stofnað út og suður, vegna þess að það er svo erfitt að eiga peninga. Og þeir muna ekki eftir að hafa notað þá reikninga nokkru sinni. Hins vegar muna þeir eftir að hafa greitt skatta af þeim peningum sem faldir voru í skattaskjólum. Það er merkilegt hvernig minnið leikur sumt fólk. Er það ekki stundum kallað elliglöp? Þau eru kannski ekkert bundin við aldur.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson maí 9, 2016 10:51