Svefnleysi veldur heilsuleysi

Talið er að þriðji hver einstaklingur í hinum vestræna heimi sem náð hefur fullorðinsaldri sofi of lítið á nóttinni. Fólk þarf að sofa í 7 til 8 klukkustundir á nóttu til að viðhalda heilsunni og til að því líði vel. Á vef danska ríkisútvarpsins er fjallað um svefnleysi og áhrif þess á heilsu fólks. Þar kemur fram að svefnleysi hafi afar slæm áhrif á bæði líkama og sál. Fólk sem sofi of lítið sé ekki bara  þreytt og orkulaust heldur geti svefnleysi aukið hættuna á offitu, stressi, áunninni sykursýki auk fjölda annarra heilsufarsvandamála. Svefnleysi geti haft verulega áhrif á andlega getu fólks. Sofi fólk í fjóra til fimm tíma á nóttu fer heilinn að starfa eins og fólk sé drukkið. Sömu áhrif koma fram ef fólk sofi í sex klukkustundir í fjórar nætur í röð. Á vef DR er haft eftir heilsusérfræðingnum Chris MacDonald að þegar fólk hafi sofið of lítið í sjö til tíu daga byrji það að venjast því að vera þreytt. Það verði smátt og smátt „eðlilegt ástand“ að líða ekki nógu vel. Svefnleysið valdi því hins vegar að fólk eigi erfitt með athafnir daglegs lífs og verði þunglynt. Framtíðin verði ekki sérlega björt í augum þess. Þess vegna eigi fólk að leita læknis eða til sálfræðings ef það á erfitt með að sofa. Það sé ýmislegt hægt að gera svo fólk sofi betur. Svefnlyf séu ekki alltaf lausnin heldur geti viðtalsmeðferð og að fylgja ákveðnu svefnprógrammi bætt svefninn. Hér eru nokkur einföld ráð sem hægt er að fylgja til að sofa betur.

Ekki drekka kaffi nokkrum klukkustundum fyrir háttatíma.

Forðast áfenga drykki áður en farið er að sofa.

Ekki borða stórar og fituríkar máltíðir fyrir svefninn.

Hreyfing stuðlar að góðum nætursvefni.

Hitinn í svefnherberginu ætti að vera á bilinu 18 til 21   gráða.

Það á að vera hljóð í svefnherberginu. Hávaðinn má ekki fara yfir 30 desibil. Eyrnatappar gætu komið að góðum notum.

Forðist ljós frá tölvum, sjónvarpi og símaskjám áður en farið er að sofa.

Hafið svefnherbergið vel myrkvað.

 

 

 

Ritstjórn janúar 31, 2017 12:29