Of upptekin til að hitta vinina?

Það er tvennt sem við ættum aldrei að segja við vini okkar. Annað er „Því miður ég get ekki hitt þig ég er svo upptekin…“ og hitt er „Reynum endilega að hittast“. Hver þekkir það ekki að vera með of mikið á sinni könnu, vinnu, líkamsrækt, áhugamál, börn, barnabörn og foreldra sem eru farnir að þurfa aðstoð. Það er ekki einfalt að pússla þessu öllu saman. Þrátt fyrir það eigum við ekki að láta vini okkar sitja á hakanum, segir í grein á vefsíðunni Grandparents.com.  Þar er vitnað í bandaríska sérfræðinga um vináttu, fólk sem hefur skrifað bækur um vináttuna og það mælir svo sannarlega ekki með því að við segjumst vera upptekin þegar vinirnir hafa samband, eða leggja til að við hittumst síðar, án þess að gera nokkra tilraun til að taka frá tíma til þess.  Sérfræðingarnir telja jafnframt að slíkar afsakanir geti haft skaðleg áhrif á samband okkar við gamla vini. En grípum niður í greinina þar sem rætt er um þörfina fyrir vináttu.

Góð vinátta lengir lífið

Við vitum öll hversu mikilvægt það er að eiga vini. Þeir eru til staðar og hlæja og gráta með okkur. Þeir deila með okkur mikilvægum augnablikum og tilfinningum lífsins. Það eykur langlífi að eiga góða vini og gerir okkur auðveldara um vik að kljást við stress og halda heilsu. Þegar við eldumst breytist vináttan. Stundum verða vinir nánari, eða öfugt, þeir fjarlægjast hvor annan. „Vinátta endist ekki alltaf alla ævi, jafnvel ekki góð vinátta“, segir geðlæknir við Læknaskóla háskólans í New York. „Fólk breytist í áranna rás og gamlir vinir eiga þegar fram í sækir, kannski fátt sameiginlegt annað en gamlar minningar“. Hann bendir líka á að vinátta þurfi sérstakar aðstæður til að blómstra. Það er auðveldara að rækta vinskap við þann sem býr nálægt þér, vinnur á sama stað, fer í sömu líkamsræktarstöðina eða sækir sömu námskeiðin og þú, heldur en einhvern sem er fluttur af landi brott. Það skiptir líka máli, ef annar vinanna er kominn á eftirlaun en hinn ekki. Þá getur verið erfitt að finna hentugan tíma til að eyða saman.

Þreyta í vinasambandinu?

Ef vinskapurinn er að kólna getur verið auðvelt að bera því við að við séum upptekin, til að forðast að ræða málin frekar. Sérfræðingur sem rætt er við, segir að það að segjast vera upptekinn sé önnur og mildari leið til að gefa til kynna að þú viljir frekar gera eitthvað annað en hitta viðkomandi. Ef vinur þinn segist stöðugt vera upptekinn, þegar þig langar að hitta hann, getur það bent til þess að hann sé þreyttur á vinasambandinu, en þá er líka ástæða til að ræða það hreint út. Vandinn er sá að mörg okkar nota það í algeru hugsunaleysi að segjast vera upptekin. Ekki vegna þess að okkur langi ekki lengur að hitta vini okkar, heldur finnst okkur einfaldlega yfirþyrmandi hvað við höfum mikið að gera. Ef það er málið ættum við að vanda orðavalið betur. Við þurfum að setja það í forgang að hitta þá sem okkur þykir vænt um.

Forgangsröðum

Ef þig langar að eiga gott samband við vini þína, en hefur alltof mikið að gera, eru ýmislegt sem hægt er að segja eða gera. Einn sérfræðinganna sem rætt er við í greininni segir að það sé algengt að konur kvarti undan því að vinkonur þeirra hafi ekki tíma fyrir þær. Hann bendir á þrjár leiðir til að halda í vini sína, þrátt fyrir miklar annir.

Að biðjast afsökunar og taka ábyrgð. Við ráðum því sjálf hversu upptekin við erum, við erum ekki fórnarlömb í þessari stöðu. Við höfum komið okkur í hana og eigum að viðurkenna það.

Staðfestu vináttuna.  Láttu vini þína vita og finna hversu mikils virði þeir eru þér. Það minnkar líkurnar á að þeir taki það persónulega til sín, ef þú ert mjög upptekinn.

Gerðu ráðstafanir. Hvað hefur þú að bjóða ef þú ert of önnum kafinn? Hvaða smugu hefur þú? Finndu tíma og mæltu þér mót við góðan vin þinn eða vinkonu.

Það er líka góð leið að senda stuttan tölvupóst, eða kveðju til að vinur þinn viti að þú ert að hugsa til hans. „Jafnvel þótt það séu margir dagar, vikur eða mánuðir þangað til þið hittist, skaltu sýna að þú sért aldrei það upptekinn að þú getir ekki sent vini þínum eða vinkonu kveðju“, segir sérfræðingurinn.

Ef  vinur þinn hefur ekki tíma fyrir þig

En hvað er hægt að gera, ef staðan er þannig að vinur þinn eða vinkona er alltaf upptekin þegar þig langar að hitta hana?  Það á ekki að gera of mikið mál úr því að mati sérfræðinganna. Menn eiga að rifja upp þær stundir þegar þeir hafa sjálfir verið svo uppteknir að þeir hafa orðið fegnir, þegar einhverju hefur verið frestað eða hætt við ákveðinn viðburð. Þegar þeir hafa sjálfir verið úrvinda og virkilega þegið það að geta hvílt sig, í stað þess að fara eitthvað út.  En getur verið að menn eigi sjálfir sök á því ef vinur eða vinkona hafa ekki tíma fyrir þá? Gleymdir þú kannski afmæli vinkonu þinnar eða gleymdir þú að hringja í vin þinn þegar hann átti erfitt? Það er rétt að líta í eiginn barm. Ef þú finnur ekkert sem kann að valda því að vinur þinn forðast þig, ræddu það þá við hann í góðu tómi. Það getur verið að allt sé í himnalagi og kannski upplifir vinur þinn eða vinkona slíka umræðu sem þrýsting á sig. En vinátta snýst um val og við skulum ljúka þessu greinarkorni með tilvitnun í einn sérfræðinganna. „Við skulum hafa í huga að þó okkur þyki mjög vænt um vini okkar, þá hafa þeir ýmsum skyldum að gegna sem ganga fyrir. Það eru skyldur við maka, við foreldra, börn og barnabörn og fleira. Menn þurfa að sýna skilning. En ef sambandið heldur áfram að vera stirt, er rétt að setjast niður og ræða það í hreinskilni“.

 

Ritstjórn mars 15, 2018 10:42