„Ég nota sjálfur vörunar frá Hafkalki og er í fínu formi í dag, en þjáðist áður af slitgigt í hnjám. Ég er nú að verða sjötugur og þetta bætir lífsgæðin verulega“, segir Jörundur Garðarsson stofnandi fyrirtækisins Hafkalks á Bíldudal. Saga fyrirtækisins er ævintýri líkust en það var sett á laggirnar í núverandi mynd í byrjun árs 2009 korteri eftir hrun. „Það var upplagt að gera þetta á þessum tímapunkti því þá var engu að tapa. Ég var að vinna sem gæðastjóri hjá Íslenska kalkþörungafélaginu á Bíldudal þegar hugmyndin um að hefja framleiðslu á fæðubótarefnum úr kalkþörungum úr Arnarfirði varð til. Eigendur Íslenska Kalkþörungafélagsins og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða komu einnig að þessu með það í huga að skapa fleiri störf á Bíldudal. Sala á fóðri og áburði úr kalkþörungum innanlands var þá inni í þessu dæmi. Ég fékk styrk frá Nýsköpunarmiðstöð og Vinnumálastofnun og gat ráðið eina manneskju í vinnu. Til að byrja með var ég í 70 prósent starfi hjá Kalkþörungaverksmiðjunni og 30 prósent hjá Hafkalki. Þrátt fyrir gríðarlega samkeppni á þessum markaði fengum við svakalega gott start. Mér var sagt að það væri nánast einsdæmi hversu vel vörunum var tekið og þær hafa haldið áfram að seljast. Við náðum athygli og kannski var það vegna þess að fólk var opnara fyrir að kaupa íslenskar afurðir eftir hrun. Fyrirtækið stækkaði svo smátt og smátt og árið 2012 kom Jón Garðar sonur minn inn í fyrirtækið og á það nú á móti mér. Hann er viðskiptafræðingur að mennt með próf frá Edinborgarháskóla. Hann kom því með alveg nýja þekkingu inn í fyrirtækið“.
IceVital komið á markað
Í dag framleiðir Hafkalk fimm mismunandi tegundir af vörum undir vörumerkinu Hafkalk. Við framleiðsluna er lögð gríðarleg áhersla á hreinleika vörunnar. Vottunarstofan Tún staðfesti fyrir fjórum árum að fyrirtækið uppfyllti reglur um framleiðslu náttúruvara. Með vottun Túns er staðfest að einungis séu notuð viðurkennd hráefni og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur. Í haust bætti fyrirtækið við nýrri framleiðslulínu, IceVital. „Við vorum nokkuð lengi að velta því fyrir okkur hverju við ættum að bæta við. Eftir að hafa rannsakað og skoðað hvað væri vinsælast erlendis ákváðum við að setja á markaðinn Spírulinu unna úr hágæða blágrænþörungum. Þetta er talin ein af ofurfæðutegundum jarðar enda inniheldur hún mörg vítamín og steinefni sem eru manninum nauðsynleg. Þá er það Sítrus Extrakt sem er nátturleg blanda unnin úr berki af lífrænt ræktuðum appelsínum, blandað örlitlu af acacia trefjum. Blandan virkar slakandi á fólk. Þriðja varan sem við settum á markað er Kreatín. Það viðheldur vöðvavirkni hjá eldra fólki og er talið geta aukið afköst við erfiðar æfingar. Þetta er eitt vinsælasta fæðubótaefni í heiminum. Fjórða efnið er svo Acacia trefjar unnar úr samnefndum trjám. Þær geta hjálpað upp á þarmaflóruna og komið jafnvægi á meltinguna. Við kaupum hráefnið frá viðurkenndum framleiðendum og leggjum eins og við framleiðsluna á Hafkalki mikla áherslu á hreinleika vörunnar.Við notum engin íblöndunarefni í fæðubótarefnin,“ segir Jörundur.
Reyna fyrir sér í Kína
Á litlum stað eins og Bíldudal skiptir hvert starf miklu máli og nú eru þrír í fullu starfi við fyrirtækið. Hins vegar er ekki auðvelt að sjá um markaðsmálin svo langt frá aðalamarkaðnum á suðvesturhorni landsins. Það var því gerður samningur við Icepharma um sölu og dreifingu innanlands á fæðubótarefnunum. Það hefur gengið vel og fást fæðubótarefnin frá Hafkalki nú í stórmörkuðum, apótekum og heilsubúðum um allt land. Fyrirtækið hefur í áranna rás reynt fyrir sér á erlendum mörkuðum. Nú síðast í Kína en Jörundur segir að markaðssetningin þar gangi hægt enda sé skrifræðið í landinu mikið. Rúmenía er annar markaður sem er í augsýn en stærsta lyfjasölukeðjan þar hefur sýnt því mikinn áhuga að fá að selja fæðubótarefnin. Það er því ýmislegt framundan hjá þessu frumkvöðlafyrirtæki á Bíldudal.