Vegurinn heim lengist með hverjum morgni

Bókin Vegurinn heim lengist með hverjum morgni er ein áhrifamesta bók sem komið hefur út nýlega. Hún er eftir Fredrik Backman, höfund bókarinnar Maður sem heitir Ove. Þessi bók fjallar um Nóa og afa hans sem orðinn er fullorðinn. Þeir tala mikið saman og sá eldri fræðir þann yngri sem hefur óendanlega gaman af því að komast að alls konar leyndarmálum og fróðleik í gegnum afa sinn. Smám saman gerir Nói sér gein fyrir því að afi hans er að hverfa frá honum og fær því tóm til að venjast tilhugsuninni um að missa hann, en hún er sár. Á milli þeirra er faðir Nóa, sonur afans sem gerir sér ljósa grein fyrir því hvers sonur hans fór á mis í uppeldinu þar sem hann var ekki alltaf til staðar og gerði óraunhæfar kröfur til sonarins. Amma Nóa er dáin en minningin um hana er sterk.  Ilmurinn af hýasintum kallar hana fram af því það voru uppáhaldsblómin hennar. Amman er líka ljóslifandi fyrir afanum þótt hún sé dáin. Hann á samræður við hana í huganum og gullkornin sem fara á milli þeirra eru geysilega sterk og merkingarþrungin. Hér á eftir fer örstuttur kafli úr bókinni:

Segðu mér frá skólanum, Nóinói, biður gamli maðurinn.

Hann vill alltaf fá að vita allt um skólann, en samt á annan hátt en aðrir fullorðnir, sem alltaf vilja vita hvernig Nói standi sig. Afi vill vita hvernig skólinn stendur sig. Og skólinn stendur sig yfirleitt illa.

-Kennarinn píndi okkur til að skrifa ritgerð um hvað við ætlum að verða þegar við verðum stór, segir Nói.

-Hvað skrifaðir þú?

-Ég sagðist fyrst ætla að einbeita mér að því að vera lítill.

-Vel svarað.

-Já, er það ekki? Ég vil frekar verða gamall en fullorðinn. Fullorðið fólk er alltaf reitt. Það eru bara börn og gamalmenni sem hlæja.

-Skrifaðir þú það?

-Já.

-Og hvað sagði kennarinn?

-Að ég hefði ekki skilið spurninguna.

-Og hvað sagðir þú?

-Að hún hefði ekki skilið svarið.

-Ofboðslega þykir mér vænt um þig, segir afinn og klemmir augun fast aftur.

 

Fredrik Backman er einn fremsti rithöfundur Norðurlanda. Hér kemur höfundurinn að lesandanum úr óvæntri átt í lítilli en áhrifamikilli bók.

 

 

 

Ritstjórn október 9, 2018 13:07