Þurfum að hafa hemil á dýrinu og gangast við því

Lengi vel taldi maðurinn sig kórónu sköpunarverksins, gáfaðasta dýrið en undanfarin ár hafa augu fólks verið að opnast fyrir því innst inni erum við eindaldlega dýr. Sálarlífið aðeins flóknara en hjá öðrum spendýrum og einmitt það hefur leitt okkur í margs konar ógöngur en einnig opnað leiðir hamingu og gleði. Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir horfir á dýptina og leitar skilnings á því hvað rekur menn áfram, heldur þeim kyrrum í sömu sporum og dregur þá niður í bók sinni Gáfaða dýrið. Líkt og í fyrri bókum sínum beitir Sæunn vægðarlausri hreinskilni og greinandi hugsun á samspil rökhugsunar og tilfinninga.

Í formála bókarinn segist þú hafa aðeins hikað áður en þú lagðir upp í þá vegferð að skrifa þessa bók. Óöryggið og óvissan um hvernig fólk myndi taka henni hélt aftur af þér. En er það eina leiðin fyrir okkur að læra að horfa svo raunsætt og hlífðarlaust á eigin hegðun?

„Ég vildi fyrst og fremst iðka það sem ég er að hvetja til,“ segir hún. „Að við séum heiðarleg við okkur sjálf. Að við göngumst við hlutum í okkur sem við viljum helst ekki sýna öðrum en eru þarna samt. Þá vildi ég sýna í bókinni að þetta á við um mig ekki síður en aðra. Ég er líka hrædd. Þessi undirliggjandi ótti er ákveðið þema í bókinni, mikið af ótta okkar er óraunhæfur og tilhæfulaus en hefur engu að síður mikil áhrif.“

Sæunn er hjúkrunarfræðingur í grunninn en hefur aldrei séð eftir að hafa numið sálgreiningu.

Umönnun verðmætust alls

Meðal þess sem hefur verið þér hugleikið er mótun mannshugans í bernsku. Bók þín, Árin sem engin man, fjallar um mikilvægi tengsla og öryggis í æsku og hvernig rofin tengsl eða óöryggi á fyrstu mánuðum og árum lífsins getur mótað manneskju ævina á enda. Óstýrláta mamma mín … og ég, er svo hreinskiptin skoðun á hvernig þau ár mótuðu móður þína og hennar reynsla skapaði þér óhollt tilfinningalegt umhverfi. Í Gáfaða dýrið talar þú um að við höfum karlgert leikskólanna í von um að þeir fengju þar með meiri virðingu og vægi en það hafi verið á kostnað umhyggju og umönnunar. Menntun sé ekki endilega það sem ung börn þarfnist mest. Eru þetta ekki óvinsælar skoðanir á tímum þegar ungir foreldrar standa með mótmælaspjöld í ráðhúsinu og krefjast styttri biðar eftir plássi á leikskólum?

„Ég tala um að við höfum fært leikskólana nær karllægum gildum, til dæmis með því að breyta fóstrum í kennara. Ég er hjúkrunarfræðingur í grunninn og á svipuðum tíma var verið að breyta hjúkrunarkonum í hjúkrunarfræðinga.  Tilgangurinn var að gera störfin aðgengilegri fyrir karlmenn en þetta var líka liður í kjarabaráttu. Og menntun hljómar alltaf vel.“

Nú er talað um leikskóla sem fyrsta menntunarstigið en þá má skilja það sem svo í bókinni þinni að þú teljir börn ekki fyrst og fremst þurfa menntun á þessum árum heldur fremur umhyggju og umönnun.

„Já, allt hefur sinn tíma og umhyggja og umönnun eru engan veginn ómerkilegri en menntun. Það hefur gætt tilhneigingar til að vanmeta þau verk sem konur hafa alltaf sinnt, launalaust, og halda að hver sem er geti sinnt þeim. En ég vil benda á að umönnun fyrstu árin er mesta verðmætasköpun sem til er. Leikskólar geta verið mjög góður kostur en til að svo verði þarf að manna þá mun betur en víða er gert og ekki með hverjum sem er.“

Ein af frábærum myndum Ránar Flygenring sem prýða bókina, Gáfaða dýrið.

