Þegar klukkurnar klingdu föðmuðust allir

Jólahefðir eru margar og einn þeirra sem heldur sig við jólahefðir ár eftir ár er stórsöngvarinn Bergþór Pálsson. Desember hefur verið annasamur hjá honum þar sem hann syngur víða með Sætabrauðsdrengjunum,  Anna Kristine Magnúsdóttir hafði samband við Bergþór og kom ekki að tómum kofanum hjá honum. Við birtum þetta viðtal í minningu hennar, en hún er fallin frá.

Hvaða jólahefðir frá bernsku þykir þér vænst um?

Þegar þögnin kom í útvarpinu fyrir kl. 18 á aðfangadagskvöld, var alltaf andakt og þegar klukkurnar loksins klingdu föðmuðust allir og óskuðu hver öðrum gleðilegra jóla. Eftir það var maturinn borinn á borð og allt gekk það mjög smurt fyrir sig. Þessi stund fyrir matinn var afskaplega hátíðleg, ekki síst af því að þá var talað um að allt yrði „heilagt“.

Þó að upphaf málsverðarins væri yfirleitt í rólegheitum, man ég þó að bakaraofninn hafði einu sinni eitthvað ofhitnað í andaktinni og mamma þurfti að skera svolítið utan af steikinni með hraði. Þetta setti auðvitað strik í reikninginn og messan var byrjuð í útvarpinu, allt í „steik“. Þá gellur í mömmu: Æ, slökkvið á kallinum svona rétt á meðan maður er að redda málunum. Ég held að þetta sé ennþá fyndnara í minningunni en það raunverulega var, mamma þessi dagfarsprúða kona sem skipti aldrei skapi!

Fluttirðu þær með þér þegar þú fórst að búa?

Þegar ég fór að syngja riðlaðist þetta skipulag, þar sem ég var yfirleitt að syngja við aftansöng. Það tók mig dálítinn tíma að venjast því að eiga ekki þessa hátíðlegu kyrrðarstund bernskunnar. Með árunum þykir mér mjög gott að vera við messu, það er svo mikill friður og samhugur í kirkjunni eftir annirnar í aðdraganda jóla. Að messunni lokinni óska allir gleðilegra jóla og þá leikur um mann mjög sérstök kærleiksbylgja.

Eru einhverjar hefðir og siðir sem eru ómissandi hjá þér um jól?

Í allmörg ár höfum við Albert haft þann sið að fara með pabba á aðfangadagsmorgun í stóran hring með pínulítinn glaðning til vina og kunningja. Þetta hafa t.d. verið sultur, kaffi, súkkulaði eða eitthvað ámóta og pabbi hefur lýst innihaldinu í bundnu máli með jólakveðju. Vísan er þá fest á pakkann. Þetta er yndislegur túr, enda skína sæl eftirvænting og notalegheit út úr hverju andliti.

Yfirleitt syng ég í Dómkirkjunni við hátíðarmessu Dana á Íslandi kl. 15 á aðfangadag, þannig að nú orðið tek ég smá forskot á sæluna. Þessa hefð þykir mér mjög vænt um og hlakka alltaf til.

Hefurðu haldið jól í öðru landi? Ef svo er, gastu þá haldið í hefðirnar?

Já, nokkrum sinnum. Þegar ég var skiptinemi í Frakklandi var ég á milli fjölskyldna um jólin, en þar sem ég var meðlimur í drengjakór Dómkirkjunnar, var mér boðið að búa í íbúð í kirkjunni hjá presti og systur hans og þau voru yndisleg. Jólamessan var auðvitað ekki fyrr en á miðnætti. Eftir messuna komu prestar og prelátar úr héraðinu og snæddu jólamáltíð, en hún samanstóð af 13 réttum, einum fyrir hvern lærisveinanna og Jesú. Réttirnir voru einfaldir, t.d. hnetur, mandarínur, kæfubiti o.s.frv. Þetta var mjög athyglisverð jólahátíð, en ég verð að viðurkenna að heimþráin gerði alvarlega vart við sig hjá 17 ára unglingi.

Þegar ég var við óperuhús í Þýskalandi var ég í sýningu á jóladag, en enginn vina minna úr húsinu var í henni, svo að allir sem ég hafði samband við voru farnir úr borginni til síns heima. Ég var á æfingu á aðfangadag, en á leiðinni heim sá ég fallega skyrtu með háum kínakraga og keypti hana. Það var eina jólagjöfin mín og ég sá fram á að vera einn um kvöldið. Til allrar hamingju hringdi sænsk söngkona sem ég kannaðist við og bauð mér að vera. Þá upplifði ég sænsk jól með lifandi ljósum á jólatré og þetta voru falleg og eftirminnileg jól.

Einu sinni fórum við Albert til Kanaríeyja yfir jól og tókum með okkur hangikjöt til aðfangadagskvölds. Stemningin fór þó fyrir ofan garð og neðan þegar við litum út í garð á pálmana í 16 stiga hita.

Hvað skiptir þig mestu um hátíðirnar?

Ég held að hjá flestum skipti samveran við fjölskyldu og vini mestu máli og svo er einnig um mig. Ég held að jóladagur sé eini dagurinn sem það læðist aldrei að mér að ég eigi að vera að gera eitthvað, læra texta eða sinna öðrum skyldum. Þetta er djúp slökun sem væri gott að skapa sér oftar.

Í kringum jól streymir sérstök hlýja um brjóstið. Einu sinni vorum við með kaffiboð á Þorláksmessu og áttum óskaplega mikið eftir af smákökum. Við ákváðum að ganga út á Laugaveg og bjóða örþreyttu verslunarfólki upp á smákökur. Brosið sem færðist yfir andlitin, þó að þetta væri algjört lítilræði, var eiginlega besta jólagjöfin það árið.

Fylgirðu tískustraumum í jólahaldi?

Nei, en ég er farinn að slaka meira á og kannski er það í tísku. Það þarf ekki allt að vera fullkomið. Góð helgarhreingerning er nóg, en samveran og samhjálpin skipta meira máli. Mér finnst skipta máli að aðventan sé róleg og notaleg og ef ég kemst ekki yfir allt er ekki hundrað í hættunni, en jafnframt hugsa ég stundum um íslenska heitið á aðventu, sem er jólafasta. Það er gott að hafa í huga að troða sig ekki út á aðventu, jólin mega ekki vera búin þegar þau loksins koma!

Greinin var uppfærð 14.desember 2022

 

 

Ritstjórn desember 23, 2019 11:11