Þriðjungur hjóna eldri en 50 ára stundar aldrei kynlíf

Kannski er kynlíf þitt fjörugt. En hvað um alla hina? Fyrstu niðurstöður úr könnun sem enn stendur yfir og nær til rúmlega átta þúsund manns fimmtíu ára og eldri í Bandaríkjunum gefur vísbendingu um hvað er að gerast í samböndum og svefnherbergjum þátttakendanna. Greint er frá könnuninni á vef aarp.com. Lifðu núna ákvað að endursegja greinina og stytta en hana má nálgast í heild hér.  Félagsvísindamenn eru strax farnir að álykta út frá könnuninni og gefa góð ráð.

Kyssirðu eða faðmarðu maka þinn innan um annað fólk?

Næstum 32% karla og 48% kvenna segja nei. Það að sýna hvort öðru ástúð innan um annað fólk virðist vera mjög gott fyrir sambandið, 68% þeirra sem faðmast ekki á almannafæri segjast vera óánægð með maka sinn. Til samanburðar segjast 73% þeirra sem faðmast að þau séu ánægð með maka sinn. Það eru  þau pör sem sýna hvort öðru reglulega ástúð þar sem aðrir sjá til.

Ráð: Ekki halda aftur af þér og ekki hafa áhyggjur af því hvað nágrannarnir hugsa. Að sjá fólk kyssast fær annað fólk yfirleitt til að brosa og sýnir að ástin getur vel þrifist í langtíma sambandi.

Hefurðu lesið tölvupóst maka þíns?

Allt að 39% þáttakenda viðurkenna að hafa stolist til að kíkja á póst maka síns. Jafnmargir hamingjusamir og óhamingjusamir viðurkenna að hafa kíkt.

Ráð: Flestum finnst neikvætt að komast að því að einkalíf þeirra sé ekki virt. Ertu viss um að þú viljir valda því?

Hversu oft haldist þið í hendur?

78% para segjast haldast oft í hendur. En hér eru það yngri samböndin sem eru að halda hlutfallinu uppi. Eftir að sambandið hefur staðið í tíu ár eða lengur hættir fólk að mestu að haldast í hendur.

Ráð: Að grípa í hönd makans getur endurnýjað tengslin í löngu sambandi. Rannsóknir sýna að það að haldast í hendur getur jafnað ágreining.

Hversu oft tjáir þú maka þínum ást?

Meira en 90% karlmanna tjá konum sínum ást reglulega á meðan hlutfallið hjá konum er 58%. Hamingjusömustu pörin, 85% af báðum kynjum, segja hvort öðru a.m.k. vikulega að þau elski hvort annað.

Ráð: Það má alveg taka þessu rólega. Að segja „ég elska þig“ daglega virðist gera mjög mikið fyrir sambandið. Segðu það í lok símtals eða áður en farið er að sofa.

Færðu það einhvern tímann á tilfinninguna að maki þinn stundi kynlíf með þér af tómri skyldurækni?

12,5% þeirra sem hafa verið í sambandi skemur en í eitt ár upplifa það á móti 49,6% þeirra sem hafa verið í sambandi í tuttugu og eitt ár eða lengur.

Ráð: Stingdu upp á kynlífi þegar vel liggur á ykkur og þið eruð óþreytt en slepptu því samt ef makinn er ekki í stuði. En láttu samt þessa tilfinningu að makinn sé að þóknast þér ekki eitra sambandið. Það getur gerst stöku sinnum og fjölmargir þáttakendur könnunarinnar segja að þrátt fyrir það að þau stundi kynlíf af skyldurækni séu þau samt mjög hamingjusöm í sínum samböndum.

Hefurðu notað kynlífsleikföng með maka þínum?

60% kvenna og 40% karla segja já við þeirri spurningu. Titrarar hafa lengi verið hluti kynlífs þáttakenda.

Ráð: Kynlífsleikföng eru löngu orðin að hverri annari neysluvöru. Þau má auðveldlega finna á netinu og í sérverslunum. Ef þú ert forvitin ættir þú að stinga uppá því við makann að þið kynntuð ykkur málið saman.

Hversu oft kyssist þið af ástríðu?

38% allra para hafa alveg lagt það af að kyssast af ástríðu en 74% hamingjusamra para kyssast þannig a.m.k. vikulega.

Ráð: Kossar dýpka tengsl para. Ákveðið að kyssast í hverri viku, dimmið ljósin og hafið góða tónlist í bakgrunni.

Hvað er það sem þú ert ekki að fá frá maka þínum en þig langar samt mest í?

Meir en fjórðungur karlmanna kvartar undan skorti á kynlífi á meðan fjórðungur kvenna segist ekki búa við þann lífsstíl sem þær vonuðust eftir. Um 14% karlmanna og 19% kvenna vilja meiri ástúð. 40% karlmanna og 44% kvenna segja að maki þeirra upfylli allar þeirra þarfir.

Ráð: Sýndu af þér meiri ástúð til að fá meiri ástúð. Bjóddu nudd, notaðu gælunöfn eða klæddu þig upp stöku sinnum til að gleðja maka þinn.

Stundarðu munnmök með maka þínum?

77% kvenna og 60% karla segja já.

Ráð: Pör sem stunda munnmök eru jafn ánægð með maka sína og þau sem engin munnmök stunda. Hvort sem þú tekur þátt eða ekki segir meira um hvað þér finnst gott heldur en hversu gott samband ykkar er.

Hversu oft stundið þið kynlíf?

31% para stunda kynlíf oft í viku, 28% tvisvar í mánuði og 8% stunda kynlíf einu sinni í mánuði.  Þriðjungur hjóna eða para stundar næstum aldrei kynlíf. Fjórðungur mjög hamingjusamra para stundar aldrei kynlíf.

Ráð: Ef þið hafið ekki getað endurlífgað sambandið að þessu leiti má ávalt leita til fagfólks eins og kynlífsfræðinga. Heilsugæslan getur hjálpað til þess að finna slíkan aðila.

 

 

 

Ritstjórn júní 22, 2016 14:36