Áhrif streitu á taugakerfið vanmetin

Þú talar einnig mikið um öryggi og hversu mjög dýrið í okkur þarfnast þess að finna sig öruggt. Óttinn sé ekki góður stjórnandi og streita geti verið svo yfirgengileg að við náum ekki lengur sambandi við heilabörkinn þar sem skynsemin og dómgreindin býr. Frumstæði heilinn sé við stjórn og taki ekki alltaf góðar ákvarðanir. Þú bendir meðal annars á að sum einkenni ADHD séu ákaflega svipuð viðbrögðum taugakerfisins við langvarandi streitu.

„Já, ég held að áhrif streitu á taugakerfið séu mjög vanmetin,“ segir hún. „Þegar ég kom heim frá námi fyrir þrjátíu árum voru nær öll vandamál kölluð fíkn. Það var vímuefna- og áfengisfíkn, sambandsfíkn, matarfíkn og þú gast skeytt nánast hvaða orði sem var fyrir framan fíkn og þá var komið nafn á vandamálið. Mér finnst svolítið það sama vera að gerast með ADHD. Það er annar hver maður með ADHD. Ég kem inn á í bókinni að það er geti virst góður kostur að kalla erfiðleika sjúkdóma og finna svo lækningu við þeim sem oft felst í lyfjum. Ég tel að það sé mikil einföldun og að ADHD-einkenni geti átt sér ólíkar orsakir og þurfi þess vegna ólíkar lausnir. Þau geta verið birtingamynd streitu sem birtist ýmist sem flótta -eða flýja viðbragð.“

Þú ert hjúkrunarfræðingur í grunninn og skiptir um hest í miðri á þegar þú ferð að læra sálgreiningu. Í bókinni lýsir þú ákveðinni togstreitu og átökum við að fara í gegnum það ferli m.a. með því að fara í sálgreiningu sjálf. Þú varst jafnvel pirruð út í þinn meðferðaraðila því þú þurftir að finna svörin að mestu sjálf. Er það almennt þannig þegar fólk kemur í sálgreiningu að það þurfi að leggja á djúpið eitt og sjálft?

„Nei, það er annars eðlis en það sem ég fór í gegnum,“ segir hún. „Ég var í minni meðferð fjórum sinnum í viku sem gefur mun meiri tíma og meiri samfellu. Slík nálgun nær í nokkuð aðra parta í manni. Ég var ekki beint að kvarta undan að þurfa að gera allt sjálf heldur fannst mér ég framan af fá of litla viðurkenningu frá sálgreininum. Það ræsti upp minn dýpsta ótta um að ég væri ekki nógu góð manneskja.“

Það var augljóslega gaman í útgáfuhófinu þegar Gáfaða dýrinu var fagnað.

Ekki hægt að losna við sársaukann

Sá ótti átti sér rætur í æsku Sæunnar og hún lýsir vel í bók sinni, Óstýrláta mamma mín … og ég. Dýpstu sár flestra liggja þar, í uppeldinu og tengslunum eða tengslaleysinu við okkar helstu umönnunaraðila. Bessel Van Der Kolk talar á svipuðum nótum í bók sinni, Líkaminn geymir allt. Þar er talað um að sárin nái ekki að gróa fyrr en líkaminn hafi fengið lækningu líka. Fólk renni til baka í sama farið þegar ný áföll ríði yfir vegna þess að líkaminn geymi viðbragðið, særindin.

„Já, við vissar aðstæður gerist það. Í sálgreiningu eins og ég fór í gegnum, oft í viku, sköpuðust aðstæður til að nálgast þennan sársauka. Sálgreinirinn hélt mjög skýr mörk og var ekki mikið að hughreysta mig og það kallaði á gamlan sársauka. Það er ekki sú meðferð sem ég sjálf vinn við, meðal annars vegna þess að fólk kemur sjaldnar. Sálgreining er samt aldrei þannig að maður sitji bara og þegi og láti skjólstæðinginn um að finna út úr þessu sjálfur. Þá væri lítið gagn í mér. Ég legg mikla áherslu á að hlusta, lesa á milli línanna og leita eftir því sem ég tel geta varpað ljósi á vanlíðan.“

Er hægt að losna við svona sársauka?

