Að ferðast einn um heiminn

Mörgum óar við því að fara einir í utanlandsferðir. Það ættu þó allir að gera þó ekki væri nema einu sinni á ævinni. Kostirnir við að vera einn á ferð eru nefnilega þó nokkrir. Maður þarf ekki að taka tillit til ferðafélaga og getur gert nákvæmlega það sem manni sýnist. Þegar að vel gengur eykur það líka sjálfstraust flestra að vera einir á ferð. Auðvitað eru ókostir líka. Svo sem að maður verði einmana, hafi áhyggjur af persónulegu öryggi sínu og ferðaskrifstofur og hótel taka oft sérstaka þóknun af þeim sem eru einir á ferð.

Kostirnir við að vera einn á ferð eru hins vegar margir. Maður getur hvílt sig þegar manni langar, sofið út á morgnana ef það er eitthvað sem manni finnst gott eða farið á fætur klukkan sex ef það er það sem mann langar mest. Ef maður fer í glataða skoðunarferð þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að hafa eyðilagt dýrmætan frídag fyrir einhverjum öðrum. Ef maður fer í frábæra skoðunarferð getur maður glaðst yfir því að hafa getað fundið eitthvað sérstakt á eigin spýtur. Maður getur líka villst eins og maður vill látið sig fljóta með straumnum og það er enginn að skipta sér af því. Þeir sem eru einir hitta oft fleira fólk en þegar þeir ferðast með öðrum. Það er nefnilega ótrúlega margt fólk sem er eitt á ferð og langar til að spjalla við einhvern annan. Fólk sem er eitt kynnist líka oft heimamönnum á þeim stað sem það heimsækir.  Þegar maður er einn ræður maður hvort að maður hefur samskipti við aðra eða er bara í sínum eigin heimi.

Flestir sem ferðast einir hafa áhyggjur af öryggi sínu og það ekki af ástæðulausu. Þeir sem eru einir á ferð eiga frekar á hættu að einhverjir óprúttnir reyni að svindla á þeim. Fólk ætti því að vera búið að kynna sér hversu langan tíma það tekur að komast frá flugvelli og þangað sem það ætlar að gista. Ef að fólk ætlar að taka leigubíl ætti það líka að spyrja bílstjórann áður en lagt er af stað hvað fargjaldið komi til með að kosta. Ef maður er ekki sáttur getur maður reynt að finna annan leigubíl eða notað almenningssamgöngur frá flugvellinum. Mörgum finnst líka ákveðið öryggi fólgið í því að bóka hótel þar sem gestamóttakan er opin allan sólarhringinn. Því þar er hægt að fá upplýsingar um skoðunarferðir og láta vita af ferðum sínum.  Munið líka að vera búin að taka myndir af ferðaskjölunum ykkar og vegabréfinu og senda ykkur í tölvupósti. Þá er hægt að nálgast skjölin á einfaldan hátt ef þau glatast. Það sama gildir um peninga og kort. Ekki vera með alla peningana og kortin á sama stað til dæmis í tösku sem hangir utan á ykkur. Verið með eins lítið í töskunni og þið teljið að þið komist af með en setjið í innanklæðaveski.  Það er líka ágætis regla að reyna að líta frekar hversdagslega út, ekki vera áberandi klæddur eða með áberandi skartgripi. Ekki vera með nefið ofan í ferðabókum. Reynið að falla í fjöldann. Ef þið þurfið að spyrja til vegar, segið þá eitthvað á þá lund að þið séuð að fara að hitta einhvern og biðjið um að ykkur verði sagt hvernig þið komist á áfangastað. Fylgið eigin innsæi ef eitthvað ef ykkur líður illa í ákveðnum aðstæðum eða þið hittið fólk sem ykkur list ekki alls kostar á komið ykkur þá í burtu eins fljótt og auðið er. Í heiminum eru starfrætkar margar ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir fyrir þá sem vilja ferðast einir og margar þeirra er að finna á netinu.

 

Ritstjórn ágúst 13, 2019 06:38