Það á ekki að vera neitt frítekjumark

„Það er nú fyrst frá því að segja að þegar ég var 75 ára var haft samband við mig og ég beðinn um að gefa kost á mér í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Þetta voru menn sem ætluðu að gera byltingu í félaginu, en ég vissi þá varla hvaða félag þetta var“, segir Ellert B. Schram sem tekur við sem formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni á aðalfundi félagsins í dag. Hann var áður varaformaður í félaginu. Hann tekur við formennskunni af Þórunni Sveinbjörnsdóttur sem er að ljúka sínu kjörtímabili sem formaður í félaginu, eftir 4 ár. „Ég hafði ekkert verið inní málefnum eldri borgara og sagði þeim að ég yrði ekki á landinu þegar fundurinn yrði haldinn, en sagði þeim jafnframt að þeir mættu hafa mig með á listanum“, sagði Ellert. „Ég var því fjarri góðu gamni en sat uppi með það að vera eini byltingarmaðurinn sem komst í stjórnina.

Þetta er líklega Íslandsmet

Ellert segist hafa kynnst starfi félagsins í stjórninni. Veruleg vinna hafi verið lögð í að berjast fyrir hagsmunum eldri borgara og efna til viðburða til að lífga upp á líf og tilveru þeirra sem eldri eru. „Mér finnst félagið virkilega þarft og eiga erindi inní samfélagið“, segir hann. „Ég hef hvorki sóst eftir að fara í stjórn félagsins né að verða formaður stjórnarinnar, en er glaður og þakklátur fyrir að fólk skuli treysta mér fyrir þessu. Ég mun gera mitt besta, það er ekki á hverjum degi sem svona gamall maður er beðinn um að verða formaður í svona stóru félagi, með rúmlega 10.000 félagsmenn. Þetta er líklega Íslandsmet“, segir Ellert og hlær. „Úr því menn vilja hafa mig í forystunni finnst mér skylda mín að verða við því. Mér finnst ég þannig vera ákveðin fyrirmynd, fólk er ekki dottið út og komið fram yfir síðasta söludag þó það sé komið á  áttræðisaldur“.

Gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu

Ellert telur hvað brýnast að sjá til þess að eldra fólk geti lifað lífinu lifandi og notið efri áranna. „Lífið en engan veginn búið þó fólk sé komið á þennan aldur“. Hann segir hlutverk félagsins að passa uppá hagsmuni eldra fólks og það hafi ekki veitt af. „Félagið þarf að vera á verði gagnvart réttindum, þjónustu og aðkomu eldra fólks að málefnum samfélagsins. Það gleymist oft að hugsa um þá sem hafa orðið útundan, þá sem búa við fátækt, veikindi og einangrun. Að mínu áliti vegur það þyngst í starfi félagsins að hjálpa þeim meðbræðrum okkar sem höllustum fæti standa. En sem betur fer er yfirgnæfandi meirihluti fólks á þessum aldri í góðum málum, 75%  eða fleiri búa við góða heilsu, hreyfa sig, búa í eigin húsnæði og leggja fram sitt gagnvart sínum nánustu og samfélaginu í heild. Kannanir sýna að eldri borgarar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu“.

Býður Gráa hernum opinn faðminn

Grái herinn, baráttuhópur eftirlaunafólks í Félagi eldri borgara var settur á laggirnar á þessu ári og nýi formaðurinn er afar jákvæður gagnvart starfsemi hans. „Á sama tíma og ég hef setið í stjórn FEB, hefur Grái herinn haslað sér völl. Hann er góð viðbót við það starf og þá sýn, sem félag eldri borgara hefur. Takturinn hjá þeim gráa er beinskeittur og einbeittur og gerir ekkert nema gott, að hrista upp í gömlu kerfi og ögra viðmælendum. Fulltrúar Gráa hersins hafa verið í stjórn FEB, Erna og Helgi, og telja í okkur kjark og baráttu. Ég vil, sem næsti formaður hjá FEB, halda áfram með samskipti og samvinnu beggja þessara samtaka. Ég býð þeim opinn faðm minn.“

Stundum blöskrar manni

„Við höfum náttúrulega varið miklum tíma í að koma á framfæri röksemdum og sjónarmiðum sem varða fjárhag eldra fólks. Það hefur verið misjafnlega tekið undir það og stundum blöskrar manni hversu kaldrifjuð pólitíkin getur verið þegar kemur að málefnum eldra fólks“, segir Ellert. Hann segist til dæmis þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gilda neinar takmarkanir á því hversu mikla peninga eldri borgarar sem eru á vinnumarkaði vinni sér inn. „Það á ekki að vera neitt frítekjumark og þeir sem hafa lægstu eftirlaunin frá Tryggingastofnun eiga ekki að borga af þeim skatt“, segir hann.“Þetta er svo lág upphæð“. Varðandi viðbótartekjur sem eldri borgarar vinna sér inn, telur Ellert eðlilegt að þeir greiði af þeim skatt, á sama hátt og aðrir sem vinna fyrir viðbótartekjum.