„Ég veit ekki hvort hægt sé að losna við hann en ég held skilningur lini hann. Þegar maður hlúir að gömlum sársauka, skilur hann betur og lærir ný bjargráð þá dofnar hann. Hefur minni tök. Þetta er svolítið eins og ljósmynd sem dofnar með tímanum. Þegar þú óttast sársaukann minna geturðu dvalið við hann og endurmetið túlkun þína. Við gefum öllu sem gerist í lífinu  merkingu og sársaukinn kemur oft frá henni. Okkur er eiginlegt að vera sjálflæg í túlkun og halda að það sem gerðist snúist á einhvern hátt um mig eða sé mér að kenna. Slíka túlkun er mikilvægt að vinna með.“

Umburðarlyndi og skilningur

Í öllum þínum bókum er svo augljóst að við erum ófullkomin en samt manneskjur. Þar er ekki að finna fordæmingu eða útskúfun heldur mun frekar hvatningu til umburðarlyndis og skilnings bæði garð sjálfs sín og annarra. En það er svo rík í okkur sú tilhneiging að krefjast yfirburða eða fullkomnunar, vænta þess bæði hjá sjálfum okkur og öðrum. Það er í gangi ákveðin dýrkun á afreksmanneskjunni, þeirri sem hefur sig upp yfir aðstæður sínar og lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir gríðarlega erfiðleika en sigrar allt. Hinum sem kikna undan sinni byrði er ýtt til hliðar. Ertu að reyna að opna augu okkar fyrir því að við erum bara dýr og í raun enginn ofurmenni til?

„Talandi um þessa hetjudýrkun og þá sem láta aldrei á sér bilbug finna. Ég minnist þess þegar ég var að vinna í Miðstöð foreldra og barna og foreldrar komu til mín sem leið illa á meðgöngu. Ég spurði þá: Hvað gerðist? Svarið var: ekki neitt. Allt hefur verið fínt. Svo þegar samtalinu vatt fram kom auðvitað ýmislegt í ljós. Fólki líður aldrei illa út af engu. En þegar erfiðri reynslu hefur ekki verið gefið vægi, hún hefur ekki verið viðurkennd eða sett í orð, þá áttar fólk sig ekki á eigin sársauka. Áherslan er á að horfa á það góða og á er stundum breitt yfir sársaukann með útskýringum og réttlætingum.

Ég hef hitt margar barnshafandi ungar konur sem hafa verið óhemju duglegar. Þær hafa verið afburðanemendur, duglegar í ræktinni og alltaf að. Þegar þær eru geta ekki haldið sama dampi vegna þungunarinnar brýst oft fram líðan sem öll þessi virkni hefur haldið í skefjum. Konan skilur ekki af hverju henni líður svona því að í hennar huga hefur aldrei verið neitt að. Það þarf ekki að hafa verið eitthvað stórt, eins og ofbeldi eða nauðgun, heldur var kannski aldrei neinn til staðar fyrir hana til að hjálpa henni til að takast á við vanlíðan og hún leysti málið með dugnaði. Augljóslega er betra að grípa þetta fólk á þrítugsaldri en nokkrum áratugum síðar þegar heilsan er farin.“

Helst þetta ekki að einhverju leyti í hendur við væntingar okkar? Margt í lífinu á að vera svona eða hinssegin, þ.e. færa svo mikla hamingju eða vera svo slæmt en svo reynist það einhvern veginn allt öðruvísi en maður bjóst við.

