Hvaða rétt átt þú ef makinn fellur frá?

Þegar fólk missir makann sinn, getur það átt rétt á makalífeyri frá lífeyrissjóðum eða dánarbótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Það eru samt eingöngu þeir sem eru yngri en 67 ára sem fá dánarbætur frá TR. Réttindin eru misjöfn eftir lífeyrissjóðum. Lifðu núna gluggaði í upplýsingar um makalífeyri hjá tveimur stórum lífeyrissjóðum, LSR Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði Verslunarmanna og dánarbætur hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Eiga rétt á makalífeyri í fimm mánuði og sumir ævilangt

Ef sjóðfélagi í A-deild LSR fellur frá, á eftirlifandi maki hans rétt á makalífeyri í 5 ár. Fullur makalífeyrir er greiddur í 36 mánuði og 50% makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar. Fullur makalífeyrir er helmingur af áunnum réttindum hins látna.

Ef hinn látni var félagi í B-deild LSR á maki hans hins vegar rétt á makalífeyri til æviloka, svo fremi hann gifti sig ekki aftur. Það gildir bæði um A og B deildina að réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.

Það skiptir einnig máli hvort sá látni og maki hans áttu börn saman. Ef þeir áttu það fellur makalífeyrir ekki niður fyrr en yngsta barnið nær 22ja ára aldri.

En hver er maki í þessu tilviki? Það er sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, segir á heimasíðu LSR. Með óvígðri sambúð er fyrst og fremst átt við að fólk sé í skráðri sambúð. En hafi fólk átt sameiginlegt lögheimili, verið samvistum, eða ef það á von á barni saman getur eftirlifandi maki sótt um makalífeyri. Einnig ef sambúð hefur varað í að minnsta kosti eitt ár samfleytt. Slík umsókn fer þá fyrir stjórn LSR og þarf samþykki hennar til að greiða umsækjanda makalífeyri.

Greiðir makalífeyri í að minnsta kosti þrjú ár

Lífeyrissjóður Verslunarmanna greiðir makalífeyri samkvæmt ákveðnum reglum og hann er aldrei greiddur skemur en í þrjú ár. Hann er greiddur þeim sem hinn látni var kvæntur eða giftur, eða ef hann var í staðfestri samvist með viðkomandi eða óvígðri sambúð. „enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans“ eins og segir í reglunum. Það er ekki ófrávíkjanleg regla að fólk þurfi að hafa verið í skráðri sambúð til að fá makalífeyri, það er nóg að hafa verið í sambúð sem hefur varað samfleytt í tvö ár fyrir andlátið, og geta sýnt fram á það.

Tryggingastofnun greiðir dánarbætur í sex mánuði

Tryggingastofnun ríkisins greiðir þeim dánarbætur sem missa maka sinn og eru ekki orðnir 67 ára. Það er skilyrði fyrir greiðslu bótanna að fólk hafi annað hvort verið í hjúskap eða í skráðri óvígðri sambúð í að minnsta kosti eitt ár við andlátið. Sækja þarf um dánarbætur til TR og eru þær almennt greiddar í 6 mánuði. Hægt er að sækja um að fá dánarbætur greiddar lengur ef fólk býr við erfiðar aðstæður eða er með börn á framfæri. Hægt er að fá dánarbætur greiddar í allt að 48 mánuði til viðbótar þeim sex sem almennt eru greiddir. Upphæð dánarbóta er tæpar 55.000 krónur miðað við sex mánuði. Þeir sem fá greiðslur lengur en það vegna sinna aðstæðna fá rúmlega 41.000 krónur á mánuði.

Þeir sem eru orðnir 67 ára eiga ekki rétt á dánarbótum frá TR. Sá sem missir maka sinn getur hins vegar átt rétt á heimilisuppbót frá stofnuninni ef hann býr einn. Hann þarf þá að skila inn nýrri tekjuáætlun og sækja um heimilisuppbótina sem er núna 67.000 krónur á mánuði til viðbótar ellilífeyrinum.

Réttur til sex mánaða dánarbóta fellur niður við flutning úr landi eða ef gengið er í hjúskap að nýju.

Bent er á það á heimasíðu TR að ekkill eða ekkjur geti til dæmis nýtt sér skattkort maka í 8 mánuði eftir lát hans og að fólk geti einnig átt rétt á fyrirgreiðslu hjá stéttarfélögum, stuðningi frá félagsþjónustu sveitarfélaga eða tryggingafélögum við andlát maka.

Ritstjórn júlí 7, 2021 08:31