Fötin flottari í Downton Abbey myndinni en sjónvarpsþáttunum

Downton Abbey sjónvarpsþættirnir nutu gríðarlegra vinsælda, ekki síður hér á landi en annars staðar í heiminum en talið er að um 120 milljónir manna um allan heim hafi fylgst með þáttunum. Nú hefur Kvikmyndin Downton Abbey verið frumsýnd í Bandaríkjunum og einnig hér, en hún er sýnd í helstu kvikmyndahúsum landsins. Þetta er heilmikill viðburður fyrir aðdáendur þáttanna sem hættu í sjónvarpi árið 2015 og er örugglega sárt saknað af mörgum. Vefritið aarp.org í Bandaríkjunum segir frá nýju myndinni og við grípum aðeins niður í þá frásögn Tim Appelo og styttum umtalsvert. En þeirra umfjöllun er á þessa leið:

Kvikmyndin Downton Abbey. Er næst besti kosturinn. Sá besti væri að fá nýja seríu af þessum frábæru þáttum um stórfenglegt heimili bresku Crawley fjölskyldunnar, sem hefur með erfiðismunum sætt sig við þá staðreynd að árið 1927 er runnið upp og breytingar í þjóðfélaginu ógna því hefðbunda, heillandi lífi sem þau hafa lifað.

En í raun og veru breytist ekkert í Downton Abbey myndinni, enda myndu þá 120 milljónir aðdáenda þáttanna líklega telja sig illa svikna. Næstum allir upphaflegu leikararnir eru enn á sínum stað, auk nokkurra sem hafa bæst við. Systurnar Edith og Mary  eru enn svolítið uppá kant, en Mary getur samt ekki lengur litið niður á Edith, sem er orðin markgreifafrú og býr í húsi sem sem fær Downton Abbwey til að líta út eins og auglýsingu fyrir mynd Brad Pitts, Once Upon a Time…in Hollywood. Hún er sem sagt orðin hærra sett í samfélaginu en Mary.

Einn dáðasti karakterinnn í sjónvarpi síðari tíma,Violet Crawley ekkjufrúin í Downton Abbey leikin af Maggie Smith 84ra ára ber enn höfuðið hátt og skiptist á móðgunum við aðal keppinaut sinn Isobel. Ekkjufrúin býr yfir leyndarmáli sem aðdáendur hennar vilja örugglega komast að.  

Þetta fólk, eins og allir í  Downton Abbey, hvort sem þeir búa niðri í kjallara eða uppá hæðunum eru á tánum í myndinni, vegna þess að Konungurinn og drottning hans eru að koma í heimsókn.  En það sem verra er. Lady Bagshaw, aðstoðarkona drottningarinnar, leikin af Imeldu Staunton, reynist vera frænka Crawley fjölskyldunnar. Hún er samt sem áður með áform um að arfleiða annan mann að eignum sínum, en son ekkjufrúarinnar, hinn elskulega, örlítið ruglaða Robert Crawley eða Grantham lávarð, sem er alltaf að ræskja sig. Hvílík ósvífni. En ekkjan ætlar ekki að láta slíkt og þvílíkt yfir þau ganga og býr sig undir að koma í veg fyrir það með góðu eða illu. „Machiavelli er stórlega vanmetinn“, segir hún.“

Það gengur á ýmsu í heimsókn koningshjónanna, það verða árekstrar milli þjónustuliðsins í Downton Abbey og hinna sem fylgja konunginum og alls kyns hliðarsögur eiga sér stað. Gagnrýnandi AARP segir í lok greinarinnar að myndin sé ekki jafn góð og ný sería hefði verið, það gefist ekki tími til að gera öllum hliðarsögunum næg skil, þær hefðu mátt vera fleiri og það sé svolítið eins og menn séu að flýta sér í myndinni. En síðan segir hann orðrétt: „En fötin eru miklu flottari en þau svo í sjónvarpsþáttunum, aðdáendur munu fyrirgefa smávægilega galla og þeir sem ekki sáu þættina munu skilja þann ys og þys sem þættirnir ollu. Við höfum öll þörf fyrir það þessa dagana að sökkva okkur niður í elskulega draumaveröld, þar sem ekkert breytist.  Downton Abbey kvikmyndin er eins og þægilegt  freyðibað og bolli af fersku tei. Ekki pæla of mikið í henni, njótið bara lúxuslífsins“ eru lokaorð gagnrýnandans sem gefur myndinni þrátt fyrir allt fimm stjörnur.

 

Ritstjórn september 23, 2019 07:14