Veljum íslenskt og gætum jarðarinnar

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þóunn Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður Landssambands eldri borgara skrifar

Átakið,  „Íslenskt, ­ já takk,“ hófst sem tímabundin aðgerð á tímum kreppu og atvinnuleysis á síðari hluta síðustu aldar en þá í allt annarri stöðu en við erum í dag. Það var atvinnuleysi og erfið staða.

Viðskiptahalli við útlönd var afar mikill svipað og nú og mikið var hugsað og reynt að finna lausnir. Stór samtök á vinnumarkaði og ýmsum greinum svo sem ASÍ, Bændasamtökin og Samtök iðnaðarins tóku sig saman um að fara í herferð fyrir því að fólk veldi íslenskt. Auglýsingum var dreift og opnun á viku átaki fór fram með aðstoð Vigdísar Finnbogadóttur forseta sem var boðin á nokkra staði til að fræðast um framleiðslu á til dæmis mjólkurafurðum og ostum. Mikil blaðaskrif og mörg viðtöl tekin um gæði íslenskrar framleiðslu og einnig um hversu mikil áhrifin af því að velja íslenskt geta verið á viðskipahallann. Rannsóknir sem gerðar voru sýndu svart á hvítu að þetta bar árangur. Hér eru niðurstöður frá þeim tíma:

„Niðurstöður könnunar á áhrifum átaksins á viðhorf og innkaup almennings leiddu í ljós að rúmlega 72% landsmanna telja að átakið hafi haft þau áhrif að þeir velji frekar íslenskar vörur nú en áður. Markmiðið er enn sem fyrr að hvetja landsmenn, almenning sem og stjórnvöld, til að velja íslenskt og vekja um leið athygli á þeirri verðmætasköpun sem innlend atvinnustarfsemi felur í sér.“

Nú erum við aftur stödd í svipaðri stöðu, þó ekki lamandi atvinnuleysi en miklum viðskiptahalla. Það að bregðast við með ákalli til þjóðarinnar um að setja íslenskar vörur í 1. sæti, gæti aftur lyft Grettistaki.  Grettir Ásmundarson var jú sterkur. Gengdarlaus innflutningur á ýmsu sem telst ekki nauðsynjavara flæðir yfir okkur. Mögnuð innkaup á netinu eru líka að hafa mikil áhrif á varasjóði landsins og kolefnisspor vörunnar.

Það á að teljast samkeppni að flytja inn sykraða drykki í hillupláss sem þekur heilu veggina og margur undrast það. Óholl innflutt brauð úr hvítu hveiti eru mjög vel varðveitt leyndarmál. Víða eru mjög ódýr hveitisúpurúnnstykki á veitingastöðum. Því miður er metnaður í þessum geira víða ekki meiri. Bragðlaust með öllu og næringarsnautt. Íslenskir bakarar eru með þeim bestu í heiminum og baka einstök brauð og hefur hollusta í brauðgerð vaxið og vaxið á liðnum árum. Af nógu er að taka þegar kemur að innflutningnum. Ostar sem eru ekkert betri en okkar ostar og svo nú síðast kjúklingar frá Úkraínu. Ísland er með hvað minnsta lyfjanotkun í framleiðslu matar í heild sinni. Það ber að þakka. Með því að velja íslenskar matvörur og aðrar íslenskar vörur, standa Íslendingar saman um íslenskt atvinnulíf. Áður hefur svipaður pistill komið hér á netið en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Við þurfum líka að endurmeta svo margt fleira því neyslan í  heiminum er svo mikil og ótrúlega mikið keypt sem aldrei er notað. Nýjar rannsóknir frá Háskólanum í Kaupmannahöfn meðal annars eftir Jens Hesselbjerg prófessor í umhverfisfræðum eru sláandi. Hesselbjerg birti grein um ofneysludaga á jörðinni. Þá er átt við hvenær þjóðir hafa farið yfir þau mörk sem þær geta hlutfallslega talist eiga í gnægðum jarðar. Árið 1972 var Danmörk ekki búin að nota sinn skammt fyrr en í desember en í dag er landið búið með rétt sinn 28. mars og Svíar 3. apríl.  Ef  innkaup til dæmis á fatnaði og fleiru halda áfram í sama mæli þarf Danmörk  því 4 jarðir ef landið ætlar að halda áfram á sömu braut í auðlindanýtingu jarðarinnar.

Endurvinnsla hugans er því hluti af nýju átaki til að velja íslenskt. Þá er um leið gott að kanna í huganum; vantar mig þetta?  Eða gæti ég farið í fataskápinn og leitað að sumarbuxunum og bolnum frá í fyrra?  Þannig drögum við úr viðskiptahalla og hugsum betur um jörðina okkar. Endurnýting er líka góð en oft er hægt að fara betur yfir sínar eigin þarfir. Jörðin okkar á það skilið og börnin okkar sem erfa hana.

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir maí 1, 2023 07:00