Viagra fyrir konur?

Nýlega mælti bandarísk stjórnvaldsnefnd með því að yfirvöld leyfðu lyfið Flibanserin, sem ætlað er til að auka kynlöngun kvenna en þó með ákveðnum skilyrðum  en þau eru að reynt verði  að draga úr aukverkunum svo sem nokkur kostur er. Búist er við að bandaríska lyfjaeftirlitið úrskurði endanlega um leyfið í sumar. Frá þessu er greint á vefnum aarp.com.

Misjafnar viðtökur

„Ég er í skýjunum yfir þessu“ segir læknirinn Margery Gass, sérfræðingur í kyndeyfð kvenna hjá Cleveland Clinic í viðtali við CNN eftir að álit nefndarinnar lá fyrir.  „Ég er viss um að konur verða ánægðar með að fá eitthvað við þessu vandamáli“ segir hún. En það eru ekki allir jafn ánægðir. Adriane Fugh-Berman læknir og prófessor í lyfjafræði og lífeðslisfræði við háskólann í Georgetown kallar lyfið „meðalgott frygðarlyf með aukaverkunum sem þarf að óttast“ hefur New Yourk Times eftir henni. Hún segir að prófanir framleiðandans á lyfinu hafi aðeins verið gerðar á heilbrigðum konum og verði lyfið leyft verði það notað af mjög fjölbreytilegum hópi kvenna og þá megi búast við að miklar aukaverkanir komi í ljós

Kyndeyfð algengari eftir breytingaskeið

 Nefndin hafði áður hafnað lyfinu Flibanserin á þeim forsendum að aukaverkanir eins og ógleði, þreyta og svimi væru of miklar fyrir tiltölulega lítinn ávinning lyfsins.  Hin daglega bleika pilla er ætluð konum sem ekki eru komnar á breytingaskeið en eru kyndaufar. Þrátt fyrir það er meirihluti kvenna sem kvartar undan kyndeyfð komin fram yfir breytingaskeið.En hversu mikið batnar kynlíf kvennana eftir að þær hefja lyfjatöku? Samkvæmt þremur rannsóknum sögðu konurnar sem tóku þátt að þær upplifðu kynferðislega örvun að meðaltali tvisvar til þrisvar í mánuði áður en lyfjataka hófst. Eftir að lyfjataka hófst fjölgaði skiptunum, en aðeins um eitt, samanborið við lyfleysu. Það er vægast sagt lítill árangur en einn nefndarmanna, Tobias Gerhard, segir að „þörfin sé mikil, jafnvel fyrir lyf með jafn litla virkni“ og hann bætir við að „það að samþykkja lyfið með takmörkunum virðist vera skref í rétta átt“ hefur The Times eftir honum.

 Ekki skylt Viagra

Þó svo að Flibanserin sé stundum kallað Viagra fyir konur er það með öllu óskylt. Í karlmönnum eykur Viagra blóðflæði til limsins sem svo aftur veldur stinningu. Hjá konum snýst málið ekki um blóðflæði heldur efnaskipti í heila sem valda kynlöngun eða skorti á henni. Flibanserin  var upphaflega þróað sem þunglyndislyf og í ljós kom að það getur örvað þau taugaboð sem vekja kynlöngun.Fyrir atkvæðagreiðsluna komu fjölmargar konur fyrir nefndina og sögðu frá skorti á kynlöngun og þeim neikvæðu áhrifum sem hann hefur á líf þeirra þrátt fyrir að þær séu að öllu öðru leyti heilbrigðar. Meðan á málsmeðferð stóð hélt framleiðandi lyfsins því fram að lyfið gagnaðist 40 til 60 prósent kvenna sem hefðu tekið þátt í tilraunum. En hafandi farið yfir rannsóknargögnin sögðu sumir nefndarmenn að sú fullyrðing stæðist ekki þar sem ekki hefði verið tekið tillit til lyfleysu í tölfræðinni, hið rétta væri að lyfið gagnaðist um 10 prósent kvennana að sögn Washington Post. Fugh-Bergman hvatti lyfjaeftirlitið til að láta ekki undan þrýstingi að leyfa lyfið, slíkt myndi skapa mjög slæmt fordæmi.  Þannig gætu fyrirtækin í krafti peninga neytt lyfjaeftirlitið til að samþykkja gagnslaus eða jafnvel hættuleg lyf.

Ritstjórn júní 15, 2015 09:56