Óþarfa pirringur vegna sjálfsbjargarviðleitni

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

„Við getum haft alls konar siðferðilega skoðun á þessu,“ sagði alþingismaður í útvarpsþætti nýlega þar sem rætt var um hvernig tekið er á móti hælisleitendum sem koma hingað til lands í von um betra líf. Eflaust er nokkuð til í þessu og mismunandi skoðanir eru líklega ekkert síður merkjanlegar einmitt í málum þar sem reynt getur á siðferðisvitund fólks en á öðrum sviðum. Við leggjum ekki öll sömu mælikvarða á hlutina. Hér er sem betur fer bæði skoðana- og tjáningarfrelsi, og fólk getur því látið skoðanir sínar óhindrað í ljós, og hefur auk þess leyfi til að hafa hvaða skoðun sem hver vill, hvort sem hún er skynsamleg, arfa vitlaus eða eitthvað þar á milli. Þetta á eðlilega við í siðferðilegum málum eins og öðrum.

Siðferði hefur verið mikið í opinberri umræðu undanfarið. Ekki er óalgengt að fólk vísi í og jafnvel slái um sig með tali um siðfræði, siðferði, siðleysi, siðareglur eða hvað annað sem þetta varðar. Alþingi og alþingismenn hafa að vissu leyti verið þungamiðjan í þessari umræðu. Þar spilar án efa stóra rullu hve illa sumum þingmönnum hefur tekist upp á hinu siðferðilega sviði, og reyndar Alþingi í heild einnig, samanber ótrúlegt klúður varðandi framkvæmd á siðareglum alþingismanna. Það er þó jákvætt í þessu sambandi að þingið hefur leitað til útlendinga eftir ráðgjöf um hvernig heppilegt geti verið að breyta siðareglunum. Ekki virðist vanþörf á. Það má því lifa í voninni um að alþingi taki sig á. Hið sama verður ekki sagt um þá þingmenn sem hafa orðið uppvísir að vægast sagt furðulegum og skammarlegum athöfnum. Þeir sem verst hafa hagað sér virðast ekki skammast sín hið minnsta, nema síður sé.

En! Eitt það allra undarlegasta sem upp hefur komið að undanförnu og varðar siðferði er pistill í stærsta áskriftardagblaði landsins fyrir skömmu eftir þekktan fjölmiðlamann. Þar hraunaði hann yfir lífeyrisþega, sem hafa flutt til útlanda í leit að betra lífi, eins og hælisleitendur gera sem koma hingað til lands. Afstaða pistlahöfundarins virðist aðallega skýrast af því að sumir þessara lífeyrisþega hafa sagt auðveldara að lifa í útlöndum en á Íslandi af lágum eftirlaunum sem þeir fá hér, og að fjölmiðlar hafi verið iðnir við að greina frá þessu. Fjölmiðlamaðurinn spyr í pistlinum hvort það sé ekki eitthvað rangt við það að fólk flytji með íslensk laun sín og lifi á afrakstri láglaunamanna í öðrum löndum. Og, eins og svo algengt er einmitt um þessar mundir, þá tengir hann þetta við siðferði og spyr hvort eitthvað sé ekki siðferðislega rangt við þetta. Hann talar meira að segja um mögulegt arðrán í þessu sambandi.

Við getum að sjálfsögðu haft alls konar siðferðilega skoðun á þessu sem öðru. Og pistlahöfundurinn hefur fullan rétt á að vera þeirrar skoðunar að telja það vera siðferðilega rangt og þess vegna jafnvel arðrán að lifa af íslenskum launum í útlöndum ef hann vill hugsa á þann veg. En að taka íslenska lífeyrisþega sem dæmi um siðleysi og arðrán er hins vegar ákaflega klaufalegt. Það er nefnilega ekki nokkur vandi að sýna fram á að eina leiðin fyrir þá lægst launuðu að lifa af milli mánaðamóta getur í sumum tilvikum falist í því að flytja til útlanda. Laun þeirra duga einfaldlega ekki hér á landi, sama hvernig vitnað er í tölur um launaþróun, hagvöxt eða annað. Svo er hitt. Það væri lítill vandi að finna ýmis önnur dæmi úr samfélaginu sem væru miklu frekar á mörkunum hvað siðferði varðar en sjálfsögð sjálfsbjargarviðleitni lífeyrisþega. Þau henta kannski ekki fyrir umræðuna.

Hvaða hagsmuni er verið að verja með því að saka lífeyrisþega um óheilindi er ekki gott að segja til um. Ekki er það umhyggja fyrir þeim útlendingum sem verða á vegi lífeyrisþeganna í útlöndum, enda lítil ástæða til þess þar sem hér er auðvitað ekkert arðrán í gangi. Það eru aðrir Íslendingar sem sjá um slíkt. Þá er algjör óþarfi að láta það fara í pirrurnar á sér þó svo að íslenskir lífeyrisþegar nýti það frelsi sem þeim er tryggt í samskiptum okkar við aðrar þjóðir til að verja tíma sínum þar sem þeir vilja sjálfir og með þeim hætti sem þeir kjósa. Spurning er hins vegar hvort það hefði ekki verið nær fyrir pistlahöfundinn að skoða framkomu okkar við útlendinga sem hingað leita með hliðsjón af siðfræðinni. Þar er ekki allt fallegt.

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson febrúar 10, 2020 10:11