Sagan og samhengið

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Útvarpskonan Vera Illugadóttir flytur fræðandi pistla á bæði líflegan og skemmtilegan hátt í þættinum Í ljósi sögunnar á rás eitt í útvarpi allra landsmanna á föstudagsmorgnum. Undantekningalaust tekur hún fyrir áhugavert efni sem varpar í alvörunni ljósi á söguna og setur hina ýmsu viðburði oft í fróðlegt samhengi. Svipað á við um ýmsa aðra dagskrárliði í útvarpinu, eins og til að mynda Rokkland Óla Palla á rás tvö. Hann blandar oft vel saman nýjustu straumum og stefnum í tónlist við ýmislegt merkilegt frá fyrri tíð og setur hlutina þannig í samhengi. Margt fleira mætti telja upp en þessir tveir útvarpsþættir eru óneitanlega sérstaklega vel heppnaðir. Auk skemmtanagildisins þá er mikið hægt að læra af því efni sem þar er borið fram af fólki sem virkilega kann til verka. Það er hins vegar skrýtið, og eiginlega sorglegt, hve algengt það er í okkar samfélagi að það sé ekki verið að nýta það sem við ættum að vita í ljósi sögunnar, og jafnframt að það sé ekki verið að setja hlutina í samhengi. Slíkt er ekki til hagsbóta fyrir heildina.

Að námi loknu fyrir mörgum, mörgum árum fór ég að vinna við húsnæðismál. Þrátt fyrir að ég hafi verið uppfullur af hugmyndum og bjartsýnn um að geta gert eitthvað gagn, þá verð ég að viðurkenna að það situr ekki mikið eftir af því sem ég lagði til þeirra mála, þegar horft er á hið stóra samhengi. Og það sama virðist mega segja um þau sem unnu með mér á sínum tíma, og reyndar einnig þau sem á eftir hafa komið. Staðan í húnsæðismálunum er vægast sagt skelfileg, reyndar svo slæm að það er ástæðulaust að ræða það eitthvað frekar. Ég vil þó trúa því að flestir hafi reynt að gera sitt besta. Þekkingunni sem safnast hafði upp og sagan geymir virðist hins vegar oft einfaldlega hafa verið kastað út í hafsauga. Ætla má að svipað eigi við á ýmsum öðrum sviðum einnig. Skoðum til að mynda heilbrigðiskerfið. Það er ekki starfsfólkinu að kenna að sjúklingar liggja á göngum Landspítalans eða bíða í langan tíma eftir aðgerðum. Starfsfólkið hefur hins vegar aftur og aftur bent á hvert stefnir í þessum efnum. Á það hefur ekkert verið hlustað. Eða skólarnir, sem virðast í mörgum tilvikum vera á síðasta snúning. Svo mætti áfram telja. Vegirnir, móttaka hælisleitenda, fátæktin og misskiptingin, og fleira og fleira. Það er ekki verið að nýta söguna og þá þekkingu sem fyrir liggur í mörgum málum tengdum þessum og eða öðrum málaflokkum. Og það er heldur ekki verið að horfa til hins stóra samhengis til hagsbóta fyrir heildina.

Mæliniðurstöður eiga víst að sýna að það hafi dregið úr misskiptingu hér á undanförnum árum. Gott er ef rétt er. Engu að síður er það staðreynd að á meðan sumir eiga svo mikil auðæfi að þeir þurfa að fela þau á eyjum langt í burtu, vegna þess að það er svo erfitt að eiga peninga á Íslandi, varð ég tvisvar sinnum vitni að því fyrir síðustu mánaðamót, að einstaklingar áttu ekki pening til að greiða fyrir þær fáu nauðsynjavörur sem viðkomandi höfðu látið í botninn á innkaupakörfu í lágvöruverslun. Annars vegar var eldri kona, hugsanlega á bótum frá Tryggingastofnun langt undir þeim mörkum sem velferðarráðuneytið hefur reiknað út að þurfi til að lifa af, en hins vegar ung kona með tvö börn, kannski einnig með laun undir fátæktarmörkum. Þetta er vægast sagt skelfilegt upp á að horfa. Meðaltöl sem sumir grobba sig af skipta auðvitað engu máli í þessu samhengi.

Skömmu eftir að ég varð vitni að framangreindum hörmungum kom fram í fréttum að staðan í efnahagsmálunum hér á landi væri svo „glæsileg“ að mati Seðlabankans, að aðrar þjóðir hefðu ástæðu til að öfunda okkur. Manni getur flökrað við svona nálgun. Hin ráðandi öfl í samfélaginu segja gjarnan að það verði að vera traustur rekstrargrundvöllur fyrir atvinnulífið í landinu, og að það verði að greiða upp skuldir til að draga úr vaxtagreiðslum til erlendra lánastofnana. Fyrr en þetta er komið í lag sé ekki hægt að „eyða“ peningunum í eitthvað annað. Þetta getur auðvitað verið rétt. En að forgangsröðunin sé slík að húsnæðismálin séu í algjörri steypu, heilbrigðiskerfið að hluta til í rúst og skólakerfið einnig, og fátækt sumra svo mikil að þeir eigi ekki fyrir mat, þá er eitthvað verulega að, sérstaklega þegar það er eins erfitt og raun ber vitni að eiga peninga hér á landi.

Þetta þarf ekkert að vera svona. Það er hægt að taka betur tillit til þess sem gert hefur verið áður á hinum ýmsu sviðum og læra þannig af sögunni og nýta þá þekkingu til að setja hlutina í samhengi. Þetta þyrftu stjórnmálamenn að læra.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson nóvember 28, 2016 10:04