Víða í afskekktum kimum Bandaríkjanna leynast fjölskyldur og hópar sem hafa aðra sýn á hvernig best sé að haga lífinu en fjöldinn. Þetta fólk kýs að draga sig út úr samfélaginu og fara eigin leiðir. Stundum er þetta meinlaust en í mörgum tilfellum eru öfgar í lífsstíl beinlínis hættulegir. Þetta kemur ævinlega verst niður á þeim sem ekki geta valið sjálfir hvort þeir fylgja kenningunum eða fara, nefnilega börnunum.
Samfélagið gerir ráð fyrir að foreldrar vilji börnum sínum ævinlega hið besta og sjálfsagt telja utangarðsmenn í sveitum sig vera einmitt að velja hið eina rétta. Í Bandaríkjunum er ekki sama eftirlit með fjölskyldum og víða annars staðar og foreldrar geta til að mynda kosið að kenna börnum sínum heima og senda þau ekki í skóla. Undanfarin ár hafa uppkomin börn foreldra af þessu tagi stigið fram og sagt sögur sínar í bókum. Sú nýjasta er Educated eftir Töru Westover. Þar lítur hún til baka og lýsir því hvernig þrá hennar eftir menntun og betra lífi kostaði hana sambandið við fjölskyldu sína.
Foreldrar Töru voru það sem kallað er „survivalists“ eða sjálfbjargarsinnar. Þau bjuggu á bóndabæ í fjöllunum í Idaho. Pabbi hennar, sem hún kallar Gene í bókinni, hafði fæðst og vaxið upp í nágrenninu undir járnaga skapbráðs föður. Þegar hann kvænist flytur hann ofar í hlíðarnar, enn lengra frá smábænum með konu sína, milda og mjúkláta manneskju með góða þekkingu á lækningajurtum. Hún býr til jurtaseyði og lyf og starfar einnig sem ljósmóðir þótt hún hafi hvorki menntun né réttindi í því starfi.
Lífið snerist um vinnu
Við lestur bókarinnar er ekki hægt annað en að velta fyrir sér hvort Gene hafi þjáðst af einhvers konar geðsjúkdómi. Í það minnsta þróar hann með sér vaxandi ofsóknaræði. Hann tekur elstu börn sín úr skóla því hann óttast að þau verði fyrir áhrifum frá meðlimum Illuminati. Tara var yngst svo menntun var aldrei til umræðu eftir að hún fæddist. Þá var faðir hennar einnig hættur að skrá börn sín svo þau yngstu höfðu ekki fæðingarvottorð en Tara fær ekki sitt fyrr níu ára gömul. Þau nutu heimakennslu sem fólst fyrst og fremst í því að kenna þeim Bíblíuna og Mormónabók Joseph Smits og Brigham Young. Engin vísindi komu þar við sögu en ein myndabók fyrir mjög ung börn var til á heimilinu en þar voru allir hlutir mjög einfaldaðir.
Þetta kom kannski ekki að sök því líf barnanna snerist fyrst og fremst um að hjálpa foreldrum sínum að vinna. Tara hjálpaði móður sinni að brugga jurtaseyði og taka á móti börnum. Í nágrenninu var ruslahaugur og þar unnu þau við að sortera nothæfa hluti úr sorpinu. Pabbi hennar gekk hart fram í þeirri vinnu sinni, svo hart raunar að iðulega sló hann eða henti í börnin því drasli sem hann taldi ekkert við að gera. En ekki var gert veður úr hlutum eins og því að missa fingur, brenna sig, fá kúlur, mar, skurfur og skurði. Börnin slösuðust iðulega illa, enda ekkert gert til að tryggja öryggi þeirra á því sem í raun var stórhættulegt vinnusvæði. Enginn leitaði nokkru sinni læknis. Jurtalyf konu hans var allt og sumt sem Gene þurfti og taldi nauðsynlegt fyrir sína nánustu. „Guð og englarnir eru hér og vinna við hlið okkar,“ sagði hann dóttur sinni. „Þeir sjá til þess að enginn meiðist.“
Tara fær alvarlega sýkingu í hálskirtlana og faðir hennar segir henni að standa úti með munninn opinn svo sólin geti notað lækningamátt sinn á hálsinn á henni. Hún geir það í heilan mánuð en verður aðeins verri og verri. Smátt og smátt fer Tara að efast æ meira um viðhorf og skoðanir föður síns. Hann hafði spáð heimsendi um þúsaldarmótin og þegar það gengur ekki eftir situr hann sviplaus fyrir framan sjónvarpið en Tara fer að láta reyna á ýmis mörk og leitast við að klífa yfir þær girðingar sem faðir hennar hefur reist allt í kringum fjölskylduna.
