Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB skrifar
Um þessar mundir er mikið rætt um einmanaleika eldra fólks og þörf á úrbótum bæði félagslega og með öllum tiltækum ráðum. Víða erlendis er fólk komið mun lengra en hér á Íslandi í hugleiðingum um hvað geti hjálpað. Ráðherra einmanaleika í Bretlandi ýtti undir margs konar hugmyndir til að draga úr vandanum. Gerðar voru alls kyns kannanir sem leiddu fólk áfram. Þannig birtist stutt myndband þar sem sagt var frá tveimur eldri mönnum sem höfðu leitað sér aðstoðar, og hvað svo? Þeir bjuggu báðir einir. Höfðu smá garð fyrir utan húsið sem þeir bjuggu í. Þeir fengu hænur til að annast og úr varð dásamleg nálgun. Í myndbandinu féllu þeir fyrir þessu fallega fiðurfé og sást annar þeirra með hænu í fanginu þar sem hann strauk henni og þakkaði fyrir að hafa fengið það verkefni að hitta hana daglega.
Hvar erum við stödd í þessari nálgun hér á landi, að skoða þörf fyrir kærleika milli manns og gæludýrs? Við lokum á flestum stöðum á að fólk megi á efri árum hafa sinn besta vin með í flutningum t.d. í nýtt húsnæði. Eru þetta stór mistök?
Já, það er mitt mat eftir að hafa skoðað þetta rækilega. Vinir mannsins eru alls konar. Ég á vin í Missisippi sem á stókostlegan páfagauk sem er kallaður KK. Eins og allir vita verða þeir mjög gamlir en það sem er svo gaman, er að hægt er að kenna þeim að herma eftir. KK býður góðan daginn. Good morning darling. Hann kann ýmis fleiri orð sem ekki verða tiltekin hér.
Hvað er betra en að hafa vin og félaga? Það þarf að hugsa þetta upp á nýtt allt saman. Fyrir mörgum árum skoðaði ég ödrunarheimili í Danmörku. Það voru einhver dýr á öllum hæðum og hafði það mjög góð áhrif á íbúana. Heimsóknar- hundar Rauða Krossins hér á landi eru að vinna kraftverk.
Ég tel að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að við, eldri borgarar, getum fengið að hafa okkar bestu vini með okkur alla leið í lífinu.