Allt frá því ég heyrði fyrst sagt frá Þuríði Einarsdóttur formanni var ég heilluð af persónu hennar. Þessi ótrúlega kona reri frá Stokkseyri og Eyrarbakka og var formaður á opnum báti í tuttugu sex ár. Ekki dregur úr afrekum hennar að þá var nær eingöngu róið á veturna og allra veðra von. Engu að síður var Þuríður farsæll formaður og aldrei fórst neinn úr hennar áhöfn. Nú hefur Auður Styrkársdóttir skrifaði heillandi og einstaklega vel unna skáldsögu byggða á lífi Þuríðar, Kona á buxum.
Það er augljóst að höfundur hefur yfirgripsmikla þekkingu á lífsháttum fólks og aðstæðum á seinni hluta átjándu aldar og fram yfir miðja nítjándu öld en Þuríður fæddist árið 1777 og lést 1863. Fyrir liggur reyndar ævisaga Þuríðar sem Brynjólfur frá Minna Núpi skrifaði eftir frásögn Þuríðar en hún var óskrifandi og svo er í málskjölum að finna vitnisburð hennar í Kambsráninu. Af honum má ráða að Þuríður var heiðarleg og nægilega hugrökk til að bera vitni gegn glæpamönnum sem flestir óttuðust á þessum tíma. Í sögunni er reyndar gefið í skyn að Þuríði hafi verið nauðugt að vitna gegn ránsmönnunum enda aldrei neinum auðvelt að snúast gegn nágranna og jafnvel vini. Sú örbirgð er ríkti á Íslandi á þessum árum gerði einnig að verkum að konum og börnum voru flestar bjargir bannaðar þegar karlmannanna naut ekki lengur við. Allt þetta hefur Þuríður vitað en henni var líka lýst þannig að hún væri stórhuga, fljóthuga og stjórnsöm en brjóstgóð við bágstadda.
Auður Styrkársdóttir var áður forstöðukona Kvennasögusafns Íslands og hefur því örugglega kynnst bæði sögu Þuríðar og lífsaðstæðum kvenna á þessum tíma gegnum starf sitt. Það er bókstaflega heillandi hversu vel hún hefur sett sig inn í allt og hvernig hún leggur sig eftir að draga fram málfar og viðhorf þessa tíma. Henni tekst einnig að skapa einstaklega lifandi og litríkar persónur og þessi bók er gullmoli eins og stundum er sagt. Þuríður er svo heillandi og skemmtileg og þegar æsku hennar og uppvexti er lýst langar mann helst að umfaðma þessa litlu stelpu sem finnur upp á því að láta sauma handa sér stuttbrók til að vera í undir pilsinu. Svo fiskar hún betur en nokkur annar, er kappsöm og góð.
Þetta voru erfiðir tímar. Móðuharðindin nýlega um garð gengin og bústofn landsmanna hruninn. Tveir stórir jarðskjálftar ríða yfir og æskuheimili Þuríðar hrynur en fólkið allt sleppur fyrir kraftaverk. Það er einnig óskaplega áhugavert að lesa um ýmsar merkispersónur Íslandssögunnar sem Auður lætur koma við sögu en það fær mismunandi dóma og nýtur mismikillar aðdáunar alþýðunnar. Já, þetta er mikil merkisbók og frábær skáldsaga.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.