Uppgefnir makar verða að leita aðstoðar

Það fylgir því mikið álag að annast veikan maka, eða annan ástvin. Bandaríski sálfræðingurinn Barry J. Jacobs hefur gefið ráð til að sporna gegn einangrun og vanlíðan þeirra sem sjá um umönnunina. Ráðleggingarnar birtust á aarp.org, systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum og fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Ég var vanur að biðja systkini okkar og svokallaða vini um aðstoð, en á endanum hugsaði ég bara „Til hvers?“, segir Jim sem er búin að annast eiginkonu sína í 35 ár, en hún er með MS sjúkdóminn. „Það skilur enginn hvað við erum að ganga í gegnum og ég er ekki viss um að þeir hafi neinn áhuga á því heldur, þannig að núna einbeiti ég mér bara að henni og sjálfum mér“, segir hann.

Ákvað að stóla eingöngu á sjálfan sig

Á þessum fyrsta fundi okkar finnst mér freistandi að leggja að Jim að fá aðra til að hjálpa þeim hjónum, þannig að hann fái kraft og uppörvun á erfiðum tímum. En ég er hræddur um að hann muni horfa á mig eins og ég skilji bara ekkert, fremur en aðrir. Kannski geri ég það ekki heldur. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann upplifði mikla höfnun og skilningleysi  áður en hann ákvað að hætta að biðja aðra um hjálp. Það var ákveðin sjálfsvörn hjá honum að ákveða að stóla eingöngu á sjálfan sig.

Gott fyrir heilsuna að hafa samband við annað fólk 

Rannsóknir hafa lengi sýnt að það er gott fyrir heilsuna ef fólki finnst það hafa gott samband við aðra. Ein rannsóknin sýndi að það gat minnkað líkurnar á ótímabærum dauða um 50%. En í dag er litið á einangrun og einsemd sem vaxandi vandamál í Bandaríkjunum. Birmingham rannsóknin frá 2015 sýndi að það er jafn hættulegt að vera stöðugt einn og að reykja 15 sígarettur á dag. Það er hættulegra en offita. Þriðjungur fólks á aldrinum 50-80 ára sagðist í  nýrri könnun, vanta félagsskap.  Þessi könnun var gerð í samvinnu AARP og Michigan háskóla.

Einangrast meira og meira

Meðal þessa fólks eru þeir sem annast veika fjölskyldumeðlimi og Jim er einn þeirra. Hluti ástæðunnar fyrir einmanaleikanum er, að þeir eru stöðugt svo uppteknir við umönnunina að þeir láta það sitja á hakanum að leita sér félagslegs stuðnings. Margir upplifa einnig ákveðið afskiptleysi og telja ekki mögulegt að ná sambandi við það fólk, sem þó ætti að vera til staðar fyrir þá. Þeir eru bitrir og  finnst vinir og vandamenn hafa snúið við sér baki, uppteknir af eigin lífi.  Fólk sem sinnir umönnun ákveður því að snúa sér að eigin viðfangsefnum eingöngu, er mikið inná heimilinu og einangrast meira og meira frá umheiminum.

Hvernig er hægt að hjálpa þeim, sem hafa rekið sig á vegg og upplifað höfnun, að gefast ekki upp á að reyna að ná sambandi við aðra. Hér eru nokkrar hugmyndir.

Að reyna að endurnýja félagslega þáttöku sína

Sömu umönnunaraðilar og gera það fyrir sinn eða sína heittelskuðu að fara í flensusprautu og gera armbeygjur daglega til að halda líkamlegri heilsu, hirða ekki um að taka upp símann, fara á netið eða ganga í stuðningshóp til að halda andlegri heilsu. En félagsleg tengsl eru ákveðið haldreipi, sérstaklega þegar áhyggjurnar hvíla á þeim eins og mara og þeir eru langt niðri. Jafnvel mestu einfarar og fýlupokar ættu að gera sér grein fyrir að þeir eru hluti af stærra samfélagi, sem getur leiðbeint varðandi heilsufar allra sem þar búa.

Að ná sambandi við þá sem vilja aðstoða

Það tekur því ekki fyrir þá sem annast ásvtini sína að nauða í fjölskyldumeðlimum eða vinum sem vilja ekki aðstoða eða ekki er hægt að ná í. En það þýðir ekki að loka dyrunum á allt mannkynið. Ef fjölskyldan bregst er hæg að leita til nágranna eða annarra í samfélaginu. Það er hægt að leita aðstoðar til dæmis hjá Félagssþjónustu sveitarfélaganna, Rauðakrossinum, hjá trúfélögum og jafnvel víðar. Það er hægt að finna hópa á Facebook og stuðningshópa fólks sem glímir við svipaðar aðstæður og er tilbúið að miðla af reynslu sinni. Ef slíkur stuðningshópur er ekki fyrir hendi, er hægt að stofna einn slíkan. Þó fólk sé afar upptekið og útkeyrt við umönnun ástvinar, er engin ástæða til að einangra sig algerlega, nema þá að það sé harðákveðið í að vera aleitt með þau vandamál sem umönnuninni fylgja.

Að veita aðstoð til að fá aðstoð

Raunsætt mat staðfestir kannski þá skoðun að flestir séu svo uppteknir af sínu að þeir eigi erfitt með að finna til með öðrum. Hvað um það, geðlæknirinn Ivan Bozormenyi-Nagy trúði því að nær allir menn byggju yfir tilfinningu fyrir gagnkvæmni og sanngirni. Þannig að ef aðrir gefa okkur eitthvað, langi okkur að gefa eitthvað á móti. Það hljómar kannski þversagnakennt, en þeir sem annast ástvin heima, ættu að prófa að rétta öðrum hjálparhönd. Í stað þess að biðja um aðstoð, gætu þeir sagst tilbúnir að gera eitthvað fyrir aðra. Jim gæti hringt í systkini sín og athugað hvað þau væru að gera og spurt hvort þau hefðu þörf fyrir aðstoð. Þau gætu komið honum á óvart með því að bjóða honum það sama.

Ekki gefast upp við að leita aðstoðar og félagsskapar

En jafnvel þó aðrir bregðist ekki við á tilætlaðan hátt, þegar umönnunaraðili hefur boðið fram aðstoð sína, er það alveg tilgangslaust fyrir hann að verða bitur og hætta að hafa samband við fólk. Félgsleg tengsl eru svo mikilvægur hluti af vellíðan manna. Þeir sem annast ástvin, verða að halda áfram, sætta sig við að skilningur aðstandenda og vina sé kannski takmarkaður en alls ekki hætta að reyna. Fólki er ráðlagt að horfast í augu við staðreyndir og vera praktískt. „Takið vítamínið ykkar, njótið sólarinnar og finnið ykkur félagsskap“, segir sálfræðingurinn Barry J. Jacobs að lokum.

Barry J. Jacobs, er sálfræðingur, fjölskylduráðgjafi og heilsuráðgjafi. Hann er annar tveggja höfunda bókarinnar AARP Meditations for Caregivers (Da Capo, 2016).Hér er hægt að fylja honum á Twitter og Facebook.

Ritstjórn desember 5, 2019 08:11