Bókin Gönguleiðir á Reykjanesi hefur að geyma lifandi leiðarlýsingar tæplega þrjátíu áfangastaða á Reykjanesskaga, sem útgefandinn hikar ekki við að kalla „fjársjóðskistu útivistarfólks“.
Sumar leiðirnar eru á fjöll, aðrar um hraun og dali og margar eru hringleiðir. Allar eru lýsingarnar innblásnar af þeim miklu jarðsumbrotum sem hafa einkennt svæðið alla tíð. Margar leiðirnar henta fyrir fjallahjól, aðrar fyrir utanvegahlaup og enn aðrar til að kynna yngstu kynslóðina fyrir töfrum fjallaferða og eru þær merktar sérstaklega.
Jónas Guðmundsson er leiðsögumaður, landvörður og ferðamálafræðingur sem varið hefur ótal stundum á fjöllum. Reykjanes skipar sérstakan sess í huga hans og þangað leitar hann aftur og aftur til að „njóta, upplifa og endurhlaða rafhlöður líkamans og sálartetursins“.
Margt að uppgötva í bakgarði borgarinnar
Þegar Lifðu núna náði tali af Jónasi var hann staddur á gönguskíðum að Fjallabaki, en á meðan farsímasambandið var gott gaf hann sér tíma til að svara nokkrum spurningum um nýju bókina. Hann segir tvo aðalhvata hafa verið að útgáfunni: í fyrsta lagi góðar viðtökur við bókinni Gönguleiðir á hálendinu sem kom út í fyrrasumar og fjallar um fjallgöngur að Fjallabaki, og í öðru lagi eldgosið í Geldingadölum sem opnaði augu margra fyrir töfrum Reykjaness sem útivistarsvæðis. „Margar leiðir á Reykjanesinu hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Jónas. Hann hafi gengið allar leiðirnar í bókinni aftur síðasta sumar, og uppgötvað margt nýtt.
Spurður um uppáhaldsleiðina svarar Jónas að það sé erfitt að gera upp á milli. En hann fullyrðir að ein skemmtilega dagleið landsins sé í jaðri höfuðborgarsvæðisins; hún heitir Dalaleið, er 28 km og liggur frá Kaldárseli í landi Hafnarfjarðar suður um, framhjá Kleifarvatni um Fagradal, Vatnshlíðarhorn og Hvammahraun. „Þetta er svo stórkostlega fjölbreytt leið,“ segir hann. Þá nefnir hann líka Skógfellastíg, forna þjóðleið frá Vogum suður til Grindavíkur. Á þeirri leið megi víða sjá hvernig hófar horfinna hesta hafa máð greinilegar götur í hraunhellurnar. Í þriðja lagi nefndir hann Sogin, sem sumir kalla „Litlu Landmannalaugar“, en það er litríkt hverasvæði í dal nálægt Djúpavatni. Þangað er auðvelt að ganga, og möguleiki að gera það úr tveimur áttum.
Hentar öllum getustigum
Gönguleiðir á Reykjanesi hentar að sögn höfundarins öllum þeim sem ætla að leggja land undir fót. Hverri leið fylgir leiðarlýsing, kort og GPS-hnit, fjöldi ljósmynda og upplýsingar um staðhætti og aðstæður. Auk þess er settur fram sögulegur og landfræðilegur fróðleikur um þær leiðir sem gengnar eru hverju sinni. Í bókinni er einnig hagnýtur kafli um undirbúning og fjöldi góðra ráða sem varða fjallgöngur og útivist.