Fjórar ástæður fyrir að gera eitthvað ef þú ferð að missa heyrn

Um 20% Bandaríkjamanna hafa misst heyrn að einhverju leyti. Með aldrinum hækkar þetta hlutfall og verður rúmlega 30% þegar menn ná 65 ára aldri. En menn þurfa ekki að búa við heyrnartap og það þarft þú ekki heldur að gera. Satt best að segja getur það komið í veg fyrir alvarleg heilsufarsvandamál að láta meðhöndla heyrnarmissi. Það getur líka stuðlað að því að þú haldið sjálfsörygginu og færni í vinnunni. Að auki getur það varið þig gegn alls kyns óhöppum og slysum í daglegu lífi. Þessi texti er úr grein sem birtist á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum, aarp.org. Það er vitnað í Darius Kohan í greininni en hann er læknir í New York. Hann segir að það sé til staðar tækni sem tryggi að það sé nánast hægt að bæta fólki heyrnartap að fullu.  Hér eru fjögur atriði sem skipta máli varðandi heyrnartap og hvernig brugðist er við því.

Vertu ánægð/ur

Ef þú heyrir ekki hvað fólk segir, er líklegt að þú dragir þig í hlé og takir ekki þátt í samræðum við aðra. Slíkt getur valdið þér áhyggjum, reiði og jafnvel vandræðagangi. Ef ekkert er að gert, er ekki hægt að losna við þessar tilfinningar. Ef ekkert er gert í því þegar fólk missir heyrn,verður það oft til þess að það einangrar sig frá fjölskyldu, vinum, vinnufélögum og öðrum.  „Þegar fólk fer að forðast samræður við aðra, getur það leitt til þunglyndis“, segir Kohan. Rannsóknir hafa sýnt að heyrnartap tvöfaldar líkur fullorðins fólks, á að verða þunglynt. Aðrar rannsóknir hafa að hans sögn sýnt að það að fá sér heyrnartæki, gerir líf fólks ánægjulegra. Hann segir að fólk sem fær sér heyrnartæki lifi skemmtilegra lífi, það vilji taka þátt í því sem er að gerast og tala við aðra. „Það þarf að örva heilann“, segir hann. „Við þurfum finna áhuga kvikna og hafa nóg fyrir stafni. Við þurfum að halda áfram að hugsa og þjálfa okkur“.

Vertu klár í kollinum

Nýlegar rannsóknir sýna að heyrnin hefur áhrif á getu heilans til að ná hámarksfærni. Þó enn hafi menn ekki skilið til fulls sambandið milli heyrnar og starfsemi heilans, sýna rannsókninr að heyrnartap flýtir fyrir aldurstengdri hrörnun heilans, eykur líkur á að andleg færni skerðist og hættu á elliglöpum.  Slæm heyrn eykur álag á heilann, samkvæmt einni kenningunni. Það er að segja, ef þú átt erfitt bæði með að heyra og skilja hvað menn segja, eykur það álagið á heilann.  Bandarískur sérfræðingur lýsir því þannig. „ Ef þú ert í samkvæmi þar sem hávaði er mikill og þú þarft að einbeita þér að því að heyra það sem sagt er, getur komið fyrir að þú munir ekki nafn manneskju sem þú varst að hitta. Það stafar líklega ekki af því að þú eigir erfitt með að muna hlutina, heldur af því að heilinn er of upptekinn við að nema það sem eyrun heyra, til að muna nafnið. Þarna geta heyrnartæki og kuðungaígræðsla minnkað álag á heilann, skilaboð verða aftur skýr og rannsóknir sýna að slíkt getur stöðvað andlega skerðingu og jafnvel snúið henni við.

Vertu örugg/ur

Hljóð í umhverfinu gefa margt til kynna. Þau vara til dæmis við hættu. Bílflaut, hróp og aðvaranir geta bjargað mannslífum, ef menn heyra þau. Menn þurfa nefnilega að gera sér grein fyrir því sem gerist í kringum þá. „Þetta er öryggismál“, segir Kohan. „Ef þú ert að leið yfir götu og einhver flautar bílflautu án þess að þú heyrir það, veistu ekkert hvað þú átt að gera og heldur göngu þinni áfram í mestu makindum, án þess að gera þér nokkra grein fyrir að þú ert í hættu staddur“ Meira að segja þeir sem heyra eingöngu með öðru eyranu, geta verið í hættu, þar sem þeir átta sig ekki á, úr hvaða átt hljóð berast þeim. Rannsókn sem var gerð árið 2012 við John Hopkins rannsóknarmiðstöðina, bendir til að heyrnarmissir þrefaldi hættuna á því að fólk detti. Talið er að þetta stafi af því að fólk sem heyrir lítið sé ekki eins vakandi fyrir umhverfi sínu.En það er líka talið að álagi á heilann geti verið um að kenna, því þegar heyrnartap fær heilann til að einbeita sér enn betur að því að skilja hljóðin í umhverfinu, taka menn síður eftir broti í gólfteppinu eða misfellurm  á gangstéttinni.

Haltu áfram að vinna

Heyrnarmissir getur kostað þig um 30.000 dollara í beinhörðum árstekjum (3.7 milljónir íslenskra króna), segir í greininni, en ef þú notar heyrnartæki, er hægt að spara þér megnið, ef ekki alla þá upphæð. „Ef heyrnarleysi er meðhöndlað, eykur það getu fólks til að stunda vinnu“, segir  Kohan. „Það er frábær tækni til staðar sem hægt er að notfæra sér og ég vildi óska að fólk notaði hana“. Þessi tækni getur kostað ótrúlega háar fjárhæðir – bestu heyrnartækin kosta þúsundir dollara, eða hundruð þúsunda íslenskra króna– en ef menn bera það saman við þær fjárhæðir sem heyrnartapið getur kostað þá, er hugsanlega hægt að spara peninga með því að fjárfesta í réttu tækninni. En það að geta stundað vinnu snýst ekki bara um peninga. Það snýst líka um sjálfsöryggi og ánægju. Þá skiptir líka máli að færni manna til að stunda vinnu hefur áhrif á hversu ánægðir þeir eru í vinnunni og hversu ánægðir atvinnurekendur eru með þá.

 

Ritstjórn maí 25, 2016 11:44