Þarf að vera í góðu sambandi við stjórnvöld

Ellert segir að Félag eldri borgara eigi ekki að merkja sig ákveðnum stjórnmálaflokki og þurfi að vera í góðu sambandi við stjórnvöld. „Við þurfum að reyna að koma málstað þeirra öldruðu á framfæri  og leysa þau viðfangsefn sem við er að glíma í sátt og með stuðningi allra þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi og í sveitarstjórnum. Það kostar að við verðum að vera sýnileg og að rödd okkar verður að heyrast. Hann segir að það séu sennilega mun fleiri en bara eldri kynslóðin sem kvarti yfir því að stjórnvöld hlusti lítið á þeirra kröfur.  Það sé ekki alltaf hægt að gera allt. En það megi ekki gleyma þeim sem eru komnir á efri ár, þó þeir séu hættir að vinna og hættir að taka þátt í samfélaginu. „Þetta fólk er búið að skila sínu og í dag er þetta kynslóðin sem gerbreytti íslensku samfélagi. Ég get rifjað upp það Ísland sem ég upplifði lítill drengur. Það var ekkert malbik, ekki hitaveita og ekki sjónvarp. Bílar voru bara í eigu þeirra efnamestu og ég man eftir því þegar fyrsti traktorinn kom í sveitina“, segir Ellert um þessar miklu breytingar.

Eiga ekki að setja skóna á hilluna

Ellert  finnst ótrúlegt hversu margir eru tilbúnir í sjálfboðaliðastarf fyrir Félag eldri borgara. Menn taki að sér nefndarstörf, stjórni tómstundastarfi eins og skák, bridge og dansi, efni til Íslendingasagnanámskeiða og námskeiða á Ipad, auk þess að skipuleggja ferðalög innanlands og utan. Þá hafi mikil vinna verið lögð í afsláttarbók félagsins, sem veitir upplýsingar um margvíslegan afslátt sem félagarnir njóta um allt land.  Hann telur mikilvægt að halda áfram því góða starfi sem félagið hefur sinnt og bætir við að það sé ástæða til að skoða þann möguleika að Félag eldri borgara kaupi húsnæði á Spáni, sem félagarnir geti þá leigt eða jafnvel keypt. „Ef það verða einhverjar breytingar á félaginu undir minni stjórn, vona ég að þær verði til góðs“, segir hann aðspurður. En hann telur Félag eldri borgara hafa haslað sér völl og staðið sig vel í þjónustunni við eldri kynslóðina. Hann vonist til að augu fleiri opnist og að þeir gangi til liðs við félagið. „Menn eiga ekki að setja skóna á hilluna, heldur vera með eins lengi og mögulegt er“, segir íþróttakappinn fyrrverandi.

Ágústa og Ellert

Allt jafn skemmtilegt

Ellert hefur víða komið við á löngum ferli. Hann var þekktur íþróttamaður, starfaði sem lögfræðingur, var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn um tíma og seinna Samfylkinguna, ristjóri DV ásamt Jónasi Kristjánssyni auk þess sem hann var um árabil formaður stjórnar KSÍ og forseti ÍSÍ. Þegar hann er spurður hvað af þessu sé eftirminnilegast, segir hann „Allt, þetta var allt jafn skemmtilegt“.  Hann segir að þetta hafi verið skemmtilegt á meðan á því stóð og líka þegar hann rifji það upp. Þetta hafi verið tímar lífs, starfa, átaka og húrrahrópa. „Maður lærði það ágætlega í íþróttunum að maður vinnur ekki alltaf. Ef maður tapar leik, bara eins og í lífinu sjálfu, þá lærir maður af reynslunni og reynir að gera betur næst“. Ellert er kvæntur Ágústu Jóhannsdóttur. Hann á samtals 18 afkomendur, börn, barnabörn og eitt langafabarn. Og það er enn að bætast í hópinn því eitt barnabarn til viðbótar er á leiðinni.

 

Ritstjórn febrúar 16, 2017 11:17