Guðjón Friðriksson hefur skapað sérstaklega aðgengilegt, skemmtilegt og áhugavert verk um líf og leiki barna í Reykjavík frá því borg tók að myndast hér við Sundin. Hér er allt, bíóferðirnar, hasarblöðin, hópleikirnir, íþróttirnar, gæsluvellir, skólar og leikskólar. Börn í Reykjavík er það sem kallað er stórvirki í bókaheiminum og ómetanlegt að hafa á einum stað svo fjölbreyttar og vel ígrundaðar upplýsingar.
Guðjón er þekktur af vönduðum vinnubrögðum og þessi ber handbragði hans glöggt vitni. Ótal ljósmyndir prýða bókina og bara að finna þær og velja úr þeim söfnum ljósmynda sem hér er að finna er út af fyrir sig mikið þrekvirki. Texti hans er aðgengilegur og læsilegur svo allir geta notið þess að lesa þessa bók ekki bara fræðimenn. Það er einnig skemmtilegt að rýna í myndirnar og leita að kunnuglegum andlitum, stöðum og kennileitum. Margir munu sjá Reykjavík æsku sinnar birtast hér í máli og myndum.
Það er einnig merkilegt að lesa um og átta sig hvernig æskan varð verðmæti í sjálfu sér, hvernig börn fóru frá því að vera litlir fullorðnir yfir í að vera álitin sérstakur hópur með eigin þarfir og réttindi. Þetta er stórmerkileg bók, athyglisverð og skemmtileg sem eiginlega ætti að vera til á hverju heimili.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.