Sumir fá ungir ástríðufullan áhuga á listum og eru svo heppnir að fá að vinna við sitt fag. En þótt komi að starfslokum er ekki þar með sagt að ástríðan kulni. Í það minnsta er það ekki þannig í tilfelli Þórunnar Sigurðardóttur og Stefáns Baldurssonar. Þau sjá enn nánast hverja einustu sýningu sem sett er upp í íslensku leikhúsi og grípa tækifærið og fara í leikhús á ferðalögum erlendis.
Þau eru vel þekkt í menningarlífi Íslands, Þórunn er leikkona, leikstjóri, leikskáld og var listrænn stjórnandi Listahátíðar og Stefán leikstjóri, var leikhússtjóri bæði Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins og óperustjóri Íslensku óperunnar. Verðið þið aldrei þreytt á leikhúsinu?
„Nei, þetta er svo skemmtilegt,“ segir Stefán. Þetta er okkar svið og maður hefur varið starfsævinni í þetta. Ég sem leikstjóri og leikhússtjóri.“
„Ég er að vísu ekki með alveg sama úthaldið og Stebbi,“ segir Þórunn. „Stebbi sér eiginlega allt. Ég leyfi mér svona aðeins að velja. Hann var auðvitað alfarið í þessu, óperum og aðallega leikhúsi en ég hef starfað við aðeins meiri breidd. “
Íslenska leikhússenan ótrúlega sterk
En hvað finnst ykkur um íslensku leiklistarsenuna núna?
„Alveg ótrúlega sterk,“ segir Stefán. „Bara svakalega flott og hefur verið mjög lengi. Í stóru leikhúsunum er mjög hár standard. Ég get sagt það vegna þess að ég hef farið út um allar trissur og séð leiksýningar. Ég veit líka að þegar Þjóðleikhúsið hefur farið til útlanda með leiksýningar hafa þær alltaf vakið rosalega athygli. Auk þess eru svo leikhóparnir í Tjarnarbíói. Það er stanslaust verið að pródúsera og sumt af því mjög skemmtilegt og flott. Þetta er meira yngrafólkið og þetta er flottur vettvangur fyrir þau.“
„Það má auðvitað ekki gleyma því að þessi frjálsi vettvangur hefur alltaf verið til. Við byrjuðum að vinna í honum,“ segir Þórunn.
„Við kynntumst nú á þeim vettvangi,“ skýtur Stefán inn í og brosir.
„Þetta hefur alltaf verið gegnum gangandi en er orðið miklu meira núna,“ heldur Þórunn áfram. „Þá var það Gríma og Litla leikfélagið og alls konar hópar sem tóku sig saman. Þeir voru kannski færri á þeim tíma en mjög sterkir.“
„Gríma var leikhópur sem var í Tjarnarbíói í gamla daga,“ bætir Stefán við. „Þar var Vigdís Finnbogadóttir og Kristbjörg Kjeld til dæmis. Fólk sem var stólpaleikarar.“
„Þarna byrjaði auðvitað fullt af fólki sem fór svo seinna inn í stóru leikhúsin. Þannig er það alltaf með frjálsu leikhópana, það er akur þar sem verið er að sá öllu mögulegu og sum blómin spretta og verða eitthvað en annað visnar. Það er svona eins og gengur,“ segir Þórunn.
Sáu óperuhús í miðjum frumskógi
En leikhús er margbreytilegt og sviðin mörg. Stefán var óperustjóri í átta ár eftir að hann lét af starfi Þjóðleikhússtjóra.
„Þá bættist við hjá okkur bæði eftir því sem árin liðu og eftir að Stebbi varð óperustjóri, eitthvað sem við sjáum allt í líka og förum mikið á erlendis en það er óskaplega gaman að sjá óperur erlendis. Við förum gjarnan í óperur ef við erum í stórborgum erlendis.“
„Maður fylgdist auðvitað með óperunni frá upphafi hér heima,“ segir Stefán. „Fyrst í Þjóðleikhúsinu og svo kom Íslenska óperan í Gamla bíó og maður hafði augun á því líka. .“
Þórunn og Stefán ferðast mjög mikið og ævinlega kemur leikhús eða eitthvað tengt leiklist við sögu á ferðum þeirra.