Þekkingarþráin vaknar
Hún fer á dansnámskeið og þarf að hlusta á Gene lýsa klæðaburði samnemenda sinna sem hórulegum. Það þarf ekki að taka það fram að klæðnaður þeirra var ósköp venjuleg föt. Hún fylgist með eldri bróður sínum leitast við að fræðast og mennta sig og fer að gera eins. Hún les það eina sem er henni aðgengilegt, trúarlegar bækur töður síns. Síðar komst hún að því að þetta hafði reynst mjög gagnlegt vegna þes að þarna hlaut hún góða þjálfun í að lesa texta sem hún skildi ekki og ná smátt og smátt tökum á viðfangsefninu.
En þetta er ekki það eina sem Tara þarf að þola. Einn bræðra hennar hefur líklega fengið framheilaskaða í einum af mörgum vinnuslysum barnanna og hann níðist á litlu systur sinni. Hennar fyrsta skref til frelsis er að taka inntökupróf í Brigham Young-háskóla og standast það. Allt er nýtt fyrir henni þegar námið hefst. Henn bregður að heyra orðbragð skólafélaganna og er stórhneyksluð á herbergisfélaga sínum sem klæðist bleikum náttbuxum með orðið „juicy“ ísaumað á rassinum.
Í sagnfræðitíma er vísað til helfararinnar og þegar hún spyr hvað það sé uppsker hún fordæmingu margra. Fólk sem telur hana haldna gyðingahatri og afneita glæpaverkum nasista. En Tara einfaldlega vissi ekki að helförin hafi átt sér stað, ekki frekar en hún þekkti Napóleon eða Martin Luther King jr. Hún vissi heldur ekki að Evrópa væri álfa en ekki land. En þekkingarþráin og fróðleiksþorstinn er slíkur að hún sekkur sér ofan í allt sem hún kemst yfir og fyrr en varir hefur hún unnið skólastyrk í Cambridge. Líklega getur enginn fyllilega ímyndað sér hvílíkt þrekvirki það var. Áfram heldur hún og næsta stopp er Harvard, síðan aftur til Cambridge til að ljúka doktorsprófi í sagnfræði.
Elskar enn fjölskylduna
Þrátt fyrir sívaxandi þekkingu á bæði í fræðum sínum og heiminum er hún enn bundin fjölskyldu sinni sterkum böndum. Hún skammast sín fyrir þau í aðra röndina en finnur einnig sterkt fyrir sektarkenndinni að hafa yfirgefið þau, misst trúna á þau gildi sem hamrað var á í uppvextinum. Og hún elskar þau líka. Allt brotnar þetta í þúsund mola þegar hún segir frá misþyrmingum bróður síns og fjölskyldan neitar að trúa henni. Sjálf er Tara sannfærð um að þau vissu vel hvað gekk á en völdu að afneita því. „Í fjölskyldu eins og minni er enginn glæpur verri en að segja sannleikann,“ sagði hún síðar í viðtali.
