Var Natan siðblindur?

Hvers vegna verða örlög sumra manneskja okkur minnistæðari en annarra? Auðvitað oftast vegna þess að þau eru stórbrotnari og flóknari en gengur og gerist en fleira kemur til. Enn í dag þekkir nánast hvert íslenskt mannsbarn nöfnin Agnes og Friðrik, vita að þau tvö voru leidd á höggstokkinn síðust manna hér á landi. Við vitum einnig að sök þeirra var morð. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um atburðina á Illugastöðum á Vatnsnesi og sitt sýnist hverjum höfundi um hvað rak þetta unga fólk til voðaverka. Nú hefur bæst í safnið ný bók, Öxin, Agnes og Friðrik eftir Magnús Ólafsson fyrrum bónda á Sveinsstöðum í Vatnsdal.

Fyrir þremur árum kom út bókin, Bærinn brennur: Síðasta aftakan á Íslandi eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur. Hún var að ljúka verki sem maður hennar, Eggert Þór Bernharðsson hafði hafið. Hann var kominn af Guðmundi Ketilssyni, bróður Natans, sem tók við búinu að Illugastöðum og var skikkaður í böðulshlutverkið af Birni Blöndal sýslumanni. Þórunn Jarla taldi ágirnd og févon fyrst og fremst liggja að baki morðunum á Illugastöðum og að Natan hafi verið miskilinn maður. Sveitaslúðrið og aldarfar nítjándu aldar ekki verið hagstætt manni sem hafði metnað og þráði að menntast. Hann hafi viljað upp um stétt og höfðingjarnir ekki átt gott með að þola slíkt.

Magnús er á allt annarri skoðun. Hann telur að ást og sárar tilfinningar fyrst og fremst ástæðu þess að þau, Agnes, Friðrik og Sigríður létu til skarar skríða þessa örlagaríku aðfararnótt, 14. mars árið 1828. Hann leiðir að því líkum að Natan hafi verið siðblindur og hafi misnotað stúlkurnar tvær á margvíslegan hátt. Agnesi hafi hann tælt, lofað öllu fögru og síðan niðurlægt á margvíslegan og andstyggilegan máta. Friðrik hafi verið rekinn áfram af ást sinni til Sigríðar og þeirri fullvissu að Natan væri réttdræpur fyrir þá glæpi sem hann hafði framið. Auðvitað verður aldrei fyllilega hægt að komast í botn í þessu nærri tveggja alda gamla morðmáli en rök Magnúsar eru vel ígrunduð og studd ýmsum gögnum. Þórunn Jarla byggir hins vegar mest á dómsskjölum og yfirheyrslum sýslumanns meðan Magnús skoðar einkabréf, sagnir sem varðveist hafa í sveitinni og varnarskjal forföður síns, Mála-Ólafs sem lagt var fram í réttinum en sýslumaður gerði lítið með.

Varnarlausar gegn ofbeldi

En bara við að taka saman þessa stuttu upprifjun erum við kominn með svarið við því hvers vegna þetta morð situr enn í Íslendingum og hefur áhrif langt út fyrir landsteinana eftir að bók Hönnuh Kent, Burial Rites, kom út. Allir geta skynja harminn, óttann og varnarleysið sem að baki liggur. Agnes flýr tvisvar frá Illugastöðum og leitar sér hjálpar en færi ekki, ekki frekar en aðrar konur sem beittar eru heimilisofbeldi þá og iðulega enn í dag. Sigríður er barn að aldri, óþroskuð og jafn föst í viðjum vistarbands og fátæktar og Agnes. Friðrik er líka unglingur, hvatvís og skapbráður. Hann hefur hvorki þroska né forsendur til að takast á við þær aðstæður sem hann er kominn í. Það eina sem hann veit er að tvær konur eru í nauð og hann er ástfanginn af annarri þeirra. Honum finnst hann verða að reyna að gera eitthvað þeim til bjargar.

Morðið sjálft er hræðilegt, hrottaleg aðför að tveimur mönnum, Fjárdráps-Pétur er staddur þarna fyrir tilviljun og tilraunin til að hylja verksummerkin er máttlaus og dugir lítt. Dómarnir yfir fólkinu eru miskunnarlausir og harðir en því var haldið fram að Björn Blöndal hafi valið þessa leið til að slá á óöld í héraði sínu, að sýna fólkinu hvað biði ef það bryti af sér. Það er hugsanlegt en réttarkerfi þessa tíma var ómanneskjulegt og harkan mikil, enda var því trúað að harðar refsingar hefðu fælingarmátt. Allt þetta gerir þetta mál svo einstakt og áhugavert að menn dragast aftur og aftur inn í það, vilja vita. meira, hlusta á eitthvað nýtt og skoða það frá nýju sjónarhorni.

Magnús er lipur og góður penni og hann segir einstaklega vel frá. Í hans meðförum verður umhverfið allt lifandi og afstaðan milli bæja og hvaða hlutverk náttúran lék í þróun mála þessa örlagaríku daga fyrir og eftir morðin. Hann skrifar af miklu innsæi og góðri tilfinningu fyrir þeim ástríðum sem reka menn áfram. Það er ekki að undra að alltaf sé fullbókað í ferðir um slóðir þessara atburða í leiðsögn Magnúsar. Öxin, Agnes og Friðrik er spennandi bók, umhugsunarverð og kemur við lesandann.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 26, 2024 07:00