Þau standa í eldlínunni fyrir Gráa herinn

Nýlega var þingfest í héraðsdómi mál Gráa hersins vegna skerðinganna í lífeyriskerfinu, en brýnt þykir að fá úr því skorið hvort skerðingarnar í kerfinu standist til að mynda eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Málið er höfðað gegn Tryggingastofnun fyrir hönd ríkisins. Þrír félagar úr Gráa hernum tóku að sér að höfða málið fyrir hönd samtakanna, þau Sigríður J. Guðmundsdóttir, Ingibjörg H. Sverrisdóttir og Wilhelm W.G. Wessman.  Mál þeirra eru mismunandi, en saman gefa þau heildstæðari mynd af ágöllum kerfisins og afleiðingum þess fyrir alla eftirlaunamenn sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum, óháð hjúskaparstöðu og því hvort uppsöfnuð réttindi í lífeyrissjóðum eru mikil eða tiltölulega lítil.  En hvað segja þau um ástæður þess að þau ákváðu að gefa kost á sér til að höfða málið gegn ríkinu?

Mikill áhugi á að leita réttlætis

Þegar Grái herinn óskaði eftir sjálfboðaliðum í ýmiss verkefni bauð Ingibjörg H. Sverrisdóttir sig fram og var skipuð í málsóknarhópinn sem undirbjó málaferlin gegn skerðingunum. „Óánægja vegna skerðinga á lífeyri úr almenna kerfinu hefur verið mikil undanfarin ár og mikill áhugi verið á að leita réttlætis í þeim efnum“, segir Ingibjörg. „Sjálf verð ég fyrir talsverðum skerðingum sem ýtti undir áhuga minn á að taka þátt í undirbúningi að þeirri málsókn sem nú er farin af stað og ekki bara undirbúningnum heldur lánaði ég líka nafnið mitt til málaferlanna að beiðni lögmannanna. Eftir að hafa greitt í lífeyrissjóð frá 1970 bætti það ekki kjör mín sérlega mikið umfram það sem fæst úr almenna lífeyrissjóðskerfinu, enda búið að koma málum þannig fyrir að aðrar tekjur skerða þær greiðslur. Ég taldi mig allan tímann vera að safna viðbótar lífeyri við almenn kjör til að eiga áhyggjulaust ævikvöld eins og oft er talað um. Í sömu stöðu er stór hópur landsmanna sem hafa haft sömu væntingar allan tímann meðan þeir voru á vinnumarkaði og upplifa svo að þær standast ekki þegar lífeyrisaldri er náð og taka lífeyris hefst. Skerðingar hafa margvísleg áhrif á fjárhag eftirlaunafólks. Kerfið er mjög flókið og erfitt að skilja það. Stundum er algjörlega óskiljanlegt hvernig valdhöfum og þeirra undirmönnum hefur tekist að koma lífeyrismálum okkar í þvílíkar ógöngur“.

Hvernig dettur þeim í hug að fara ofan í vasa eldri borgara?

Sigríður J Guðmundsdóttir sagði að því væri fljótsvarað hvers vegna hún hefði tekið að sér að höfða málið gegn skerðingum á launagreiðslum til eldri borgara. “ Ef ég get á einhvern hátt orðið að liði til þess að fá leiðréttingu á skerðingunni, þá er ég tilbúin til að berjast.  Í mínum huga er það stórt réttlætismáli að fá leiðréttingu á þessari launaskerðingu sem eftirlaunaþegar hafa mátt þola í gegnum alltof mörg ár, þessi skerðing er peningur sem eldri borgarar eiga prívat og pesónulega, peningur sem þeir hafa lagt inn í sjóði af sínum launum allt frá árinu 1969, sem viðbótar tryggingu til elliáranna. Ég er ekki að taka þátt í þessum málaferlum til að leita eftir bótum mér til handa, heldur til að fá leiðréttingu á máli sem er ríkisstjórninni til vansa. Hvernig dettur þeim í hug að taka sér það vald að fara ofan í vasa eldri borgara eins og þeir eigi og megi, ná sér í það sem þeim sýnist.  Mér var kennt þegar ég var að alast upp að slíkt væri þjófnaður.  Mikið þætti mér vænt um ef ríkisstjórnin sæi sér fært að leiðrétta þetta mál þegandi og hljóðalaust og að málaferlin þyrftu ekki að fara í gang, en það er trúlega óskhyggja gamallrar konu, sem finnst  að það hljóti að vera jafn auðvelt að taka þennan gjörning af eins og að koma honum á“, segir hún og vonar að málinu ljúki farsællega, þannig að eldri borgarar þessa lands fái að njóta þess réttar sem þeir eiga samkvæmt stjórnarskrá.

Lífeyrissjóðirnir ekki stofnaðir til að niðurgreiða greiðslur frá TR

Wilhelm Wessman svaraði eftirfarandi, þegar hann var spurður um ástæður þess að hann gaf kost á sér í þessi málaferli: „Þegar kom að því að ég hæfi töku eftirlauna, varð mér fyrst ljóst hvernig ríkið tekur ófrjálsi hendi ævisparnað okkar. Ég neita að kalla greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum „ellilífeyri“. Eftirlaun eru áunnin réttindi sem ég hef öðlast með því að greiða í lífeyrissóð VR  í fjörutíu og fimm ár og skatt frá 16 ára aldri og er enn að. Ég tók þátt í stofnun eins af lífeyrissjóðunum á almenna vinnumarkaðinum og var í samninganefnd Vinnuveitendasambandsins – nú SA –  og þekki því tilganginn með stofnum lífeyrissjóðanna 1969. Þeir voru ekki stofnaðir til að niðurgreiða greiðslur frá TR heldur til að vera viðbót við greiðslur frá TR. Þeir þjóna sama tilgangi og sú fyrirhyggja að safna á bankareikning eða fara aðra fjárfestingaleið til að safna í handraðann til efri ára. Að skerða greiðslur frá TR um 45% hjá fólki í sambúð og 56,9% fyrir einbúa eftir að búið er að greiða skatt af greiðslum frá TR og lífeyrissjóðum, tel ég rán á sparnaði landsmanna. Ég hóf að vinna að þessu máli í hruninu með skrifum og viðræðum við forystumenn verkalýðsfélaganna og Forseta ASI. Þegar Grái herinn var stofnaður 2016 gekk ég til liðs við GH og hef barist fyrir þessu máli þar. Ég bauð mig strax fram sem kandídat til að fronta málið fyrir GH. Mér var fljótlega ljóst að niðurstaða í þessu mál næðist ekki fram með samningum, þar sem stjórnvöld eru ófáanleg til að ræða það. Eina leiðin sem er fær,er dómstólaleiðin“.

Grái herinn hefur opnað vefsíðu www.graiherinn.is . Þar er að finna upplýsingar um málshöfðunina og hægt að skoða málsskjölin.  Hér fyrir neðan eru tenglar á stefnur þeirra þremenninganna.

Stefna Ingibjörg

Stefna Sigríður

Stefna Wilhelm

 

 

Ritstjórn júní 2, 2020 09:07