Var Karl Marx umhverfissóði?

Ég er einn þeirra, af minni kynslóð, sem heilluðust af kenningum Karls Marx á yngri árum. Kenninguna um að samþjöppun auðs á sífellt færri hendur myndi leiða til þess að kapítalisminn liði óhjákvæmilega undir lok, að alþýða manna sameinaðist og tæki völdin í sínar hendur. Að kapítalisminn myndi að lokum eyða sjálfum sér vegna spennu milli stétta. Hugmyndir Marx fjalla um stéttaskiptingu, firringu, ójöfnuð og áhrif peninga og efnishyggju á þróun þjóðfélagsins sem hafa að miklu leyti mótað stjórnmála- og hugmyndasögu síðustu tveggja alda. Þær eru ýmist upphafnar eða úthrópaðar, frekar en skoðaðar sem kenningar settar fram við þær aðstæður sem giltu við upphaf iðnbyltingar, einkum í Þýskalandi og Bretlandi.

Nú sé ég að menn deila um hvort Marx hafi verið umhverfissóði og ekki skeytt um þau áhrif sem jarðefnavinnsla og mengandi verksmiðjuframleiðsla hafi á loftslag og úthöf, eða hvort hann hafi einmitt varað við því að eigendur stórfyrirtækja skeyti ekki um neitt nema að hagnast sem mest á sem skemmstum tíma, – hver svo sem áhrifin verða. Allt bendir reyndar til að Karl Marx hafi, á miðri nítjándu öld, ekki haft neina vitneskju um áhrif koldíoxíðs á andrúmsloftið eða séð fyrir sér skaðsemi af jarðefnavinnslu og mengandi iðnaðarframleiðslu.

Japanski heimspekingurinn Kohei Saito er einn þeirra sem heldur því  fram í bók sinni Marx in the Anthropocene að Karl Marx hafi bent á mikilvægi verndunar vistkerfisins í skrifum sínum. Þessar kenningar Saito, og skoðanabræðra hans, hafa verið gagnrýndar af frjálslyndari fræðimönnum á borð við Matt Huber og Leigh Phillips, sem segja Marx hvergi hafa fjallað um verndun vistkerfa. Og halda því jafnvel fram að Marx sé að einhverju leyti ábyrgur fyrir því hvernig komið er í loftslagsmálum okkar í dag.

Þessar deilur finnst mér minna svolítið á deilur sem risu um tíma hér á landi um hvort sjálfstæðishetjan okkar, Jón Sigurðsson, myndi vilja að Ísland gerðist aðili að ESB í dag eða hvort hann væri andvígur aðild Íslands að bandalaginu, ef hann væri enn á lífi. Um slíka hluti geta menn skemmt sér við að rífast endalaust.

Það er varhugavert að líta á skrif fyrri tíma hugsuða eins og trúarbrögð um hvað sé rétt og satt eða rangt og ósatt í nútímanum. Marx sá til dæmis ekki fyrir að jafnaðarstefnan í Evrópu yrði jafn sterk og raun bar vitni. Ekki heldur sá hann fyrir að stjórnvöld í Sovétríkjunum og Kína myndu kenna einræðis- og klíkustjórnir sínar við kenningar hans. Ekki heldur sá hann fyrir uppgang þjóðernispopúliskra afla nútímans.

Vörumst söguskekkjur. Það er varhugavert að varpa innsýn okkar í nútímanum á fyrri tíma hugsuði.

Emil B. Karlsson skrifar.