Framboð eða sérframboð eldra fólks

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Ég fór í óperuna eitt laugardagskvöldið, sem ekki er til sérstakrar frásagnar hér, nema það var mjög gaman. En í hléi, þegar ég stóð frammi með glasið mitt og hafði góða yfirsýn yfir fólkið sem streymdi framhjá tók ég eftir að margar konur voru haltar eða gengu þannig að augljóslega var eitthvað að þeim í fótunum. Líklega veitti ég þessu athygli þarna í fyrsta sinn því undanfarið hef ég sjálf verið í vandræðum með skó vegna tábergssigs í vinstri fæti. Og þegar ég stóð þarna í fínu skónum mínum, og fann fyrir því, sá ég skyndilega vanda hinna kvennanna. Horft til baka þá man ég eftir fleiri konum sem tipluðu eins og til að þurfa ekki að stíga í fótinn. Merkilegt að upplifa þetta með eldinn sem á brennur svona sterkt, þó í smáu sé. Þegar maður er sjálfur kominn í tilteknar aðstæður þá kemur maður betur auga á ýmislegt sem áður fór framhjá og er því tilbúnari til að leita leiða til breytinga ef þarf. Því er svo mikilvægt að þeir sem eldurinn brennur á hverju sinni séu með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um kjör þeirra og stöðu. Slagorð Öryrkjabandalagsins ,,Ekkert um okkur án okkar“ segir nákvæmlega það sem segja þarf um það mál.

Þetta er orðið nokkuð langt tilhlaup að því að fjalla um framboð eldri borgara, en undanfarið hefur komið upp í umræðunni að aldraðir ættu að fara í sérframboð til að treysta stöðu sína. Eldra fólk á endilega að vera í framboði og taka þátt í pólitísku starfi og tryggja það með öllum ráðum að fulltrúar þeirra séu á vettvangi þegar vélað er um þau mál sem sérstaklega brenna á þeim. Þetta á við um Alþingi, og ekki síður um sveitarstjórnir því félagsleg þjónusta við aldraða heyrir undir þær. Mér finnst hinsvegar mikið vafamál að sérframboð standi undir væntingum. Framboðshreyfingar eru krafðar um afstöðu til ýmissa þjóðmála, enda verða kjörnir fulltrúar þeirra að greiða atkvæði um ýmis önnur mál en réttinda- og framfaramál fyrir viðkomandi framboð ef þeir ná kjöri. Þar á meðal eru mál sem talin eru skipa fólki í hefðbundnar pólitískar fylkingar; hægri eða vinstri. Um leið og reyndi á í öðrum heitum pólitískum málum en þeim sem varða viðkomandi framboð er hætt við að baklandið færi að riðlast. Eða af hverju ættu viðhorf okkar til umhverfismála, opinberra afskipta, einkavæðingar og skattastefnu að breytast þó við eldumst?

Á næstu árum þarf að gera ráð fyrir stórauknum fjölda eldri borgara á Íslandi. Stóru kynslóðir eftirstríðsáranna eru óðum að komast á lífeyrisaldur og við því þarf þjóðfélagið að bregðast. Þær ráðstafanir sem gera þarf til að bregðast við þessum þjóðfélagsbreytingum hljóta að verða ofarlega á verkefnalistum stjórnmálaflokkanna og áherslur þá í samræmi við grundvallarhugmyndir í hverjum flokki. Árangursríkast væri ugglaust að eldra fólk starfaði í staðbundnum félögum eldri borgara sem gætu verið mun beittari í hinni þröngu hagsmunabaráttu, í landssamtökum eldri borgara, og tækju síðan virkan þátt í starfi stjórnmálaflokkanna í samræmi við grundvallarskoðun sína í pólitík og gætu þá brýnt fyrir félögunum að þegar fólk er komið í tilteknar aðstæður, og finnur verkinn, er því best treystandi til að leita lausnanna og fylgja þeim eftir. Stjórnmálaflokkarnir eru með eldriborgarahreyfingar og í gegnum þær ættu hinir eldri að gera ríkari kröfur um meiri völd í samræmi við fjölda sinn, möguleg áhrif í kosningum og síðast en ekki síst, vaxandi mikilvægi þeirra málefna sem á þeim brenna. Þar mun enginn pólitískur flokkur geta skilað auðu.

Svanfríður Jónasdóttir október 29, 2015 13:52