Í Bandaríkjunum er litið upp til fólks sem tekst að endurskapa sjálft sig. Vinna sig upp úr verstu hugsanlegu aðstæðum og njóta velgengni. Tara fellur vissulega undir þá skilgreiningu en það hefur líka kostað hana allt. Fæst okkar kæra sig um að standa ein uppi, án fjölskyldu, án róta. En þannig verður það stundum að vera. Gjáin milli einstaklinganna verður einfaldlega of djúp. Hugmyndafræðin, gildin og lífsstíllinn of ólíkur til að nokkru sinni verði hægt að byggja upp einhvers konar samskipti.
Kannski er það þess vegna sem sjálfsævisögur af þessu tagi eru svo verðmætar. Þær gefa von, segja að hægt sé að komast yfir allt og finna sér farveg. Glerkastalinn eftir Jeannette Walls er annað dæmi um sögu af þessu tagi. Hún kom út á íslensku árið 2008 og kvikmynd gerð eftir sögunni var frumsýnd árið 2017. Þar er fíkn og meðvirkni undirrót stærstu vandamála fjölskyldunnar en einnig það val foreldranna að aðlagast ekki samfélaginu eða beygja sig undir reglur þess. Jeannette likt og Tara rífur sig lausa. Systkinin berjast öll við að safna sér peningum til að komast burtu. Þau styðja hvert annað og tekst að lokum að skapa sér líf.
Fjárfestirinn sem var næstum drepinn
Það er ekki hægt að skilja við þessa tegund ævisagna án þess að tala um sögu J.D. Vance, Hillbilly Elegy. Líf hans er skólabókardæmi um að ameríski draumurinn geti ræst. Hann elst upp meðal sveitavargsins eða „hillbillies“ í Suður-Ohio. Drykkjuskapur, fáfræði, meðvirkni og fátækt setur svip sinn á alla hans æsku. Móðir hans er alkóhólisti og fíkniefnaneytandi og beitir börn sín ofbeldi. Röð misvandaðra stjúpfeðra kemur og fer en faðirinn hefur náð sér í nýja konu en trúarofstæki hans fær ekki hljómgrunn hjá syninum. Vance getur hvorki né vill hata homma og Clinton-hjónin eða hafna þróunarkenningunni og kynlífi utan hjónabands. Stærsta áfallið verður þó þegar móðir hans hótar að drepa þau bæði með því að keyra bílinn í klessu. Drengurinn lifir skelfinguna af og er í kjölfarið neyddur til að bera vitni gegn móður sinni í réttarsal en hún var kærð fyrir heimilisofbeldi vegna atviksins.
Hann gengur í bandaríska flotann og er sendur til Afganistan þar sem hann tekur þátt í átökum. Eftir að heim kemur lýkur hann BA-prófi frá Ohio-háskóla fer þaðan í Harvard og lýkur lagaprófi. Hann hefur síðan unnið hjá fjárfestingafyrirtækjum, verið álitsgjafi hjá CNN og stofnsett eigin góðgerðarfélag sem berst gegn fíknefnaneyslu og reynir að hjálpa þeim sem hafa ánetjast efnum.
Vance er sannfærður um að Ameríka sé stórkostlegasta land í heimi. Þar hafi allir tækifæri svo lengi sem þeir eru tilbúnir að leggja hart að sér og vinna vinnuna sem þarf til að ná á toppinn. Hann sem sé trúir á ameríska drauminn. Og vissulega hefur hann ástæðu til, hann lifði hann. Á hinn bóginn eru líklega tíu til fimmtán manns á móti hverri Töru og hverjum Vance sem dragast niður með undiröldunni. Ástæður þess að þau farast liggja ekki fyrst og fremst í skorti á dugnaði eða greind, oft er skýringin minni seigla, þrautseigja þessara einstaklinga er minni. Þeir brotna, bogna ekki. Stundum ræðir einnig einskær tilviljun og heppni. Þrátt fyrir það er ótrúlega áhrifamikið að lesa sögur af þessu tagi og þær vekja vonir. En fyrst og fremst ættu þær að vera lexía, alvarleg áminning til samfélagsins alls um að það ber ábyrgð og ætti aldrei að líta undan þegar börn eru kúguð og meidd.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.