Þegar sannleikurinn sefur er ný bók eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Í fyrra kom út hennar fyrsta skáldsaga, Valskan, og þar steig fram á sjónarsviðið fullskapaður höfundur. Nanna sýndi strax þá að henni er einkar lagið að skapa andrúmsloft, trúverðugar persónur og heilstæða spennandi sögu. Þessi bók gefur Völskunni ekkert eftir, stendur henni raunar framar á sumum sviðum, sennilega vegna þess að hér fléttast inn í morðgáta og lesandinn veit ekki fyrr en blálokin hver morðinginn er.
Í eftirmála segir Nanna frá því að hún byggir söguna lauslega á sönnum atburðum. Hún hefur ævinlega haft áhuga á grúski og nálgast gjarnan viðfangsefni sín eins og fræðimaður þótt áður væri hún fyrst og fremst að skrifa um mat. Í Völskunni segir Nanna sögu formóður sinnar sem var uppi á seinni hluta átjándu aldar. Bergþóra húsfreyja í Hvömmum glímir hins vegar við fyrri hluta þeirrar aldar. Stóra bóla hefur nýlega farið yfir landið, lagt að velli fjölmarga og skilið aðra eftir örótta eftir bólurnar.
Bergþóra er djörf kona, sjálfstæð og hörkudugleg. Hún var ung neydd í hjónaband með mun eldri manni en er þegar sagan hefst orðin ekkja og stendur sjálf fyrir búi sínu. Dag nokkurn sendir hún vinnumenn sína eftir heyi sem flytja þarf heim í hús en fær í staðinn þá frétt að látin kona hafi fundist í læk skammt frá bæ hennar. Bergþóra sest upp á hest sinn, fer á staðinn og er upp frá því flækt inn í rannsóknina. Hún á einnig í glímu við sjálfa sig og við kynnumst karlmönnunum í lífi ríku ekkjunnar.
Allar persónur þessarar sögu er dregnar upp á svo stórkostlegan hátt að þær standa manni ljóslifandi fyrir hugskotsjónum. Þær eru auk þess allar áhugaverðar og eftirminnilegar. Umhverfið verður einnig skýrt og raunverulegt. Það er svo auðvelt að sjá fyrir sér baðstofuna á Hvömmum, salinn og hjónahúsið. Nanna skrifar óskaplega lifandi og fjörlegan texta. Það er alltaf stutt í kíminina. Þessi saga er bæði litrík, spennandi og skemmtileg. Hún er einhvern veginn líka þess eðlis að maður myndi vilja sjá hana á sviði eða kvikmyndaða. Ég er varla búin að loka bókinni en mig langar strax að lesa hana aftur. Kápan á þessari bók er líka óskaplega forvitnileg og flott en það er Alexandra Buhl sem hannar. Hún starfar hjá Forlaginu og er greinilega sérlega hugmyndaríkur og flottur hönnuður.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.