„Já, við höfum getað ferðast miklu meira núna en þegar við vorum bæði í föstum störfum,“ segir hún. „Við höfum siglt í kringum hálfan hnöttinn. Á ferðum okkar höfum við ekki bara séð sýningar heldur skoðað mikið af óperuhúsum líka og það er voðalega gaman. Ég var í Hörpu líka þegar verið var að ljúka við byggingu hennar og áhugi á tónlistarhúsum drífur mig áfram. Við skoðuðum afar fallegt óperuhús í Argentínu og annað, eitt frægasta óperuhús í heimi í Brasilíu sem er inni í miðjum frumskóginum. “
„Það er ekki sýnt þar lengur, eða voðalega lítið,“ bætir Stefán við. „Það var einhver hálfbrjálaður áhugamaður um óperur sem byggði það. Rosalega fallegt óperuhús. Þangað er hægt að fara og fá að skoða. Stundum eru þar tónleikar. Þessi maður sem sagt byggði þetta í byrjun 20. aldar en svo fór það á hausinn eftir einhver tíu eða fimmtán ár. Manaus heitir borgin sem það er í og er höfuðborg Amazon. .“
Ferðlög og menningarupplifanir
„Við höfum ferðast mikið með ólíkum hópum. Við erum þrenn vinahjón sem höfum farið saman í þessar löngu ferðir meðal annars um Mið- og Suður-Ameríku og til Indlands. Nú síðast í fyrrasumar á siglingu í Eyjahafinu. Þá höfum við alltaf verið að skoða eitthvað svona menningartengt í leiðinni. Við erum líka bæði í Rotary og klúbburinn minn er mjög duglegur að fara í utanferðir. Árgangurinn minn úr MR hefur líka farið saman í utanlandsferðir. Það eru svona tíu ár síðan við byrjuðum á því og alltaf farið í eina ferð á ári. Þetta er fólk sem maður var með í menntaskóla og þekkti lítið nema sína bekkjarfélaga en nú er maður búinn að kynnast öllu þessu fólki og við erum öll á sama stigi, haltrandi og heyrum illa,“ segir Stefán kíminn.
„Við höfum alltaf farið rosalega mikið í leikhús erlendis og Stebbi á eiginlega metið. Hann hefur komist upp í fjórar sýningar á dag. Hann er rosalega öflugur. Ég hef aldrei upplifað að þótt um hafi verið að ræða leiksýningar sem uppselt var á fyrir mörgum mánuðum að Stebbi fengi ekki miða. Ég skil ekki hvernig hann fer að þessu því hann var ekki einu sinni að segja að hann væri leikhússtjóri og þyrfti að fá miða meðan hann gengdi því starfi. Hann var stundum horfinn upp úr hádegi, stóð bara fyrir utan leikhúsin þangað til einhver miði losnaði.“
„Ja, þetta eru þín orð,“ segir Stefán og hlær við. „Ég fór nú bara þetta oft á leiklistarhátíðum og slíku. Stundum var maður líka beinlínis í erindum leikhúsanna.“
„Við höfum fylgst mikið með,“ heldur Þórunn áfram. „Við sáum alla söngleiki þegar þeir voru að koma fyrst, sáum Cats bæði í New York og London og Vesalingana í fyrstu sýningavikunni. Þá var ekkert ljóst að þetta yrði svona vinsælt.“
Skemmtilegar andstæður í Hamilton
„Já, Vesalingana sáum við því þá vorum við að hugsa um að sýna þá,“ segir Stefán. „Það átti að vera opnunarsýning Borgarleikhússins. Þjóðleikhúsið hafði áhuga líka svo það varð svolítið vesen. Umboðsmaðurinn Cameron McIntosh sendi tvo fulltrúa hingað og við fengum sýningarréttinn í Leikfélagi Reykjavíkur. Þau komu og sáu Land míns föðurs, í Iðnó. Það var sýning sem var mikið sungið í og þau völdu okkur. Þeim fannst þetta mjög áhugavert og ekki síst þetta nýja hús sem var í byggingu. Svo varð ljóst að opnun Borgarleikhússins myndi tefjast og ég var að hætta sem leikhússtjóri svo við létum sýningarréttinn af hendi og Þjóðleikhúsið setti þá upp.“
Þau voru nýlega á ferð í London og sáu söngleikinn Hamilton en hann höfðu þau ekki séð áður.
„Mjög nýstárlegur,“ segir Stefán. „Þetta er rappsöngleikur og sögulegur, um hörundsdökkan mann sem verður fyrsti fjármálaráðherra í nýrri ríkisstjórn, nýstofnuðum Bandaríkjum. Það er sem sagt þessi Hamilton.“
„Þetta er rosalega flott sýning,“ segir Þórunn. „Sögunni er fylgt mjög nákvæmlega og hún er kórrétt, búningar og gervi í samræmi við það og svo þessi nútímalega rapptónlist og mjög mikill dans svo þetta verða skemmtilegar andstæður.“
Betri og fjölþættari menntun í leiklist
Mjög margt af unga fólkinu okkar í dag hefur einstaka tilfinningu fyrir leikhúsinu og það sem þau eru að gera gengur allt upp. Kunnið þið skýringar á því?
