Efri árin kalla á meiri hreyfingu og að við skerpum hugann

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir,fyrrum formaður FEB í Reykjavík og LEB, skrifar

Hvernig gengur fólki eftir að mestu áhrif Covid-19 eru komin fram? Nú er stórt spurt en spurningin er mikilvæg. Ýmsar vísbendingar eru um að fólk í eldri kantinum hafi dregið sig of mikið í hlé og sitji nú uppi með þrekleysi, fleiri kíló og sé jafnvel meira einmana en áður. Einnig hefur heyrst að margir sem fengu Covid eftir síðustu áramót hafi fengið aukaverkanir s.s. verki og ónot víða um líkamann. Heyrst hefur að karlmenn kvarti yfir auknum eymslum/pirringi í fótum og  jafnvel jafnvægiskerðingu.

Hvað er til ráða.? Eitthvað af þessu má laga með aukinni hreyfingu og þátttöku í daglegu lífi. Hreyfingin er eitt það mikilvægasta sem fólk getur gert til að efla að nýju laskaðan vöðvamassa. Þetta er átak og nú má sjá í auknum mæli auglýsta hreyfingu fyrir eldra fólk sem er gott. Gönguhópar og hreyfing í íþróttasölum hefur aukist. Æ, fleiri mennta sig til að þjálfa fólk til betra lífs. Það er ekki síður mikilvægt að huga að andlegri líðan og hvað hægt er að gera til að  efla betri líðan. Mér var tjáð nýlega að eitt gott ráð væri að horfa ekki á fréttir í sjónvarpi.  Þær væru allt of niðurdrepandi fyrir marga. „Það er svo vont að reyna að sofna og sjá og heyra í huganum fréttir kvöldsins um ofbeldi og miskunnarleysi.“

Sömu sögu er að  segja erlendis frá. Víða leitar fólk inn í heim tónlistar og gamanleikja sem eru gleðigjafar fyrir sál og líkama. Margt fleira  gleður hugann s.s. lestur góðra bóka eða að hlusta á góða bók. Krossgátur, sudoku, púsl og skrafl auk margra fleiri spila gefur góða afþreyingu. Útivistin er þó allra besta meðalið og um þessar mundir er áskorun til okkar að safna birkifræjum sem er sáraeinfalt verkefni. Muna bara að velja réttu trén. Þau háu og beinvöxnu. Gamli kjarrskógurinn er ekki með í þessu. Margir skiluðu inn nokkrum pökkum af fræi í fyrra og nú gerum við enn betur. Einn pakki fullur getur gert mikið til að klæða landið okkar og auka kolefnisjöfnun. Þátttaka í að prjóna ullarsokka og senda til Úkraníu hefur verið afar góð hjá eldra fólki og sýnir hvað hægt er að gera með eflingu á samskiptum. Samskipti fólks eftir Covid hafa ekki komist í sama horf og var og heimsóknir milli fólks minnkað sem leiðir m.a. af sér aukinn einmanaleika. Félagsmiðstöðvar eru víðast að reyna að ná til fólks með góðum nýjum samverustundum s.s. dansi sem er einhver besta hreyfing sem völ er á. Gott er að dansa heima líka eftir sínum uppáhaldslögum. Leikfimi í útvarpi og sjónvarpi getur hjálpað þeim sem eiga erfitt með að komast í útiveru eða annað. Mikilvægt er einnig að halda áfram þeirri þjálfun sem fólk fær leiðbeiningar um eftir aðgerðir. Og ekki þýðir að vera hikandi við að nota hjálpartæki s.s. göngugrind sem opnar oft á að fólk komist ferða sinna eða í stuttar gönguferðir. Jafnvel ferðalög.

Læknar eiga engin svör við eftirköstum Covid – 19, sem eru í vægari kantinum, nema hvetja fólk að gefast ekki upp.  Þá segjum við eins og Hollendingar „USE IT OR LOOSE IT“ þetta er svo ótrúleg mantra sem við verðum að tileinka okkur einmitt nú um stundir svo þrekið haldist og við séum ekki að missa það niður.

Sem betur fer er töluvert stór hópur sem er í góðum málum. Fólk sem er heppnara í happdrættinu um heilsuna og fólk sem hefur breytt sínum lífsstíl með því að fara í endurhæfingu t.d. með þátttöku í Heilsueflingu Janusar sem er hugsuð og hönnuð til að seinka áhrifum öldrunar á heilsu fólks. Þetta verkefni hefur hlotið einróma lof OECD sem æskileg forvörn fyrir lönd til að innleiða svo lengri lífaldur verði fólki léttari og seinki þungri umönnun í lokaferlinu á okkar æviskeiði.

Það er til mikils að vinna.

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir nóvember 21, 2022 07:00