Þegar uppkomnu börnin flytja aftur heim

Á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum aarp.org hefur verið fjallað um það, hvernig foreldrar bregðast við þegar uppkomnu börnin flytja aftur heim, en fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Uppkomin dóttir sem var að ljúka námi, flutti aftur heim á meðan hún var að leita sér að vinnu. Því fylgdi álag fyrir bæði dóttur og foreldra, sem veltu fyrir sér hvernær dóttirin fengi vinnu og hversu lengi hún myndi búa hjá þeim. Hvað ef hún fengi ekki vinnu, hvað myndi gerast þá? Þar að auki var dóttirin orðin vön að búa ein og hafa hlutina eftir sínu höfði, en hún leigði með vinum sínum á meðan hún var í náminu. Hún fór að finna að ýmsu heima, hvernig foreldrarnir lifðu sínu lífi og hversu oft þeir þvoðu í uppþvottavélinni. Foreldrunum fannst líka að dóttirin truflaði rólegheitin á heimilinu sem þau voru orðin vön.

Dóttirin valdi veitingastaðinn

Sumum foreldrum fannst það trufla samband sitt, þegar uppkomnu börnin fluttu heim. Sagt er frá konu sem sat allt í einu ein fyrir framan sjónvarpið á kvöldin, á meðan uppkomni sonurinn sem var kominn aftur heim, horfði á „leikinn“ með pabba sínum í öðru sjónvarpi.  Annað par sem var vant því að fara út að borða einu sinni í viku til að eiga stund tvö saman, vaknaði upp við það að þau voru allt í einu orðin þrjú í matnum. Dóttir þeirra vildi meira að segja ráða á hvaða veitingastað þau fóru.

Njótum þess að vera tvö ein

Greint er frá móður sem neitaði að fá son sinn aftur heim. Hún sagði. „Við njótum þess virkilega að búa hér tvö ein. Það þýðir ekki að okkur þyki ekki vænt um börnin, en eftir að hafa annast þau í 30 ár, vitum við að þau geta alveg spjarað sig upp á eigin spýtur“. Haft var eftir annarri móður sem átti uppkomin börn sem bjuggu heima, að hún hefði lagt það til við manninn sinn að þau bæðu börnin sín um að gefa sér eina helgi annan hvorn mánuð í rólegheitum, þannig að þau skildu að þau þyrftu líka tíma út af fyrir sig sem par.

Erfiðara ef þau neyðast til að flytja heim

Í greininni á aarp.org er vitnað í rannsóknir sem hafa verið gerðar á því hvaða áhrif það hefur á hjónabönd fólks ef uppkomnu börnin flytja aftur heim.  Niðurstaðan var í stórum dráttum sú, að það skipti máli hvort börnin fluttu heim vegna þess að þau höfðu áhuga á að búa með foreldrum sínum, eða hvort þau hefðu af einhverjum ástæðum neyðst til að flytja aftur heim til foreldra sinna. Það reyndist erfiðara. Fjölskylduráðgjafi sem rætt er við í greininni, Debbie Pincus, segir að það hafi greinileg áhrif á hjónabandið, ef fullorðin börn búi á heimilinu. Hjónabandið verði nokkurs konar þríhyrningur, þar sem tveir aðilar eiga saman, en sá þriðji er utanveltu.„Hlutirnir ganga upp og niður í öllum hjónaböndum“,segir hún og bætir við að uppkomið barn á heimili geti aukið álag og ágreining milli foreldranna.

Alltaf rask að fá uppkomnu börnin heim

Foreldrarnir verða að gera sér grein fyrir því að hafi þeir búið lengi einir er það alltaf rask að fá uppkomnu börnin aftur heim. Sama hversu sjálfbjarga þau eru. Dóttir Debbie sem er nýútskrifuð úr skóla býr heima og er að safna peningum. Þó samband foreldranna sé gott og dóttirin sjálfbjarga segir Debbie: „ Hún hefur komið sér hér fyrir og ég er verð upptekin af að hugsa um hana. Það væri einfaldlega öðruvísi ef við byggjum hér ein“.

Þarf að sleppa hendinni af börnunum

Debbie ráðleggur foreldrum að hafa enga sektarkennd, þó þeir hafi ákveðnar þarfir og láti þær í ljós, hvort sem þeir þurfi meiri tíma einir, eða vilji að uppkomna barnið flytji út fyrir ákveðinn tíma. Hún segir að fari börnin að draga það að flytja að heiman geti það stafað af því að foreldrarnir séu ofverndandi. Börnin þurfi  að finna að foreldranir séu tilbúnir til að sleppa af þeim hendinni. Í lok greinarinnar segir að með smá heppni og hvatningu, komi að því að uppkomnu börnin flytji á endanum að heiman, stundum með litlum fyrirvara eins og hér: „ Dóttir mín kom í morgunmatinn einn daginn og virtist undrandi. „Ég var að fá atvinnutilboð og á að byrja eftir tvær vikur“, sagði hún. Áður en hendi var veifað, var hún flogin á vit nýrra ævintýra í 350 mílna fjarlægð“.

 

 

 

Ritstjórn október 4, 2016 11:29