„Menntunin er orðin betri,“ segir Þórunn. „Hún er fjölþættari. Ég held því nú alltaf fram að okkar skóli hjá Leikfélaginu hafi verið ágætur, Leiklistarskóli Leikfélags Reykjavíkur í tíð Sveins Einarssonar. Það var margt sem við fengum að læra en nú er þetta háskólagráða . Ég var í fyrsta hópnum sem byrjar að gera meira en bara leika. Ég fór að skrifa og leikstýra og gera allan fjandann. Það er mikil viðbót þegar maður fer út í stjórna líka. Ég var með Listahátíð, svo að vinna niðri í Hörpu og núna er ég í þessari Þjóðaróperu. Það er náttúrlega þannig að reynslan sem maður hefur hjálpar manni mjög mikið. Það er svo margt í listum þess eðlis að þekking úr námi hjálpar en þú verður að afla þér reynslu. Það skiptir miklu máli að hafa unnið sem listamaður.“
Er eitthvað af þessu byggt á tilfinningu eða meðfæddum hæfileikum? Þótt fólk geti leikið er kannski ekki víst að það geti skrifað leikrit, eins og Þórunn gerði eða hafi þá yfirsýn sem þarf til að skapa leiksýningu sem er heildstæð og töfrandi.
„Nei, það er ekki sjálfgefið að menn geti gert allt,“ segir Stefán. „Við erum núna tengd inn í þetta gegnum dótturina, Unni Ösp, og tengdasoninn, Björn Thors.“
„Þau sýna okkur allt sem þau eru að gera. Við vorum búin að lesa Saknaðarilm áður en leikhúsið fékk að sjá það og hið sama gilti um Vertu úlfur. En svo er auðvitað ekki allt gott sem er skrifað,“ segir Þórunn og hlær við. „Fljótlega sorterast úr hópnum þeir sem raunverulega geta skrifað og hafa þá hæfileika. En voðalega fáir verða leikskáld í fullu starfi.“
Leikrit Þórunnar Haustbrúður vakti mikla athygli og var mjög áhrifamikið. Hún segir að oft hafi komið til tals að setja það upp aftur en þar sem hún var á kafi í starfi sínu fyrir Listahátíð varð aldrei neitt úr en hugsanlega kemur að því núna að rifjuð verði upp hin magnaða örlagasaga Appólóníu Schwartzkopf og Níelsar Fuhrman.
Þórunn syndir og Stefán stundar QiGong
Allt þetta menningarstarf tekur örugglega mikinn tíma. Gerið þið eitthvað annað, stundið þið til dæmis einhverja hreyfingu?
„Ég er í Qigong, í hópi sem Gunnar Eyjólfsson byrjaði með niðri í Þjóðleikhúsi,“ segir Stefán. „Hópurinn hittist enn og þetta eru ekki eingöngu leiklistarfólk. Í honum er meðal annars Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari. Hún er orðin áttatíu og átta ára. Við gerum æfingarnar en það er mikil fílósófía í þessum ævafornu kínversku fræðum. Svo er þetta félagsskapurinn líka því það er alltaf farið í kaffi á eftir. Tóta syndir.“
En eruð þið alveg hætt að vinna?
„Nei, hvorugt okkar er alveg hætt. Ég hef verið að kenna bæði upp á Bifröst og í Listháskólanum og verið að vinna að stofnun nýrrar Þjóðaróperu,“ segir Þórunn. „Það hefur verið svakalega mikil vinna. Ég og samstarfsmenn mínir vorum að taka við því en það er búin að eiga sér stað gríðarleg undirbúningsvinna mörg ár. Mér finnst mjög gaman að kenna. Ég sæki ekkert endilega í bara í félagsskap fólks á mínu reki heldur ekkert síður í yngra fólk. Ég vil ekkert endilega láta flokka mig sem eldri borgara heldur mun frekar sem leikhúsáhugamann. Mér finnst allir vera eldri en ég en átta mig svo á að flestir eru mun yngri. Í Þjóðaróperunni er ég að vinna með fólki sem er mörgum áratugum yngra en ég og mér finnst ég alltaf yngst í hópnum. Þetta er auðvitað fólk með mikla reynslu og það telur.“
„Ég hef leikstýrt af og til,“ segir Stefán. „Þegar Nemendaleikhúsið var í Lindarbæ leikstýrði ég mjög mikið af lokaverkefnum og undanfarið hef ég verið prófdómari í Listaháskólanum þannig að við fylgjumst með þessu á öllum stigum.“
Leiklistin alltaf í manni
Að lokum er eitthvað alveg nýtt sem ykkur finnst vera í gangi?
„Helst að leiklistin nær lengra út í samfélagið, það verður meiri samfélagsleg speglun,“ segir Þórunn og á við þann aukna fjölbreytileika af fólki sem sést á sviði og á skjánum. „Við sjáum á sýningum eins og Vertu úlfur og Saknaðarilm sem báðar byggja á frásögnum fólks sem átt hefur í við geðrænan vanda að stríða hvernig þetta nær fólki á allt annan máta því svo margir þekkja þetta og hafa einhver tengsl við slíkan vanda. Þar fær leikhúsið nýja vídd því það er list augnabliksins og fólk getur samsamað sig við það sem er að gerast á sviðinu. Það verða bein samskipti milli áhorfenda og leikarans. Það er það sem gerir leikhúsið magnað. Þeir sem einu sinni smitast af leikhúsi þeir losna aldrei við það. Þetta er svo gjöfult listform. Jafnvel þótt maður yfirgefi það eins og ég gerði fer það aldrei úr mér.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.