Vertu á verði gagnvart svikum

Margvísleg svikastarfsemi á netinu færist sífellt í vöxt og svindlararnir verða jafnframt snjallari og snjallari í sínu. Það er því nauðsynlegt að vera vel á verði og gæta þess ávallt að smella ekki á neina tengla, svara engum póstum og kanna allar lögmæti allra síðna áður en nokkuð er gert.

Auk þess að senda ótal pósta með ýmist gylliboðum eða hótunum um yfirvofandi missi eða sektir ef ekki verði brugðist við setja svindlarar sig gjarnan í samband við fólk gegnum messenger á facebook. Oft eru nöfnin og prófílarnir mjög trúverðugir og því ekki auðvelt að átta sig á strax að um svikara sé að ræða. Þýðingarforrit verða einnig sífellt fullkomnari og íslenska svindlarana þess vegna betri og betri. Einnig eru til dæmi um netverslanir er auglýsa fallegar vörur á facebook, heimasíðan lítur mjög vel út og allt virðist í lagi þar til að fólk pantar. Það fær kvittun og staðfestingu á að pöntun hafi borist en síðan gerist ekkert. Ef reynt er að rekja pöntunina gerist ekkert og enginn pakki kemur, engin svör fást við fyrirspurnum til fyrirtækisins og svo virðist að þessir peningar séu glataðir.

Til allrar lukku er það ekki svo. Ef fólk greiðir með kreditkorti eða í gegnum Paypal er hægt að kæra færsluna og fá hana endurgreidda. Viðkomandi þarf bara að sýna fram á að hann hafi reynt að hafa samband við fyrirtækið án árangurs. En til að forðast þá fyrirhöfn er gott að kanna alltaf lögmæti vefverslana áður en pantað er. Nokkrar síður á netinu sjá um að greina fyrir neytendur hversu traustar síðurnar eru, þar á meða: https://www.urlvoid.com/, https://www.getsafeonline.org/checkawebsite/ og https://www.scamadviser.com/. Eina sem neytandinn þarf að gera er að kópera slóðina og setja hana inn í þar til gert hólf á öruggisleitarsíðunni og hann fær upp greiningu á trúverðugleika, m.a. útliti, hversu örugg greiðsluleiðin er og hvort síðan hafi fengið umsagnir annarra neytenda. Upp koma einnig rauðu flöggin, til dæmis ef þetta er alveg ný síða og engin reynsla komin á viðskipti við hana og fleira. Að kanna öryggi síðna á netinu tekur aðeins örfáar mínútur og getur sparað fólki mikla fyrirhöfn síðar.

En fleira ber að varast. Dularfull símtöl að utan, símtöl þar óíslenskumælandi manneskja vill fá þig til að gefa upp númer eða aðgangsorð eða gefa eitthvað til góðgerðarmála. Beiðnir frá ættingjum um neyðaraðstoð í skrýtnu símatali. Margar fjölskyldur hafa komið sér upp öryggisorði í slíkum tilfellum og bregðast ekki við nema fjölskyldumeðlimur gefi það upp þegar beiðnin berst.

Tölvupóstar sem virðast frá opinberum aðilum eru það ekki alltaf svo það borgar sig að kanna þá ævinlega vel. Sömuleiðis tölvupósta með margvíslegum gylliboðum. Hér gildir hið gamalkunna að ef eitthvað virðist of gott til að vera satt er það oftast of gott til að vera satt. Takið ykkur því ávallt tíma til að kanna hlutina áður en brugðist er við. Það liggur aldrei lífið á.

Þegar slysin gerast:

En þrátt fyrir ítrustu varkárni gerast slys. Í þeim tilfellum er best að:

Láta strax loka kreditkortinu ef þú hefur gefið upp númerið þitt til einhvers eða á síðu sem þú telur verið svindl.

Ef þú hefur gefið einhverjum sem þú telur svindlara peninga eða einhverjar upplýsingar um þig hafðu samband við lögreglu.

Ef þú færð póst í nafni opinberra aðila eða fyrirtækja sem þú uppgötvar að er svindl hafðu samband við fyrirtækið eða stofnunina og láttu þá vita að slíkt sé í gangi til að forða öðrum frá að lenda í því sama.

Hafi svindlið komið illa við þig og valdið þér tjóni leitaðu þér hjálpar hjá heilbrigðisstarfsmanni eða fjölskyldu. Að lenda í svikum af þessu tagi getur haft djúp áhrif á fólk jafnvel þótt fjárhagslegt tap sé ekki mikið. Skömmin er stundum djúpstæð og sár. Þá er gott að fá aðstoð.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.