Að baki sögunni í Ragnarök undir jökli eftir Skúla Sigurðsson er frumleg og flott hugmynd. Sértrúarsöfnuður byggður á heimsmynd norrænnar goðafræði hefur komið sér fyrir á Suðurlandi, undir Mýrdalsjökli. Fólkið hefur gert upp gamlan bóndabæ og reist um hann virkisvegg. Þetta fólk vill vera í friði og lifa eftir sínum hugmyndum en ekki beygja sig undir aga og reglur íslensks samfélags. Þegar barnaverndarnefnd skerst í málin og hyggst taka börn safnaðarmeðlima af þeim verður fjandinn laus.
Forystumaður safnaðarins tekur í gíslingu tvo lögreglumenn og þrjá starfsmenn barnaverndarnefndar. Hann hefur einnig boðað tvo blaðamenn á staðinn en þeim er ætlað að bera atburðunum vitni og skrifa um þá. Sagan er mjög spennandi á köflum og hugmyndin að mörgu leyti vel útfærð og unnin. En að halda forvitni lesandans vakandi í tæpar 450 síður, er kúnst og það tekst ekki alveg hér.
Skúli er engu að síður meðal athyglisverðustu glæpasagnahöfunda landsins. Hann skapar áhugaverðar persónur og skemmtilega karaktera og í þessari bók, eins og hans fyrri er hann að velta fyrir sér margvíslegum siðferðisspurningum. Er til að mynda eðlilegt og sjálfsagt í lýðræðisþjóðfélögum að fólk fái að velja sjálft hvernig það lifir og hvernig menntun barna þeirra er háttað? Er einhvern tíma réttlætanlegt að taka börn af foreldrum sínum? Á hinn bóginn dregur hann einnig upp skýra mynd af trúarlegu ofbeldi. Hann lýsir á trúverðugan hátt hvernig heillandi leiðtogar geta náð slíkum heljartökum á hugum viðkvæmra manneskja að þær láti leiða sig út í margvísleg ofbeldisverk og glæpi. Það má alltaf treysta því að Skúli skilur lesandann eftir hugsi og með alls konar nesti að lestri bóka hans loknum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







