Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Fyrir fjörutíu og sjö árum fór ég með kærasta mínum í útilegu í Ásbyrgi. Við vorum eina tjaldið á tjaldstæðinu og Forvöð, Hljóðaklettar, Dettifoss og Hólmatungur voru okkar að kanna að vild. Ekkert heyrðist nema þungur dynur árinnar. Um kvöldið gengum við inn að Botnstjörn, settumst á stein við bakkann og nutum óteljandi litbrigða botngróðursins í vatninu og endurkasti vatnsins á klettaveggina. Stokkandarpar naut stundarinnar eins og við, rómantíkin var allsráðandi. Nú er þetta liðin tíð. Enginn fer lengur í Ásbyrgi til að vera einn í heiminum og þegar við komum þarna í sumar var steinninn okkar horfinn, hafði verið látinn víkja fyrir útsýnispalli sem nær langt út í tjörnina.
Við sem í æsku heimsóttum Þingvelli á dásamlegum sumardögum, í litadýrð haustsins og þungri þögn vetrarins söknum ósnertrar náttúru, fámennis og fegurðarinnar. Nú er þar hvergi hægt að drepa niður fæti án þess að rekast á ferðamenn. Já nú er hún Snorrabúð stekkur. Ferðaþjónustan er frábær atvinnugrein og um árabil naut ég þess að leiðsegja ferðamenn um landið meðfram öðrum störfum. Það var yndislegt starf, eða eins og sonur minn sagði: „Draumastarfið þitt, mamma, að vera lokuð inni í rútu með sjötíu manns sem ekkert geta farið og verða að hlusta á þig.“ En að öllu gamni slepptu er afskaplega gefandi að sýna fegurð landsins, fræða ferðafólk um náttúru þess, sögu, menningu og einstakt lífríki og uppskera þakklæti og gleði.
Eins og venjulega er hængur á. Ferðaþjónustan skapar mikinn ágang, oft meiri en viðkvæm náttúra landsins þolir. Á undanförnum árum hefur verið mikil uppbygging í þeim tilgangi að vernda hana og er það vel en á sama tíma hverfur hluti Botnstjarnar undir pall og steinn þar sem tvö ungmenni lofuðu hvort öðru ást og tryggð þarf að víkja. Það er sorglegt, rétt eins og það er ergilegt til lengdar að búa við að ferðamenn kíki á gluggana hjá þér og geri tilboð í húsmuni sýnalega í gluggakistunum. Það er óþolandi að ganga fram á mannaskít rétt við skógarstíga eða hálendisvegi, andstyggilegt að þurfa að búa við stöðuga klóaklykt vegna þess að rotþróin í bænum þínum hefur ekki undan álaginu.
Við fögnum öll ferðamönnunum, þeim störfum sem þeir skapa og gleðinni sem þeir veita okkur þegar þeir dást að landinu og benda okkur á öll þau töfrandi og sérstæðu smáatriði sem hafa farið framhjá okkur. Við erum samt að drukkna og það er frábært að færir blaðamenn hafi kannað þá hlið og skrifað um hana. Umfjöllunin í Heimildinni var upplýsandi, vel unnin og þar var að finna mjög marga áhugaverða punkta sem vert er að ígrunda. Við verðum að gera okkur ljóst að með því að opna landið okkar gestum erum við jafnframt að skapa álag á gestgjafana og þrátt fyrir víðernið og strjálbýlið eru margar náttúruperlur svo ásetnar að varla er hægt að tala um það lengur að njóta þeirra. Í þessu, eins og svo mörgu öðru, væri gott að hafa yfirsýn, vita hvað viljum og hvernig við viljum gera þetta. Vita líka hvað landið okkar þolir og gera allt hvað við getum til að vernda það. Vöxtur er vissulega góður en ofvöxtur sjúkdómur.
Það sama gildir í raun um þá gesti sem hingað koma til að njóta landsins með okkur og þá sem við bjóðum velkomna inn á heimili okkar. Þeir geta reynst of þaulsætnir, of tilætlunarsamir og of tillitslausir. Umfjöllun Heimildarinnar um ferðaþjónustuna hefur skapað umræður, þær hafa stundum ekki verið mjög sanngjarnar og sumir leyft sér gífuryrði í stað þess að fagna því að bent sé á þá augljósu ókosti sem fylgja massatúrisma. Góðu fréttirnar eru að við getum breytt þessu, gert betur og enn finnast á Íslandi fáfarnar slóðir og náttúruperlur sem hægt er að heimsækja og njóta aleinn eða með ástinni sinni.