Eyddu brúðkaupsnóttinni í gömlu flugstöðinni í Keflavík

Brúðkaup fyrir rúmlega hálfri öld voru mjög frábrugðin því sem gerist í dag. Ragna Kristín Jónsdóttir skrifaði á blogginu sínu um sitt brúðkaup  24.júní árið 1964, en það var afar óvenjulegt. Aðdragandinn var sá að vinnuveitandi hennar bauð henni og kærastanum Oddi Vilberg Péturssyni  að fara í mjög ódýra ferð til Kaupmannahafnar og þá fór skemmtileg atburðarás af stað sem verður ekki rakin hér að fullu, en við grípum niður í frásögn Rögnu.

„Eigum við ekki bara að nota tækifærið og gifta okkur og nota ferðina sem brúðkaupsferð?” sagði Oddur.  Jú það fannst mér mjög góð hugmynd og þar með var það ákveðið. Við höfðum jú nokkra daga til stefnu svo það ætti alveg að ganga.

Mæting í ferðina átti ekki að vera  fyrr en klukkan hálf þrjú eftir hádegi, svo við hefðum alveg tíma til þess að gifta okkur um morguninn og fara síðan beint í ferðina. Við ákváðum að hafa enga veislu og hafa bara foreldrana viðstadda.  Við áttum hvorugt efnaða foreldra og vildum ekki fara að setja foreldrana í skuldir til þess að halda okkur veislu, en á þessum tíma tíðkaðist það almennt ekki að brúðhjón greiddu sjálf fyrir slíkar veislur. Okkur langaði til þess að gifta okkur af því að við vildum eiga lífið saman, en ekki til þess að halda stóra veislu og fá brúðargjafir. Við höfðum löngu ákveðið það, hvenær svo sem giftingin yrði.

Foreldrar ungu brúðhjónanna voru ekkert yfir sig hrifin af  hugmyndinni um brúðkaup með nokkurra daga fyrirvara, en unga kærustuparinu varð ekki þokað, þeim fannst þetta alger snilld. Þau voru 18 og 19 ára og Oddur þurfti leyfi yfirvalda til að  kvænast. Séra Árelíus gaf þó brúðhjónin saman daginn sem brúðkaupsferðin átti að hefjast. Foreldrar brúðarinnar buðu í mat á Grillinu á Hótel Sögu eftir athöfnina og hér gefum við Rögnu Kristínu orðið:

Eftir máltíðina í Grillinu ók pabbi okkur niður í Tjarnargötu til þess að taka rútuna suður á Keflavíkurflugvöll með ferðafélögunum, sem við vissum reyndar ekkert hverjir væru, en reyndust vera Framsóknarfélagið í Reykjavík, en það er önnur saga.

Þegar á Keflavíkurflugvöll var komið og búið að fara í gegnum hermannahliðið, voru allir bókaðir inn, farangurinn tekinn og eftir það mátti enginn fara út fyrir dyr. Mikið vorum við spennt að vera að fara í fyrstu flugferðina okkar, fyrstu utanlandsferðina og í brúðkaupsferð.  Eftir nokkra bið fengum við tilkynningu fararstjóranna um það,  að það yrði líklega nokkuð mikil seinkun því vélin væri enn í Gautaborg – biluð. Viðgerð færi fram á vélinni og síðan myndi hún fljúga til Oslóar  og taka farþega þar, en síðan kæmi hún til Íslands. Það mætti enginn fara út af vellinum af því það væri búið að fara í gegnum hliðið inn á hersvæðið og búið að bóka hópinn inn.

Flugstöðin var ekkert nálægt því að vera eins og við þekkjum flugstöðvar í dag, meira að segja innanlandsflugið hjá okkur er betur búið en þessi flugstöð var.  Það voru bara sæti fyrir brot af hópnum, svo það þurfti að skiptast á að fá að setjast aðeins niður og hvíla sig. Margir settust strax að sumbli á bar sem þarna var, því mjög ódýrt var að drekka þarna  og margir af karlmönnunum kunnu að meta það. Svo upphófst LÖNG bið.
Við kynntumst vel tvennum hjónum þarna sem við höfðum síðan mikil samskipti við í mörg ár. Um kvöldið á meðan biðin stóð yfir var farið með hópinn í kvikmyndahús þarna uppi á velli og það var eins og verið væri að fara með fanga á milli svo vel var passað upp á hópinn.

Um klukkan sex um morguninn lauk loks biðinni og Sterlingvélin var komin, ef vél skyldi kalla því hún var hvílíkt skrapatól að hún hékk varla saman. Við höfðum nú ekki mikið vit á hvernig þetta ætti að líta út, en þeir sem voru vanir að ferðast voru mikið að hugsa um að verða eftir heima, en létu sig þó hafa það að fara með. Það kom hinsvegar til álita hvort hægt væri eða forsvaranlegt að taka þá með, sem höfðu setið á barnum allan tímann og voru varla með meðvitund þegar átti að drösla þeim út í vél þarna í morgunsárið, en það var gert.  Sem betur fer átti ég ekki minn mann í þeim hópi. –
Á endanum voru allir komnir út í vélina og hún tilbúin að taka á loft til Kaupmannahafnar á vit ævinmtýranna og í langþráða brúðkaupsferð.

Brúðkaupsnóttinni eyddum við sem sagt í gömlu litlu flugstöðinni í Keflavík, þar sem skiptast varð á að setjast niður öðru hvoru til þess að hvíla sig. – Ekki mikil rómantík í því.

Myndina af okkur  sofandi í flugvélinni tók einhver ferðafélagi
og við fengum hana senda í nafnlausum pósti einhverjum vikum eftir heimkomu .
Það eiga sko ekki allir mynd af sér sofandi á brúðkaupsnóttina.

Kaupmannahafnarferðin varð síðan mjög skemmtileg og hvílíkt ævintýri fyrir okkur að fara í Tívolí, Dýragarðinn, á Lorrý og fleiri staði og meira að segja með ferju yfir til Málmeyjar,  fyrir utan skoðunarferðirnar í allar fallegu hallirnar. Já þessi fyrsta utanlandsferð okkar var sannkallað ævintýri.

Heim komumst við svo heil á húfi, en flugvélar þessa Sterlingflugfélags fréttum við síðar, að hefðu verið kyrrsettar einhvers staðar fljótlega eftir þetta, því þær töldust ekki í flughæfu ástandi og stórhættulegar . Síðan fór flugfélagið á hausinn. Þegar við heyrðum þetta þá þökkuðum við fyrir að hafa sloppið lifandi.

Ragna Kristín og Oddur sem lést 1995. Myndin er tekin 14 eða 15 árum eftir brúðkaupið

Ritstjórn maí 2, 2022 07:30