Þegar annast þarf veikan maka eða foreldra

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Fyrir nokkrum misserum var ég á leið á fund í Reykjavík. Frá flugvellinum að fundarstað deildi ég bíl með nokkrum öðrum sem voru á leið á sama fund. Fram kom að eitt okkar mundi ekki komast á fundinn fyrr en síðar þar sem viðkomandi þyrfti að aðstoða föður sinn sem var kominn með heilabilun og var að flytja í viðeigandi þjónustuhúsnæði. Af þessu tilefni fórum við þá að ræða það í bílnum, öll komin yfir fimmtugt, að það gæti tekið tíma fyrir fólk á okkar aldri að sinna öldruðum foreldrum. Einnig að sum okkar höfðu þurft að sinna maka í erfiðum veikindum og taka til þess frí úr vinnu, jafnvel dögum saman; annað hvort launalaust eða tekið af orlofi.

Það er frábært hve tekist hefur að tryggja réttindi barnafólks varðandi veikindi barna og/eða þátttöku í mikilvægum atburðum í lífi þeirra. Við sem þarna vorum saman í bílnum, höfðum reyndar ekki notið þeirra réttinda þegar við vorum með okkar börn lítil en samglöddumst þeim sem nú fengu að njóta, eftir að aðilar vinnumarkaðarins fóru að horfa til mikilvægis fjölskyldunnar og þess hvaða skyldur það hefur í för með sér að eiga fjölskyldu og hve mikilvægt það er fyrir samfélagið að gefa foreldrum kost á að annast börn sín betur.

En fjölskyldur eru ekki bara barnafjölskyldur. Þegar við komumst á miðjan aldur eru foreldrar okkar oft farnir að lýjast og jafnvel veikjast og þurfa meiri athygli og umhyggju en áður. Sömuleiðis fjölgar þeim tilfellum að makar veikist og þurfi umönnun. Það er því spurning hvort ekki þarf að fara að horfa meira til þessa hóps þegar sest er að kjarasamningaborðinu og réttindapakkinn er tekinn upp. Það er víða hægt með góðu samkomulagi við vinnuveitanda að taka launalaust leyfi þegar veikindi steðja að. Það er líka hægt að nota orlofið sitt í slíka ummönnun. Þessar leiðir eru nú notaðar. En þær valda tekjutapi og/eða því að ekker sumarleyfi er tekið til hvíldar.

Lífaldur er að lengjast og við þurfum að annast hvert annað lengur. Það vilja örugglega flestir geta annast sína sem mest þegar eitthvað bjátar á og flestir líta á það sem skyldu sína. En er ekki kominn tími til að skyldan til að annast sína verði líka að einhverju leyti réttur og valdi þá hvorki jafnmiklu launatapi eins og nú getur orðið eða tapi á orlofi og þá jafnvel eigin heilsu.

Svanfríður Jónasdóttir september 1, 2014 14:53