Karlar sofa aðeins skemur og brölta meira á nóttunni

Íslenskir eldri borgarar sofa vel og lengi, bæði á sumrin og veturna. Þetta er niðurstaða svefnrannsóknar sem var gerð á svefni 244 einstaklinga sem allir voru um áttrætt. Þar af voru 110 konur. Rannsóknin var gerð árið 2010 og var samstarfsverkefni nokkurra háskóla austan hafs og vestan. Hér á Íslandi tók Hjartavernd og Háskóli Íslands þátt í henni.

Erlingur Jóhannsson

Erlingur Jóhannsson, prófessor í Háskóla Íslands, segir að með rannsókninni hafi átt að meta áhrif dagsbirtu á svefnmynstur eldra fólks. Þannig hafi hreyfimynstur og svefnvenjur verið skoðaðar hjá sama fólki að vetri til og svo aftur um sumar. Hreyfi- og svefnúr voru notuð í rannsókninni og er það í fyrsta sinn sem hlutlægar mælingar eru notaðar í þessum aldurshópi.

Niðurstaða svefnmælingarinnar var að heildarsvefntími fólks var um 8 klukkustundir á sólarhring óháð árstíma, sem er algjörlega samkvæmt alþjóðaráðleggingum um lengd svefns hjá fólki á þessum aldri. Svefninn var að vísu 20 mínútum styttri yfir sumartímann. Annars var ekki marktækur munur á heildarsvefntíma á sumrin og veturna og heldur ekki milli karla og kvenna. Karlar sofa þó samkvæmt þessum mælingum 20 mínútum styttra en konur, fara fyrr á fætur og eru meira að brölta á næturna. Þess má einnig geta að svefngæði hópsins voru mjög fín bæði yfir sumartímann og að vetrinum.

Athygli vekur að í þessum rannsóknum fundust ekki nein tengsl milli svefnmynsturs og hreyfingar og heldur ekki milli svefns eða annarra heilsufarsþátta.

Íslenskir eldri borgarar sofa samkvæmt þessu vel og lengi að sögn Erlings og hafa lagað sig að því að nætur eru hér dimmar og langar á veturna, en stuttar og bjartar yfir sumartímann. Þeir kveikja ljós á veturna og draga fyrir glugga á sumrin.

Þessar niðurstöður hafa komið ýmsum á óvart, því almennt er talið að fólk eigi erfiðara með að sofa þegar aldurinn færist yfir. Erlingur segir að þeir einstaklingar sem rannsóknin náði til, hafi verið vel á sig komnir og hafi ekki tekið svefnlyf á meðan á rannsókninni stóð. Hann segir þessa niðurstöðu hafa valdið undrun í Ameríku, þarlendir vísindamenn hafi átt erfitt með að trúa henni.

Ritstjórn september 28, 2017 11:51