Varasamt að láta ótta við lyf stýra sér

Algengt er að fólk sé komið á eitt eða fleiri lyf eftir fimmtugt, – jafnvel fólk sem er almennt í góðu líkamsástandi. Þeir sem eru með arfgengan háþrýsting eru þá til dæmis gjarnan komnir á háþrýstilyf. Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir segir mikilvægt að stunda heilbrigðan lífsstíl, hreyfa sig og borða rétt þó að það dugi svo ekki alltaf. Fólk sem er í ágætisformi og kjörþyngd getur samt verið með háþrýsting og þá segir hann betra að taka lyfið til að ná þrýstingnum í eðlilegt horf.

„Varasamt er að láta ótta við lyf stýra sér. Rannsóknir sýna að það fer illa með æðakerfið að vera lengi með háan blóðþrýsting. Líkami okkar á það til að klikka því náttúran er ekki fullkomin og stundum höfum við ráð gegn því. Ekki er gott að vera almennt á móti lyfjum. Stundum er það besta sem maður getur gert fyrir sjálfan sig að taka lyf við háþrýstingi eða ættgengu háu kólesteróli. Því fyrr sem maður tekur á þeim vanda þeim mun betra,“ segir hann.

Of seint í rassinn gripið

Ef gengið er með of háan blóðþrýsting í 15-20 ár án þess að lyf séu tekin þá er skaðinn skeður, skemmdirnar hafa átt sér stað og of seint er í rassinn gripið. Stundum er umræðan um lyf mjög neikvæð, talað er um „lyfjasúpur“ og að alltof mikið sé tekið inn af lyfjum. Sú gagnrýni segir Svanur að geti verið réttmæt en hann bendir líka á að vannotkun á lyfjum geti verið til baga þannig að fólk nýti sér ekki það sem lyfin geta gert þegar heilsufarið klikkar.

„Þetta fólk missir af þeim möguleika að fara betur með líkamann og varðveita heilsu sína. Við læknar verðum oft varir við að fólk sem er komið með lyfjafælni og hefur þá almennu afstöðu að vilja ekki lyf forðast að fara á lyf. Það er vel skiljanlegt í ljósi þess að leggja almennt áherslu á heilbrigðan lífsstíl sem bestu forvörnina en þetta fólk þarf að vita af hinni hliðinni líka, að lyfin geti verið nauðsyn í stöðunni,“ segir Svanur.

Vannotkun líka dýr

Bandaríkjamenn hafa reiknað út að vannotkun lyfja kostar heilbrigðiskerfið milljarða dollara. Allar áætlanir sýna að það kostar heilbrigðiskerfið gríðarlegt fjármagn að þjálfa upp, gefa stoð og setja fólk á örorku frá til dæmis 55 ára aldri hafi það fengið alvarlegt áfall eins og heilablóðfall fyrir nú utan lífsgæðin sem tapast.

Ritstjórn ágúst 6, 2014 13:52