Þátttaka eldra fólks í lestrarnámi barna

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Laust fyrir jól hitti ég í verslun fullorðna konu sem ég þekki lítillega. Við spjölluðum um almælt tíðindi og svo auðvitað efni sem tengdist jólum. Hún sagði mér þá að hún væri að koma frá því að borða jólamat í grunnskólanum. Sjálfsagt hefur hún séð á mér einhvern furðusvip því hún kom strax með skýringu sem var sú að hún hefði á haustmánuðum farið reglulega í skólann til að hlusta á börnin lesa. Og til að sýna þakklætisvott var henni boðið að koma og borða jólamatinn með nemendum og starfsfólki skólans. Þetta fannst mér alveg frábært, að eldra fólk kæmi reglulega í skólann og gæfi sér tíma til að hlusta á börnin lesa. Sjálf er ég ein af þeim sem lærði ég að lesa hjá minni ömmu með hinni svokölluðu bandprjónsaðferð, en þá sat ég með bókina ,,Má ég lesa“ og hún með prjónana og notaði svo lausa prjóninn til að benda og leggja áherslu á ákveðna stafi og orð.

Flestir foreldrar þekkja það að það fer mikill tími í að hlusta á börn lesa á meðan þau eru að öðlast þá færni sem þarf til að þau verði sjálfbjarga. Og erfitt getur verið fyrir kennarann að komast yfir að láta alla lesa í skólanum. Æfingin skapar hinsvegar meistarann og mörg börn þurfa mikla þjálfun áður en þau geta lesið sér til gleði og gagns. Þess vegna finnst mér þetta svo frábært verkefni í þessum skóla að fá eldri borgara til að koma að taka þátt í lestrarþjálfun barnanna. Þau sem eldri eru hafa flest æfingu í að hlusta á sín eigin börn, og barnabörn og jafnvel barnabarnabörn lesa, svo hér er þjálfaður starfskraftur á ferð. Og mikilvægur. Því ekki aðeins fá börnin meiri lestrarþjálfun heldur fá þau einnig að kynnast eldra fólki, ömmum og öfum sem viðkomandi hefur e.t.v. ekki aðgang að í sínu umhverfi.

Og líka í íslenskunámi fólks

Já, hér er sannarlega mikilvægt verkefni á ferð fyrir fólk sem ekki er lengur í launavinnu en er tilbúið að gefa af sér og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Og annað verkefni hef ég heyrt um sem mér finnst ekki síður áhugavert en það er að leiða saman eldri borgara og erlendar fjölskyldur sem eru komnar til að búa í samfélagi okkar. Þar vantar börnin oft ömmur og afa. En það vantar ekki síður einhverja sem gefa sér tíma til að tala íslensku við fólk sem vill læra að tala málið til að geta aðlagast betur samfélaginu og átt fleiri kosti á vinnumarkaði. Þarna er mjög gott tækifæri til að rjúfa einangrun bæði þeirra sem hættir eru að vinna og hinna sem þurfa að komast inn í samfélag okkar, læra málið og átta sig á siðum og venjum.

Já, það eru ótal verkefni í samfélagi okkar þar sem mikil þörf er fyrir þekkingu, reynslu og tíma eldri borgara. Stjórnendur skóla- og félagsmála hjá sveitarfélögunum í landinu munu ugglaust fara að horfa meira til þess en verið hefur að nýta þann félagsauð sem liggur í eldra fólki. Við vitum að á næstu árum og áratugum mun hlutfall þeirra vaxa sem fara hraustir, sprækir og fullir af orku á lífeyri. Það er mikilvægt að samfélagið ná að nýta sér þá þekkingu og vilja til þátttöku sem býr í þessum hópi. Það mun sannarlega bæta samfélagið og líf þeirra sem fá að njóta.

 

Svanfríður Jónasdóttir febrúar 15, 2016 11:28