Sótti um 80 störf og fékk engin svör

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir

„Þeir sem missa vinnuna um sextugt, einhverra hluta vegna, eiga erfitt með að fá aftur starf. Stundum missir fólk vinnuna vegna hagræðingar eða vegna skipulagsbreytinga en ástæðan í uppsagnarbréfinu er aldrei sú að fólki sé sagt upp vegna aldurs. Stundum sýnist manni þó hreinlega sem verið sé að ýta eldra fólki út af vinnumarkaðnum, ekki sé áhugi á að nýta sér reynslu þess og þekkingu, og það gildir bæði um einkafyrirtæki og ýmsar opinberar stofnanir,“ sagði Erna Indriðadóttir, Samfylkingu í sérstökum umræðum um atvinnumál 60 ára og eldri á Alþingi. Erna benti á að atvinnuleysi hefði minnkað síðustu misseri en benti jafnframt á að ríflega fjórðungur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru fimmtugir og eldri og að langtímaatvinnuleysi er mest í þeim hópi.

Efast um tölurnar

„Ég stórefa að þær tölur sýni raunverulega stöðu þessa eldri hóps á vinnumarkaðnum. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Ég hef rætt við fjölda kvenna og karla um sextugt og jafnvel yngri sem fá ekki vinnu þótt þau séu í fullu fjöri. Þess eru dæmi að fólk hafi sótt um, ég hef séð lista yfir umsóknir þar sem viðkomandi hafði sótt um 80 störf, hvaða störf sem er en ekki einu sinni verið boðaður í viðtal þótt hann hafi haft góða menntun og langa starfsreynslu,“ sagði Erna. Hún sagði að langvarandi atvinnuleysi fylgdu margskonar vandamál, heilsa fólks bilaði og félagsleg staða þess versnaði. Fólki á þessum aldri fjölgaði á örorkubótum en menn vissu ekki hvers vegna.

Höfum við efni á þessu?

Þingmaðurinn sagði ennfremur að þegar rætt sé um að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 70 ár sé nauðsynlegt að hugsa um þennan hóp. „Á þessi hópur að fara á atvinnuleysisbætur eða segja sig til sveitar á meðan hann bíður eftir því að komast á eftirlaun eftir kannski tíu ár? Hefur samfélagið efni á því að fullfrískt fólk sitji heima með hendur í skauti?“ Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra var til andsvara og sagði að þjóðfélagið þyrfti á því að halda að nýta starfskrafta fólks sem komið væri af léttasta skeiði. Í máli ráðherra kom fram að atvinnuþátttaka 55 til 74 ára sé 65 prósent í dag en var á síðasta ári 67,2 prósent. Þrátt fyrir það sé atvinnuþátttaka 60 ára og eldri mikil hér á landi, sú mesta á vesturlöndum. Atvinnuleysi í þessum aldurshópi sé ekki meira en í öðrum aldurshópum. „Það er þó svo að þegar fólk missir vinnuna virðist það eiga erfiðara með að komast aftur inn á vinnumarkaðinn,“ sagði Eygló og bætti við að fólk verði að viðhalda starfshæfni sinni.

Aukin krafa um endurmenntun

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra

„Eitt af því sem við sjáum er aukin krafa á vinnumarkaðnum varðandi það að fólk viðhaldi stöðugt starfsfærni sinni, en gögn starfsmenntasjóða sýna hins vegar fram á að upp úr fimmtugu dregur úr þátttöku fólks í sí- og endurmenntun. Það hefur líka komið fram í samanburði við aðrar þjóðir í hinu svokallaða „old ages index“ að það sem dregur okkur niður í samanburði við aðrar þjóðir er menntun eða aðgengi eldra fólks að menntun og menntunartækifærum. Þetta virðist vera eitthvað sem við gætum hugað sérstaklega að. Ég líka tek undir að það er mikilvægt að fara yfir þessar tölur og greina hugsanlegar hindranir í tengslum við þátttöku eldra fólks á vinnumarkaðnum. Eitt er einfaldlega viðhorfið, eins og var nefnt hér, en við sjáum hins vegar líka í tölunum að viðhorfið hér virðist almennt mun jákvæðara gagnvart atvinnuþátttöku eldra fólks en í flestum öðrum samanburðarlöndum.“

Gera kerfið sveigjanlegra

Þá sagði ráðherrann að það þyrfti að huga að breytingum á lífeyriskerfinu með það að markmiði að gera kerfið sveigjanlegra. Ráðherrann sagði að koma verði í veg fyrir að fólki sé mismunað á grundvelli aldurs á vinnumarkaði. „Það sem ég vil líka leggja áherslu á og er með á minni þingmálaskrá snýr einmitt að þessum viðhorfum og að tryggja að ekki sé verið að mismuna fólki, m.a. á grundvelli aldurs. Það hefur sýnt sig að í nánast öllum öðrum Evrópuríkjum en okkar hefur verið innleitt bann við mismunun, þar á meðal á grundvelli aldurs. Algengasti þátturinn þar sem er verið að mismuna fólki í Evrópu er vegna aldurs,“ sagði Eygló.

Ritstjórn október 15, 2015 16:41