Tíu leiðir til að njóta vináttu eftir sextugt

Ef við lítum yfir vinahópinn okkar síðustu áratugina, eru vinir okkar mismunandi. Þetta eru æskuvinir, vinir okkar frá skólaárunum í framhaldsskólum eða háskólum. Þeir sem voru við hlið okkar þegar við vorum að uppgötva lífið.

Siða eru vinir okkar frá fullorðinsárum, samstarfsmenn frá ýmsum tímum eða foreldrar með börn eins og við. Ef við hraðspólum fram til dagsins í dag og vinanna sem eru í svipaðri stöðu og við erum núna, þá eru þeir fólkið sem við munum deila með bæði góðu og slæmu í lífinu framundan. Þetta eru vinirnir sem við vonumst eftir að eiga að, þar til yfir lýkur. En hverjir eru það sem standa með þér í dag og hvernig á að láta vináttuna endast á þessu tímabili lífsins? Hér á eftir koma tíu ráð af vefnum sixtyandme sem hægt er að hafa að leiðarljósi í þessum efnum.

1. Gefum vinum okkar tíma

Sum okkar eru svo vel sett að eiga maka sem er okkar besti vinur. Það þýðir samt ekki að við þurfum ekki á öðru fólki að halda. Við megum ekki gera þau mistök að hætta að hugsa um vini okkar.

Við verðum, í nafni vináttunnar, að gefa okkur tíma til að hitta þá. Annað hvort á netinu, eða í eigin persónu. Ákveða hitting og færa hann inn í dagbókina. Ekki breyta honum nema brýna nauðsyn beri til. Látum vinina hafa forgang.

2. Takið pásu

Við erum öll mannleg og höfum öll galla sem geta farið óstjórnlega í taugarnar á öðrum. Við viljum ekki endilega hugsa mikið um það. En þannig er það nú samt.

Það getur verið að við tölum of mikið um börnin okkar, eða séum of upptekin af ræktinni, af líkamanum, verkefnunum sem við erum með, eða einhverju öðru sem pirrar kannski aðra. Takið hlé, ef þið þurfið, en hafið alltaf samband aftur. Hringið eða sendið skilaboð og látið vita að þið séuð ekki horfin að eilífu, þó þið hafið tekið pásu.

3. Farið saman í ferðalag

Takið frá helgi og farið í ferðalag með vinkonunum/vinunum. Þið finnið hvenær það er rétti tíminn fyrir slíka ferð. Ferð sem skapar sjóð minninga sem við tökum með okkur áfram og getum sótt í þegar við þurfum á upplyftingu að halda.

4. Forðist að ræða um pólitík

Ekki tala um viðkvæmar pólitískar deilur nema þið vitið að vinkonur ykkar eða vinir hafi svipaðar skoðanir á málunum og þið. Það langar engan að láta predika yfir sér, eða upplifa að hann megi ekki hafa sínar skoðanir í friði.

5. Farið varlega þegar kemur að fjármálum

Hafið á bak við eyrað að það er misjafnt í vinahópi hvernig fjármálum manna er háttað. Það er ekki víst að allir hafi efni á að eyða stórfé í föt, sumarleyfi og annað. Ef mikið er verið að ræða það, getur það virkað illa á þá sem hafa ekki efni á slíku. Farið varlega til að forðast að peningamál spilli vináttuni.

6. Hlustaðu á vini þína

Ekki láta eins og þú vitir allt best. Gefðu vinum þínum færi á að tala og hlustaðu. Þeir þurfa líka að fá að láta ljós sitt skína.

7. Eignist nýja vini

Brostu og vertu opinn fyrir því að hitta nýtt fólk og eignast nýja vini. Það er gott að umgangast fólk sem hefur svipuð áhugamál og þú. Þegar við eldumst, og förum á eftirlaun, fara áhugamálin að skipta meira máli í lífinu og þau geta jafnvel breyst.

Leitaðu hófana í félagsskap þar sem fólk með sömu lífsviðhorf safnast saman. Opnaðu hjarta þitt fyrir nýjum vinum. Þeir geta aldrei orðið of margir.

8. Fyrirgefum vinum okkar gallana

Fyrirgefningin er lykillinn að því að við höldum áfram að vera vinir vina okkar. Það kann að vera að einhver okkar hafi misstigið sig, móðgað aðra eða sært tilfinningar þeirra. GLEYMUM ÞVÍ. Lífið er alltof stutt til að erfa slíka hluti. Ef þið viljið halda í vináttuna, stigið fyrsta skrefið til sátta.

9. Verum í sambandi

Það er enginn vandi á dögum samfélagsmiðla að halda sambandi við fólk. Punktur.

10. Deilum vináttunni

Ekki vera eigingjörn á vini þína. Þú átt aldrei nóg af vinum og það sama gildir um þá. Þeir geta heldur ekki átt of marga vini. Það eru margar jurtir í einum garði og góður vinur veit, að margar yndislegar sálir geta og eiga að vera hluti af lífi okkar.

Ritstjórn október 13, 2021 12:34