Umhyggjan á rætur í ást og þolinmæði

Hjónin Kevin Bacon og Kyra Sedgwick eru vel þekkt í Hollywood og ekki bara fyrir hæfileika sína á sviði leiklistar, tónlistarsköpunar og dans heldur einnig fyrir að hafa skapað traust hjónaband og haldið því við í þrjátíu og sjö ár. Nú hafa þau hjónin sameinast um að framleiða kvikmynd um hvernig lífið breytist þegar makinn veikist og jafnvægið í sambandinu raskast á þann veg að annar helmingur parsins verður umönnunaraðili hins.

Kevin er sextíu og sex ára og Kyra fimmtíu og níu. Nýja myndin heitir, The Best You Can, eða Sem best þú getur. Kyra leikur Cynthiu, færan þvagfæraskurðlækni í New York, sem er gift manni sem er nokkuð eldri en hún. Judd Hirsch leikur hann. Þegar eiginmaðurinn fer að sýna merki heilabilunar tekur eiginkona hans æ meiri ábyrgð á umönnun hans og daglegum þörfum. Myndin sýnir síðan hvernig einmanaleiki hennar eykst og hvernig eiginmaðurinn, greindur, vel menntaður maður sem gengt hafði margvíslegum ábyrgðarstöðum verður sífellt háðari henni.

Kyra hefur sagt í viðtölum vegna myndarinnar að hún telji að sumt fólk sé hreinlega fætt með þá gjöf að vera umhyggjusamt og gott í því að sinna öðrum. „Ég hef sinnt umönnun frá því ég fæddist,“ segir hún. Hins vegar bætti hún við að jafnvel þeir allra bestu á því sviði verði einhvern tíma að læra að enginn getur allt einn og fyrr eða síðar verður fólk að leita sér hjálpar. Það sé engin skömm að því.

Kevin með Sosie dóttur sinni og Kyru.

Átti gamla foreldra

Maður hennar þekkir einnig vel umönnunarhlutverkið. „Mamma mín var fjörutíu og þriggja ára þegar hún átti mig og pabbi minn var fimmtugur,“ segir hann í viðtali. „Foreldrar mínir voru taldir gamlir foreldrar þegar ég var barn og ég þurfti sennilega að takast á við málefni sem fylgja auknum aldri fyrr en flestir aðrir.“

Það að hafa orðið vitni að átökum við Elli kerlingu svo snemma á ævinni hjálpaði leikaranum að skilja og skynja hvað felst í umhyggju og umönnun sérstaklega innan vébanda fjölskyldunnar. Sjálf eiga þau Kevin og Kyra tvö börn, Travis og Sosie. Þau búa á búgarði í Connecticut og njóta sín vel þar. Undanfarið hafa þau leikið sér að því að búa til Tiktok-myndbönd sem njóta mikilla vinsælda og Sosie tekur stundum þátt í þeim með foreldrum sínum.

Þau hafa undirbúið bæði börnin undir það að hvorugt þeirra verði eilíft og Kyra segir þau hafa rætt við þau um hvað þau vilji að verði gert þegar og ef þau sjálf geta ekki tekið ákvarðanir og þegar kveðja þennan heim. Kevin tekur undir og bætir við að þau trúi bæði á að samskipti séu lykillinn að góðu og heilbrigðu fjölskyldulífi. Þau hittist alltaf reglulega og borði saman og þá tali þau um allt sem máli skiptir. Það skipti minna máli hversu háar einkunnir börn fái í skóla, hvenig þau klæði sig eða hver áhugamálin séu, aðalatriðið sé að mæta á réttum tíma, setjast við borðið og taka þátt í samræðunum.

Umönnunaraðilinn þarf líka umhyggju

Í kvikmyndinni, The Best You Can, leikur Kevin öryggisvörð sem vingast við Cynthiu og styður hana þegar hún er við það að bugast. Hann segir það vera nokkuð sem hann tengi mjög vel við því Kyra sé í eðli sínu mjög umhyggjusöm og full meðlíðunar með öðrum og hann hafi stundum þurft að minna hana á að hugsa líka um sjálfa sig. Það sé nefnilega helsti ókostur þannig manneskja að þær gleymi oft að sinna eigin þörfum og geti því auðveldlega brotnað undan álaginu.

Þetta eru mikilvæg skilaboð vegna þess að þeim fer fjölgandi um allan heim sem eru í hlutverki umönnunaraðila gagnvart fjölskyldumeðlim. Til dæmis er talið að um fjörutíu og átta milljónir Bandaríkjamanna beri ábyrgð á umönnun eins eða fleiri eldri einstaklinga í fjölskyldu sinni. Konur eru í miklum meirihluta hvað þetta varðar og margar þeirra eru enn í fullri vinnu.

Kevin og Kyra segist ekki hafa svör við því hvernig hægt sé að koma til móts við þetta fólk en þau vilji vekja athygli á þessum vanda. Í okkar menningarheimi er eins og menn forðist að ræða ellina, að aldurinn taki völdin, skipti einhverju og breyti einhverju. Hið sama gildi um umhyggjuna. Gengið sé útfrá henni vísri en sumir viti ekki einu sinni um hvað hún snýst. Þau vilja að fólk læri og tileinki sér umburðarlyndi, kærleika og skýra sýn. Tilgangurinn með kvikmyndinni, The Best You Can, sé að sýna fram á að það að hugsa um aðra sé ekki byrði heldur val, val sem eigi sér djúpar rætur í ást, þolinmæði og þessum smáu en ómetanlegu gjörðum sem við öll metum svo mikils þegar við verðum þeirra aðnjótandi.

En þau eru bæði leikarar og að eldast. Hefur það skipt máli í þeirra lífi? Kyra segir: „Eftir því sem maður eldist því meðvitaðri er maður um eigið valdaleysi – og það er frelsandi á vissan hátt. Í myndinni leit ég út eins og raunveruleg manneskja. Frábært, og já, ég leit út fyrir að vera á mínum aldri. Það er fínt.“

Maður hennar segir að með aldrinum hafi hann fengið að leika dýpri og alvarlegri hlutverk og það sé í senn meira krefjandi en jafnframt skemmtilegra og meira gefandi. Þau leitast við að gefa sambúð sinni og lífi sams konar merkingu, þau byggja á kímni, tryggð og sameiginlegri ást á tónlist en það sem virkilega nýtist þeim best í lífinu og til að halda sambandinu gangandi er sú þögla umhyggja sem þau bera hvort fyrir öðru. Þau setjast einnig reglulega niður og kanna líðan hvors annars.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.