„Það er ein ástæða þess að ég hef verið að skrifa þessar bækur, til að vinna gegn þessum mýtum. Að þú eigir alltaf að vera glöð/glaður og ef þú ert ekki sífellt glöð/glaður þá sé eitthvað að þér. Það að eignast barn til dæmis er eitt mesta þrekvirki og áraun sem hægt er að leggja á eina manneskju og ætlast til að hún sé svo alltaf glöð í þokkabót er bara klikkun.“

Rán Flygenring hefur einstæða sýn á lífið sem sýnir sig í verkum hennar.

Viljum ekki sjá elli og dauða

Í bókinni er líka fjallað um ellina. Við hugsum helst ekki um hana, við viljum lifa sem lengst en ekki verða gömul. Það er engin þolinmæði fyrir því sem ellinni fylgir. Þú nefnir bæði dæmi um samfélögu þar sem öldungar njóta virðingar en einnig andstæðuna þar sem gamla fólkið er einfaldlega drepið svo það verði ekki byrði á þeim yngri. Erum við ekki að sumu leyti að gera það sama með því að ýta okkar öldungum til hliðar, inn á hjúkrunarheimili og út úr hringiðu lífsins?

„Ég held að hjúkrunarheimili, alveg eins og leikskólar, geti verið góður kostur, en þau standa og falla með gæðum umönnunarinnar. Það er eins með hjúkrunarheimilin og leikskólana að þar vinnur lægst launaða fólkið, sumt talar ekki einu sinni sama tungumál og skjólstæðingar þess. Við réttlætum mjög margt, þar á meðal hvernig við komum fram við gamalt fólk, með skorti á peningum. En málið er ekki að við eigum ekki peninga heldur hvernig við veljum að nýta þá. Svo er annað mál að við viljum hvorki hafa elli né dauða fyrir augunum og reynum að trúa því að hvort tveggja sé eitthvað sem kemur fyrr annað fólk, -þá óheppnu. Að við sjálf sleppum ef við erum nógu dugleg í ræktinni eða borðum nógu mikið salat eða kollagen. Það sama á við um útlitsdýrkunina. Ef þú passar að halda þér nógu grannri, ert nógu flott, þá verðurðu hvorki gömul né hjálparvana.

Að selja fólki eilífa æsku er mikil peningamaskína. Fyrst er alið á óánægju fólks og síðan eru boðnar lausnir til sölu. Þetta er gulltryggð formúla því hún býður upp á þá blekkingu að við getum stjórnað hlutum sem við getum ekki stjórnað, eins og öldrun til dæmis. Að vissu leyti er þetta andsvar við þeirri staðreynd að það er mjög fátt sem við ráðum í þessu lífi, sem  er erfið vitneskja. Þess vegna erum við ginkeypt fyrir öllu því sem gefur okkur trú á að við séum við stjórn.“

Dýrið er gáfað en takmarkað

Þegar þú segir þetta læðist að manni sú hugsun að gáfaða dýrið sé ekkert sérstaklega gáfað.

„Þetta er einmitt ein þversagna mannsins: Við erum gáfuð og mjög takmörkuð. Margt í hegðun okkar stjórnast ekki af gáfaða hlutanum heldur hvötum dýrsins. Til að nýta gáfurnar þurfum við að hafa hemil á dýrinu og það getum við ekki gert fyrr en við göngumst við því.“

Sæunn er sextíu og sjö ára og hún er enn að vinna. Hún er sjálfstætt starfandi og stjórnar tíma sínum því sjálf. En hefur hún einhvern tíma séð eftir að hafa lært sálgreiningu og kafað ofan í mannshugann?

„Nei, aldrei, aldrei, segir hún með áherslu. „Það er mín gæfa að hafa farið í þetta nám. Það hefur opnað mér svo marga glugga, innsýn og skilning. Þess vegna finnst mér slæmt að vita  ekki til þess að neinn sé að læra sálgreiningu.“

Vonandi stendur það til bóta en sálgreining er spennandi og áhugaverð því án þekkingar og skilnings verða engar framfarir og sú djúpstæða skoðun á tilfinningalífi mannsins sem Sæunn býður upp á í bókum sínum er í senn upplýsandi og uppbyggjandi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 24, 2024 07:00